Að róa kajak um eyjar Breiðafjarðar

Þær eru ekki fjölmennar ferðamannaslóðirnar um eyjarnar í mynni Hvammsfjarðar á  Breiðafirði. Væntanlega er helsta ástæðan að eina ferðaleiðin er með bát. 

Á fyrri öldum voru þessar eyjar byggðar og eyjaskeggjar lifðu góðu lífi á því sem eyjarnar gáfu af margvíslegum hlunnindum-einkum fugli og fiski auk þess sem kindur og kýr lögðu til.. Þetta voru taldar matarkistur þeirra tíma.

 Núna um liðna helgi fórum við 38 félagar í Kayakklúbbnum í velskipulagða ferð um eyjarnar sunnan Breiðasunds . Veðurspá var fremur óviss en þó bærilegt útlit .

 Lagt var upp frá  Ósi við Álftafjörð um kl 10 að morgni laugardagsins 6.ágúst 2011. Veður var gott -smágjóla af NA og gott í sjóinn og sólskin. 

Stefnan var sett á Gvendareyjar en þær eru vesturútvörður þessa mikla eyjaklasa í mynni Hvammsfjarðar.

Það var mikill kayakfloti sem lenti við Gvendareyjar um kl 12 til að fá sér hressingu og skoða sig um í eyjunum.

Kayakfloti í Gvendareyjum-kaffipása

Kayakfloti í Gvendareyjum

Mesta spennan var að sjá sjávarfallastrauminn mikla ,Brattastraum sem er milli Bæjareyjar og Hjallaeyjar. Nálægt sjávarfallafjöru er Brattistraumur mikið sjávarfall við sjávarstreymi innan úr Hvammsfirði – straumharður mjög.

Brattistraumur í ham ,nálægt fjöru

Brattistraumur í ham

En á okkar ferð þarna var háflóð og því enginn Brattistraumur en samt nokkur straumur inn í Hvammsfjörðinn.

Allur þessi eyjaklasi er sem þröskuldur milli Breiðafjarðar og Hvammsfjarðar . Sjávarstraumurinn þarf að fara um þrönga ála milli allra þessara eyja sem hægir mjög á flóðatíma milli Stykkishólms og t.d Staðafells á Fellsströnd-eða 2 ja klst. seinkun.

En þetta fyrirbrigði leiðir af sér gríðalega mikla strauma milli allra þessara eyja . Stærsti straumurinn er Breiðaröst sem á flóði er skipgeng.

 Í Röstinni getur straumhraðinn farið í allt að 25 km/klst með tilheyrandi boðaföllum og straumólgu.

 Vegna mikils hæðarmunar á sjávarflóði og fjöru –eða um 4-4.4 m.  verða fjörur miklar og langar og þröskuldar myndast þar sem á flóði er vel fært. Þetta er því síbreytileg veröld þarna til landslagsins og ferðalaga um svæðið.

Þegar við yfirgáfum Gvendareyjar fórum við yfir Brattastraum í talsverðum straum og iðuköstum. Það gekk allt vel utan þess að einn kayakræðari velti bát sínum í einu straumkastinu. Félagarnir voru fjótir að koma ræðaranum uppí bát sinn á ný og haldið var áfram.

Róið yfir Brattstraum á háflæði

Róið yfir Brattastraum

Nú var stefnan sett á Öxney þar sem búskapur var stundaður allt til ársins 1972 og standa bæjarhúsin og eitt bænhús ennþá uppi og tún sæmilegt til að tjalda.  

Nokkuð snúið getur verið að rata um og milli allra þessara hundruða eyja og finna þá réttu. Við vorum vel búin kortum ,áttavitum og GPStækjum og var því rötun auðveld. Um kl 14 var lent í Stofuvogi framan við gamla bæinn í Öxney.

Slegið var upp tjaldbúðum og farangur settur á land.

Síðan var haldið vestur með Öxney og Eiríksvogur heimsóttur. Eiríksvogur er frægur úr sögunni fyrir það að þarna bjó Eiríkur rauði skip sitt til að leita lands sem menn töldu að lægi NV af Íslandi.

Eiríkur rauði fann Grænland og gaf landinu nafnið og settist það að. En í Eiríksvogi er talið að enn megi sjá rústir búða hans. .

 Og áfram var haldið. Áætlað var að fara yfir í Rifgirðingar sem er næsta eyjan norðan við Öxney. Geysandasund skilur á milli.

 Þegar í Geysandasund var komið var útfallsstraumirinn orðinn það stríður og þungur að varhugavert var að fara með allan þennan kayakflota yfir –án vandræða.

Geysandasund var því róið með landi Öxneyjar í þungum en viðráðanlegum mótstraum. Allt gekk það vel.

 Nafnið Geysandasund er tengt þessum mikla straum sem þarna myndast við flóð og fjöru. Þegar við vorum þarna var straumurinn í hámarki.

Einkennilega lítið var um fugla þarna við eyjarnar frá því sem áður var. Æti fyrir sjófugla fer minnkandi þarna . Þó birtust  tveir fullvaxnir hafernir yfir okkur þar sem við rérum norðan við Öxney. Tilkomu mikið sjónspil þessara konunga fuglaflóru Íslands.

Og þegar Öxney sleppti var stefnan sett á Norðurey en hún tilheyrir Brokey sem er lang stærst eyja á Breiðafirði.

Nú var útfallsstraumurinn á móti okkur og því miðaði hægt. Við tókum land nyrst á Norðurey og höfðum þaðan gott útsýni norður að Gagneyjarstraumi sem á þessum tíma var mikið straumkast > 12 km straumhraði /klst.

 Fuglar léku sér að setjast í straumkastið og náðu sér í góða skemmtisiglingu á miklum hraða

. Og þegar við yfirgáfum Norðurey nutum við þess sama og fuglarnir áður-við brunuðum í straumnum í átt að sundinu þrönga milli Brokeyjar og Öxneyjar.

Þegar þangað var komið var komið nærri fjöru og ýmsir þröskuldar í sundinu komnir á þurrt og gerðu för nokkuð erfiða.

En um kl 18 um kvöldið tókum við land við tjaldbúðir okkar í Öxney-en það var löng leið að bera bátana upp fjöruna og á öruggan stað.

 Neðst í öllum fjörum þarna er mikil leðjudrulla og ógreiðfært yfirferðar. Það var því lán að hafa tjaldað þegar háflóð var- sparaði mikinn burð á farangri.

 Nú var komið að sameiginlegum grill kvöldmat þarna skammt ofan við fjöruborðið. Ræðararnir 39 gerðu vel við sig í mat og hóflegum drykk. Að grilli loknu var kveiktur varðeldur með aðfluttum brennikubbum. Og fararstjórinn, Reynir Tómas Geirsson flutti gott og skemmtilegt ágrip af sögu eyjanna þarna allt frá landnámi og þar til byggð lagðist af uppúr 1970.

Reynir Tómas hafði veg og vanda af  undirbúningi þessa ferðar ,+ásamt ferðanefnd og hafði leyfi landeigenda til ferða þarna um.

 Það voru lúnir en ánægðir kayakræðarar sem lögðust til svefns um miðnætti eftir ferðalag dagsins sem var um 20 km róður í straumum og nálægð þessara fallegu og margbreytilegu eyja.

Nokkrar gæsir flugu yfir og lýstu óánægju með þessa aðkomnu gesti sem yfirtekið höfðu land þeirra þessa helgi. Garg þeirra og gagg var mjög margbreytilegt eftir óánægju hverrar fyrir sig... hver bölvaði með sínu nefi...

Og upp reis nýr dagur,sunnudagurinn 7. ágúst-seinni ferðadagurinn.

Skriðið var úr tjöldunum um kl 8 og hlaðið í sig kjarngóðum morgun mat-því mikill róður var fram undan. Tjöldin felld og öllun farangri komið í bátana.

Kl 11 var lagt upp frá Öxney.

Nú var haldið í Bænhúsastraum milli Brokeyjar og Öxneyjar. Veður hafði breyst frá spánni. NA vindstrengurinn hafði leitað sunnar á eyjaklasann og á leið okkar. Kominn var 8-11 m/sek vindstrengur með tilheyrandi öldu Hvammsfjarðarmegin við eyjaklasann.

Nú lá leið okkar til Brokeyjar í mótvindi en með sjávarfallið með okkur.

Milli Brokeyjar og Norðureyjar er mjög þröngt sund sem er brúað milli eyjanna frá fornu. Þar var á seinni hluta nítjándu aldar sett upp fyrsta vatnsvirkjunin á Íslandi sem nýtti sjávarföllin til að knýja kornmyllu. Verksummerki þessarar okkar fyrstu“ vatnsaflsstóriðju“ eru enn sýnileg.

Frá Brokey. Brúin liggur yfir í Norðurey. Rústirnar af kornmyllunni við brúarendann Í Brokey

Uppi á hæðinni sunnan við bæinn höfðu bændur byggt mikinn útsýnisturn til að hafa góða yfirsýn yfir eyjarnar. Um 140 eyjar stórar og smáar tilheyra Brokey. Farið var í turninn og útsýnið skoðað.

Og áfram var haldið og nú austur þetta þröng sund þar sem innfallsstraumurinn fleytti okkur hratt út í Hvammsfjörðinn.

Og nú lá leiðin suður með Brokey og Suðurey.

Öll skilyrði til veðurs og sjávar voru nú gjörbreytt. 10-12 m/sek A- vindur ýfði sjó i krappar öldur og nú mættu þær hinu kröftuga sjávarinnstreymi inní Hvammsfjörðinn .

 Þetta var suðupottur yfir að fara.

Tekin var matarpása í fallegri og skjólsælli vík þarna á suður-austur enda Brokeyjar og hvílst vel fyrir átökin framundan-að fara Ólafseyjarsund í þessum sjó,straum og vindi sem í raun kom svo óvænt.

Við hádegisverð í SA-Brokey

Vík í SA enda Brokeyjar

Um kl 14.30 var lagt upp frá þessari fallegu vík að loknum málsverði.

Nú byrjaði ballið.

 Haugasjór var kominn út Hvammsfjörðinn og hann skall saman við restina af sjávarinnstraumnum þarna við austurendann á Suðurey. Þessi ólæti stóðu yfir í um hálftíma róður en þá fór straumurinn að breytast í útfall og því með okkur og ölduna lægði.

Allir ræðara stóðust þessa áraun með ágætum og enginn valt.

Nokkrir þrautþjálfaðir kayakræðarar úr hópnum héldu uppi öflugri öryggisgæslu og þéttu hópinn- mjög til öryggis. Það skipti sköpum .

Og síðasta áfanganum á þessari róðrarferð okkar um eyjarnar í mynni Hvammsfjarðar lauk með klukkutíma róðri á lensi og með straum um Ólafseyjarsund ,á upphafsstað að Ósi í Álftafirði.

Afbragðs kayakferð um þessar merku eyjar með öllum sínum töfrum og sjávarfallabreytileika og straumröstum-var lokið um kl 16.00 .

 Um 34 km kayakróður var að baki á mjög fáförnum ferðaslóðum í íslenskri náttúru.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband