12.10.2011 | 17:34
Langisjór-kayakróður síðsumars
Langisjór er stórt stöðuvatn suðvestan undir Vatnajökli og rúmlega 20 km á lengd með stefnuna norðaustur til suðvesturs alls um 27,7 km2 að flatarmáli. Hæð vatnsins yfir sjávarmáli er 670 m og mesta dýpi 73,5 m. Tveir fjallgarðar liggja með vatninu-Breiðbakur að vestan og Fögrufjöll að austan. Vatnajökull rís fyrir norðurenda Langasjávar. Þorvaldur Thoroddsen,náttúrufræðingur lýsti Langasjó fyrstur manna og gaf honum nafnið við lok nítjándu aldar. A þeim tíma lá skriðjökull fram í norðurenda vatnsins en í dag er talsverður spotti frá vatninu og að jöklinum sem lýsir vel hversu Vatnajökull hefur hopað og rýrnað á rúmri öld.
Kayakklúbburinn fór í kayakferð á Langasjó dagana 18-20 ágúst 2007. Alls tóku þátt 10 ræðarar víðsvegar að af landinu. Það er löng leið að fara frá Reykjavík og að Langasjó. Þann 18. ágúst var farið að Hólaskjóli í Skaftártunguafrétti og gist þar um nóttina . Og á laugardeginum 19. ágúst var síðan brunað inn að Langasjó á fjallabílum.
Langisjór -róðrarleið.
Við lögðum bílunum við veiðihúsið sem er við suðvesturenda vatnsins. Allt umhverfið skartaði sínu fegursta,vatnið spegilslétt, litabrigði Fögrufjalla einstök og í rúmlega 20 km fjarlægð bar drifhvítann skjöld Vatnajökuls við himinn. Þetta var stórbrotin aðkoma.
Í upphafi róðurs-horft norður eftir Langasjó-Vatnajökull í baksýn
Nú var hafist handa við að lesta kayakana til tveggja daga ferðar um þetta heillandi svæði uppi á öræfum Íslands, í um 700 metra hæð.
Pistlahöfundur varð fyrir því að uppgötva að svefnpokinn hafði gleymst í Hólaskjóli.
Nú var úr vöndu að ráða.
Inn við norðurenda Langasjávar mátti búast við næturfrosti og því illt að vera án svefnpoka í tjaldinu. Eftir að hafa yfirfarið stöðuna ákvað ég að fara í róðurinn þrátt fyrir þessa uppákomu. Ég var með góða uppblásna dýnu, hlýan fatnað og eitthvað lauslegt til yfirbreiðslu.
En fjórar öldollur voru skildar eftir í bílnum- ekki var á bætandi að missa yl úr kroppnum með alcoholi....
Lagt upp í kayakróður á Langasjó. Hér eru hjón á tveggjamanna fari
Lagt var í róðurinn um kl. 11 að morgni laugardags. Vatnið var sem spegill og Fögrufjöll og himinskýin spegluðust í vatninu. Þetta var ægifögur veröld.
Lengi voru uppi áform um að gera Langasjó að uppistöðulóni fyrir virkjanir á Tungnársvæðinu og veita Skaftá í Langasjó.
Þau áform, ef þau hefðu náð fram að ganga, hefðu rústað Langasjó. Þetta blátæra háfjallavatn hefði orðið að brúnleitum drullupolli með 30-40 metra hæðarsveiflu á yfirborði.
Gróður Fögrufjalla hefði orðið fyrir miklum skemmdum.
Sem betur fer eru þessi áform að baki. Langisjór er friðlýstur með Vatnajökulsþjóðgarði.
En við höldum kayakróðrinum áfram.
Magnað umhverfi. Öræfaparadís.
Fjöllin spegluðust í vatninu og langt í fjarska var Vatnajökull alltaf í sjónlínunni. Einkennileg strýta stóð uppúr vesturjaðri hans og vakti umræður um að eitthvað héti svona flott strýta. Þetta reyndist vera önnur af tveimur strýtum sem Kerlingar nefnast.
Eftir um 6 km róður norður eftir Langasjó var tekin hvíldar og kaffipása á fallegri eyju nálægt strandlengju Fögrufjalla
Lent á lítilli og fallegri eyju-kaffihlé og hvíld.
Og á meðan við njótum kaffis og hvíldar förum við yfir þetta sem "Náttúrukortið" segir um Langasjó
"Langisjór, stærsta blátæra fjallavatn landsins, liggur mitt í ósnortnu víðerni í djúpum dal milli móbergshryggjanna Tungnaárfjalla og Fögrufjalla. Þar er einn fegursti staður landsins, að formum og litbrigðum, víðáttu, og andstæðum. Þráðbeinir hryggir rísa brattir upp af vatnsfleti sem skilur að nær gróðurlausa svarta sanda Tungnaárfjalla og víðlenda skærgræna mosþembu Fögrufjalla með strjálum hálendisgróðri. Í norðaustri rís hvítur Vatnajökull. Breiðbak ber hæst í Tungnaárfjöllum og við suðurenda Langasjávar móbergshnjúkinn Sveinstind (1090 m y. s.) sem Þorvaldur Thoroddsen nefndi eftir Sveini Pálssyni. Langisjór er 20 km langur, allt að 2,5 km breiður og tíunda dýpsta vatn landsins (73,5 m) Afrennsli er til Skaftár um ána Útfall og 12 m háan foss í skarði norðarlega í Fögrufjöllum. Fram undir lok 19. aldar er talið að útfall hafi verið norður úr Langasjó en þá hafi jökull náð að skríða að Fögrufjöllum og lokað rásinni svo að núverandi Útfall varð til. Jafnframt tók jökulvatn að renna í Langasjó og lita hann. Um 1966 hafði jökullinn hins vegar hopað svo að vesturkvíslar Skaftár tóku að renna austur með Fögrufjöllum og Langisjór varð aftur tær eins og hann er talinn hafa verið fram að lokum 19. aldar. Frá Landmannaleið er um 20 km greiðfær slóð skammt norðan við Eldgjá inn að sunnanverðum Langasjó og önnur nokkru vestar að Faxasundum við Tungaá og síðan með Lónakvísl að Langasjó. Í vatninu eru urriði og bleikja. Margir landslagsljósmyndarar telja Langasjó fegursta stað Íslands. Ekki er gert ráð fyrir að Langisjór, Tungnaárfjöll og Fögrufjöll, verði innan væntanlegs Vatnajökulsþjóðgarðs. " Síðasta umsögnin hefur nú breyst-góðu heilli.
Allt hefur sinn tíma og að lokinni hvíld var sest í kayakana á ný og nú var stefnt á Fagrafjörð í þessum áfanga.
Fagrifjörður ber svo sannalega nafn með rentu. Í honum er afar falleg klettaeyja og ofan hennar gnæfir Háskanef. Það er stutt milli fegurðar og háska þarna. Þessi nöfn hafa sennilega orðið til meðal smalamanna fyrr á öldum.
Fagrifjörður - klettaeyjan og yfir gnæfir Háskanef
Eftir gott stopp í Fagrafirði var ferð haldið áfram og nú var markmiðið að róa norður með vatninu og koma auga á Útfallið. Það var ekki fyrr en við komum að því að við heyrðum árniðinn og fundum þetta eina útfall frá Langasjó.
Farið var í land og gengið upp á klettahöfða við norðurhlið árinnar og umhverfið skoðað. Útfallið rennur fyrst í nokkuð láréttu streymi áður en það steypist niður bratta. .
Eftir að hafa skoðað Útfallið tók við lokaáfanginn -inní enda Langasjávar . Þar skyldi tjaldað um nóttina. Það var stuttur róður frá Útfallinu að tjaldstæðinu og fyrren varði var 20 km róðri dagsins lokið. Sama blíða hélst áfram
Nú voru reistar tjaldbúðir á jökulleirnum þar sem 100 árum áður var undir skriðjökli. Stutt var inn að sporði Vatnajökuls.
Nú tók við kvöldverður og að honum loknum var kveiktur varðeldur með aðfluttum brennikubbum. Það var því góður ylur á kvöldvökunni okkar þarna inni á regin öræfum Íslands í um 700 m hæð. Stórkostlegt.
Og við kulnandi glæður varðeldsins skriðu kayakræðarar inní tjöldin og hlýja svefnapokana nema undirritaður hann skreið bara inn í tjaldið því enginn var svefnpokinn.
Næturkul lagði frá jöklinum og reynt var að halda hita á kroppnum með hjálp allra þeirra efnisbúta sem tiltæk voru,öll aukaföt fengu hlutverk flotvesti og kayakstakkurinn skipuðu öndvegi hér og þar og sopið var á heitu vatni -ætlaði hrollurinn að varna svefns.
Allt fór þetta vel og nýr dagur reis á öræfum. Lognið var sem fyrr og Langisjór sem spegill. Að loknum morguverði voru tjöld tekin niður og allur búnaður settur í lestar kayakanna-og ýtt úr vör.
Framundan var 20 km róður suður eftir Langasjó. Og nú blasti Sveinstindur, við allan róðurinn ,í suðri.
Tvær hvíldarpásur voru teknar á eyjum á leiðinni. Og fyrr en varði lentum við í fjörunni neðan við bílana.
Afarvel heppnaðri kayakferð Kayakklúbbsins var lokið.
40 km róður um Langsjó var að baki. Fararstjóri okkar var Páll Reynisson. Það voru ánægðir kayakræðarar sem kvöddu Langasjó á þessum síðsumars sunnudegi í ágúsr árið 2007.
Og undirritaður lauk ferðinni af öræfum með viðkomu í Hólaskjóli og náði í svefnpokann góða.
Góða skemmtun
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.