Jökulfirðir-kayakróður

Það var í júlímánuði ,dagana 24-27 árið 2001 að Kayaklúbburinn í Reykjavík efndi til sjókayakleiðangurs um Jökulfirði á Hornströndum. Þátttakendur voru alls 14.

 Eftir að ræðarar höfðu komið sér til Ísafjarðar var farið með bát frá Ferðaþjónustu Hafsteins og Kiddýar frá Ísafirði að morgni 24.júlí-með allt hafurtaskið og stefnan sett á Hesteyri við Hesteyrarfjörð í Jökulfjörðum. Siglingin þangað tók um 1 ½ klst.

 Mannskapurinn var selfluttur með „tuðru“ í land með farangurinn en kayakarnir voru bundnir saman og dregnir í land.

Kort af Jökulfjörðum og róðrarleið innrituð.

.Jökulfirðir 0024 

Hesteyri fór öll í eyði í nóvember árið 1952. Á Hesteyri myndaðist vísir að þorpi fyrir aldamótin 1900,þegar Norðmenn stunduðu þaðan hvalveiðar og vinnslu á Stekkeyri sem er skammt norðan við þorpið.

Nokkrum húsum er enn vel viðhaldið og notuð sem sumarhús. Í Læknishúsinu, sem er stórt tvílyft timburhús er rekin greiðasala yfir hásumarið.

Þar fengu sjókayakmenn og konur sér „kaffi og pönsur“

     Sjóbúið í fjörunni á Hesteyri

.Jökulfirðir 0021 

Frá Hesteyri liggja gamlar þjóðleiðir til Víknanna á Hornströndum og til Aðalvíkur. Í baksýn er fjallið Kagrafell og Hesteyrarbrúnir (neðan við snjóskaflinn)

 Um Hesteyrarbrúnir lá leiðin frá Hesteyri um Kjaransvíkurskarð yfir í Kjaransvík og Hlöðuvík og síðan þaðan í Hælavík og um Atlaskarð í Hornvík en heiðina til vinstri er farið í Aðalvík.

 Á myndinn eru kayaykræðarar að búa bátana undir róðurinn. Það er mikill farangur sem þarf í ferð sem þessa um Jökulfirðina og voru kayakarnir því þunglestaðir í upphafi ferðar

.Veður var þungbúið og vaxandi vindur var út Hesteyrarfjörð. Og um kl 15 lögðum við upp frá Hesteyri og stefndum inn Hesteyrarfjörðinn að Stekkeyri.

 Á Stekkeyri höðu Norðmenn mikil umsvif í upphafi 20. aldar með hvalveiðum og vinnslu eða allt þar til hvalveiðibann gekk í gildi.

Síðan tók Kveldúlfur við og var með mikla síldarvinnslu framyfir fjórðatug aldarinnar.

Svo hvarf síldin og mannfólkið fluttist smá saman burt-suðuryfir Djúp. Við skoðuðum rústirnar frá þessum athafnatímum.

Og ýtt var úr vör frá Stekkeyri og stefnan sett á útnesið á fjallinu Lás sem er útvörður Hesteyrarfjarðar í austri og skilur að Veiðileysufjörð.

 Nú var kominn strekkings vindur og kröpp alda-það var lens.

       Róið suður Hesteyrarfjörð með fjallinu Lás

.Jökulfirðir 0020 

Þegar komið var að enda fjallsins var komið hvínandi rok og ekki talið ráðlegt að leggja þá í að þvera Veiðileysufjörð.

Kayakarnir voru þunglestaðir og létu því vel í sjó en gæta þurfti varúðar með vindinn í bakið með hviðum og krappri báru.

Ekki er gott að stunda myndatökur við svona aðstæður-nóg var annars að halda jafnvæginu.

Lagst í var við Skaufanes undir Lásfjalli

.Jökulfirðir 0019

Ákveðið var að leggjast í var við Skaufanes fremst við Lásfjall og bíða af okkur veðrið . Mun hvassara veður og sjór var í Veiðileysufjörðinn sem við ætluðum að þvera.

 Það var þægileg tilvera þarna við Skaufanesið meðan við biðum.

 Við fengum okkur góða næringu því löng leið var framundan að Kvíum í  Lónafirði þar sem við ætluðum að hafa bækistöð til tveggja nátta.

 Róið þvert fyrir Veiðileysufjörð

. Jökulfirðir 0018

Og fyrripart kvölds gekk vindur niður og sjólag varð gott.

 Við lögðum upp frá ystaenda Lásfjalls og þveruðum Veiðileysufjörðinn –alls um 6 km róður. Á myndinni sést að ennþá er þungbúið í lofti en skyggni að aukast.

T.v sjáum við Bolafjall sunnan Djúps-þá út Djúpið og Lásfjall næst og framúr því sér til Grænuhlíðar.  Róðurinn yfir Veiðileysufjörð gekk vel.

Lendingarstaðurinn við eyðibýlið Kvíar í Lónafirði

.Jökulfirðir 0017 

Og seint um kvöldið var komið að eyðibýlinu Kvíum eftir rúmlega 20 km róður frá Hesteyri að  hluta til í slæmu veðri.

En þegar að Kvíum var komið var veður orðið með ágætum og bjart yfir.

Að Kvíum voru reistar tjaldbúðir austan Bæjarár og eyðibýlisins.

 Þarna skyldi höfð bækistöð í tvær nætur.

Kvíar fóru í eyði árið 1948. Þar stendur ennþá hið reisulegasta steinhús ,tveggjahæða. Bæjará rennur straumhörð um gljúfur neðan túns –til sjávar.

 Á Kvíum var mest byggt á sjósókn og selveiði inni í Lónafirði –auk búskapar með kindur og kýr. Það var mjög vel búið þarna.

 Á flóði veiddust stórar og feitar bleikjur í ármótum. Þær voru grillaðar í eftirrétti og smökkuðust vel.

 Refafjölskylda átti greni undir Múlanum austan Kvía og mættu sum okkar henni á göngu skammt frá tjaldstaðnum.

 Myndin sýnir kayakana í vör neðan hárra sjávarbakka að Kvíum. 

Handan Jökulfjarðar er Maríuhorn útvörður Grunnavíkur

Haldið inn Lónafjörð

.Jökulfirðir 0015 

Og að morgni 25.júlí var komið mjög gott veður .

 Ákveðið var að róa inn Lónafjörð og inní Rangala sem er innst í Lónafirði .

Þetta yrði um 20 km róður fram og til baka að Kvíum.

 Lónafjörður er talinn fallegastur Jökulfjarðanna ,einkum í Ragala og Sópanda.

 Ekki eru sagnir um fasta byggð í Lónafirði.

 Lónafjörður féll undir Kvíar og var nýttur þaðan einkum til selveiða inní Rangala og mið-Kjós.

 Myndin er tekin utan við Kvíar og horft inn Lónafjörðinn.

 Fremst t.v er Múli,þar fyrir neðan liggur Borðeyri þvert fyrir og fyrir miðri mynd er fjallið Einbúi .

Til hægri við hann er Sópandi og heiðin þar uppaf eru Þrengsli,þjóðleiðin til Barðsvíkur á norður ströndum . Til hægri  er svo Hvanneyrarhlíð.

        Eyðibýlið Gautastaðir innarlega í Lónafirði

.Jökulfirðir 0014 

Eftir nokkurn róður inn Lónafjörðinn blasir við okkur eyraroddi undan brattri fjallshlíðinni. Allur þakinn hvönn.

 Hvönnin vísar til mannvistaleifa um aldir .

Þetta eru Gautastaðir.

Engar sagnir eru um búsetu á Gautastöðum en ekki ósennilegt að þarna hafi verið haft í seli frá Kvíum fyrrum.

 Þarna er einstök fegurð og þessvegna glæsilegt bæjarstæði. 

 Þarna í kring hafa fundist volgrur og steingerfingar trjáa frá tímum hitabeltis á þessum slóðum-þúsundir ára gamlar.

       Rangali í Lónafirði framundan

.Jökulfirðir 0011 

Innst inni í Lónafirði að vestan er Rangali.

Afar fallegur staður á hásumri þegar veður skartar sínu fegursta.

 Upp Rangalann liggur gömul þjóðleið yfir í Hornvík á Hornströndum.

 Algengt var fyrrum að þeir sem á norður Hornströndum bjuggu  létu koma nauðsynjavöru frá Ísafirði með báti yfir í Ranala eða Mið-Kjós,fyrir jólsem þeir síðan nálguðust þegar færð og veður leyfði.

 Þessar birgðir voru síðan bornar á bakinu yfir fjöllin og heim í kotin.

 Oft urðu þetta miklar svaðilfarir og mannraunir.

Spáð og spekúlerað í náttúruna inni í Rangala

.Jökulfirðir 0010 

Dvalist var góðan tíma þarna inni í Rangala.

Mikil og stórbrotin fegurð.

Fjörusvæðið framan við okkur heitir Ófæra. Nafnið skýrir sig sjálft.

Ró og kyrrð inni í Rangala Kayakinn bíður húsbónda síns eins og þægur hestur.

.Jökulfirðir 0009 

Það var erfitt að snúa til baka frá þessum dýrðar stað.

Ein kayakkonan töfraði úr pússi sínu allt til pönnukökubaksturs.

 Ekki amalegt að gæða sér á þeim í blíðunni þarna og virða þessa stórbrotnu náttúru fyrir sér.

 Og að lokum var haldið heim í tjaldbúðirnar að Kvíum.

Grill var sett upp í gamalli fjárrétt á kambinum við Bæjará  og að lokum skriðið í tjöldin efir frábæran róðrardag inni í Lónafjörð og Rangala.

Búist til brottferðar frá Kvíum á þriðja ferðadegi

.Jökulfirðir 0007 

Og nýr dagur reis þarna norður í óbyggðum Hornstrandanna í Jökulfjörðum.

Nú var stefnt þvert austur yfir Lónafjörðinn og í átt að Hrafnfirði.

 Veður skartaði sínu blíðasta ,sól,ekki ský á himni-logn til sjávar.

Lagt upp frá Kvíum

.Jökulfirðir 0006 

Í baksýn á myndinni  eru Höfðaströndin,Kollsá,Staðarhlíð og Maríuhorn fremst .

 Bolafjall sunnan Djúps gægist fram í fjarska.

Rjómablíða til lofts og sjávar.

 Nokkrar hnísur brugðu á leik skammt frá.

Róið inn Hrafnfjörð

.Jökulfirðir 0004 

Eftir að Lónafjörður hafði verið þveraður var komið í Hrafnfjörð.

Lónanúpur er til vinstri .

Gýgarsporshamar fyrir miðri myndi í botni Hrafnfjarðar.

Skorarheiði,gömul þjóðleið yfir í Furufjörð til hægri við hamarinn.

 Og nú var stefnt á Hrafnfjarðareyri í Hrafnfirði.

 Lendingin í fjörunni á Hrafnfjarðareyri

.Jökulfirðir 0003 

Horft er út Hrafnfjörðinn.

 T.v. er KjósarnúpurStaðarhlíð fyrir miðri mynd með Maríuhorn fremst.

Og í fjarska sér í Grænuhlíð og Ritinn norðan Djúps.

Veðurblíðan er einstök.

Minningarkross um útlagann fræga Fjalla-Eyvind  á Hrafnfjarðareyri.

.Jökulfirðir 0002 

Á myndinn er minningarkross um Fjalla-Eyvind en hann bjó síðustu ár ævi sinnar ásamt Höllu í friði við guð og menn. 

Er einfaldur trékross og áhoggin mýrarsteinn, þar sem stendur „ Hjer liggur Fjalla-Eyvindur Jónsson“

Tilurð steinsins er vegna áheits sem bóndi á Hrafnfjarðareyri ,um miðja nítjándu öldina, gerði þegar fé hans var að flæða í botni Hrafnfjarðar og varð Fjalla-Eyvindur við áheitinu og féð koms af.

 Þegar síðustu ábúendur á Hrafnfjarðareyri voru að hafa sig á brott árið 1943, dreymdi heimilisfólkið eins draum síðustu nóttina:

-Fjalla-Eyvindur gekk um hlaðið fram og aftur-við staf“

Að lokinni frábærri dvöl á Hrafnfjarðareyri var róið út Hrafnfjörðinn inní Kjós og síðan þveraður Leirufjörður og tekið land á Flæðareyri.

Þar er mjög gott tjaldstæði við gamalt samkomuhús sem þar er. 

 Slegið var upp tjaldbúðum og sameinast við síðasta kvöldverðinn í þessari ferð.

Og hin nóttlausa veröld þarna var böðuð í rauðri kvöldsólinni í kyrrðinni á Jökulfjörðum. Ógleymanlegt.

Að morgni síðasta róðrardags hafði veður breyst

.Jökulfirðir 

Við vöknuðum snemma þenna síðasta róðrardag á Jökulfjörðum.

 Farið var að kula af norðaustan.

Og þegar við ýttum úr vör þarna á Flæðareyri var kominn talsverður vindur með úfinni öldu.

 Nú var róið vestur með Höfðaströndinni og tekið land við eyðibýlið Kollsá og tekin kaffipása fyrir loka áfangann sem var Grunnavík.

Eftir að lagt var upp frá Kollsá tók Staðarhlið við.

Fyrir miðri Staðarhlíð eru Staðareyrar. 

 Á eyrum voru um aldir fjölmennar verstöðvar einkum á vorin

Jökulfirðirnir voru þá matarkista .

 Sagan geymir margar sögur um slæm sjóslys við Staðareyrar þegar sjór rauk skyndilega upp.

 Við fengum að finna það á þessum síðasta róðrarlegg um Jökulfirði að mjög fljótt er að vinda upp þarna og sjór að verða úfinn.

        Róið undir Maríuhorni-Gathamar framundan

.Jökulfirðir 0001 

Og nú er farið að styttast róðurinn til Grunnuvíkur.

Framunda er Ófæra með Gathamri.

Þrátt fyrir nokkurn sjó rérum við flest um gatið á Gathamri.

Skemmtileg upplifun.

 Og þegar við komum fyrir Garhamar var stuttur róður eftir til Grunnuvíkur þar sem við lentum um kl 16.00 þann 27.júlí 2001.

Alls höfðu verði rónir rétt um 75 km í ferðinni.

Sjókayakfólkið sameinaðist í kaffi að Sútarabúðum í Grunnavík en þar er rekin greiðasala yfir sumarið.

Nokkrir lögðu leið sína í gömlu kirkjuna á Stað en hún er algjör perla.

Vel við haldið og skartar frægum myndum á predikunarstól ættuðum sunnan úr hámenningu Frakklands á fyrri öldum.

Og  ferðaþjónusta Hafsteins og Kiddýar sótti okkur og allt okkar hafurtaks til Grunnuvíkur .

Til Ísafjarðar var komið um kl 20.30 um kvöldið.

 Frábærri sjókayakferð um Jökulfirði á Hornströndum var lokið.

 

Góða skemmtun þið sem lásuð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband