Einn á ferð um Hornstrandir fyrir 20 árum

 Yfir Hornströndum norðan Ísafjarðardjúps hvílir einhver dulmögnun. Hornstrandir fóru í eyði kringum árið 1952 þegar síðustu íbúar flutt frá Hesteyri.
 Áður hafði byggðin öll smásaman verið að leggjast af. Þó var búið áfram í Grunnavík framyfir árið 1960.  Hornstrandir voru einkar harðbýl að vetrum og sumur mjög stutt . Strjálbýlt utan Aðalvíkur og Hesteyrar.
Lifibrauðið var sjósókn og mikil björg sótt í fuglabjörgin miklu-einkum Hornbjarg og Hælavíkurbjarg. Þetta landsvæði hafði heillað mig í mörg ár að heimsækja og þá að ferðast um það gangandi.

 Að fara í ferðafélagshóp var dýrt og ekki kostur fyrir mig .
 Ég hafði því þann möguleika að fá einhvern til að slást í för á eigin vegum. Það leit vel út með það vorið 1993 að Pétur Bjarnason þáverandi fræðslustjóri á Ísafirði væri líklegur samferðamaður- en á síðustu stundu forfallaðist hann til svona ferðar.
 Nú voru góð ráð dýr.
 Og niðurstaðan varð sú að einn skyldi ég leggja upp í Hornstrandaferð.
Ferðin var mjög vel undirbúin. Auk þess að kunna utanbókar „Hornstrendingabók“ hans Þórleifs Bjarnasonar, skólastjóra á Akureyri sem fæddur var og uppalinn hjá afa sínum og ömmu í Hælavík á Hornströndum- þá fannst heilmikill leiðafróðleikur í ritum Útivistar eftir Gísla Hjartarson sem í áratugi hafði verið landvörður og fararstjóri á Hornströndum.  Þetta var leiðsögunestið

 Horft yfir Ísafjarðardjúp –yfir til Hornstranda.  

Hornstrandir Og um eftirmiðdag þann 6. Júlí 1993 var ég kominn á Ísafjörð.
Veðurútlit var gott og gott skyggni yfir Djúpið til Jökulfjarðanna þangað sem för var heitið.
 Un nóttina var gist inní Tungudal í tjaldi. Ferðadagurinn 7. Júlí 1993 var tekinn snemma og allur búnaður til Hornstrandaferðar var gerður klár.

Bílnum komið í stæði skammt frá löggæslunni á Ísafirði og lögreglan beðin fyrir lyklana ásamt upplýsingum um ferðalag mitt.
Að því búnu var farið um borð í Fagranes ,Djúpbátinn sem nú var á leið til Hornstranda með fyrstu viðkomu á Hesteyri -en þar skyldi ferð mín hafin.
Það var margt um manninn um borð í Fagranesinu-ferðamenn að fara í Hornstrandaferð.
 Gott var í sjóinn yfir Djúpið og bjart yfir landinu.

 Siglt inn á Jökulfirðina. Vébjarnarnúpur t.h 

Hornstrandir 0002

   Og eftir rúmlega klst. siglingu frá Ísafirði var lagst utan Hesteyrar á Hesteyrarfirði .
Við vorum komin til Hornstranda.
Engin skipabryggja er á Hesteyri og farþegar og farangur ferjaður í land með slöngubát.
Ég var fljótur niður á dekk þar sem slöngubáturinn beið.
Enginn af þessum mörgu ferðamönnum  um borð voru  þar staddir svo ég spurð ferjumanninn hverju það sætti ?
 Og svarið var: „Þú ert bara einn hér í land.“
 Þar með fóru allar væntingar fyrir lítið, um samfylgd yfir fjöllin norður í Hornvík-þangað sem för var heitið. 
Þegar komið var í fjöru á Hesteyri settist ég í grasið ofan fjörukambsins og hóf að næra mig duglega fyrir væntanleg átök frá Hesteyri um Kjaransvikurskarð og til Búða í Hlöðuvík.
 Og ég horfði á eftir Fagranesinu sem hélt för sinni áfram norður á Hornstrandir með allt ferðafólkið.

Fagranesið heldur för sinni áfram norður Hornstrandir 

Hornstrandir 0004

 Og á meðan ég borðaði þarna á fjörukambinum leit ég yfir DV sem ég hafði keypt um leið og ég yfirgaf Ísafjörð.
 Þar gat að líta heldur óskemmtilega frétt :
 Spor eftir bjarndýr voru talin hafa sést í fjöru á þeirri leið ég færi um.
Þetta setti að mér ugg.
Átti ég að halda för áfram eða hætta við.
En fréttin bar með sér að ekki var þetta óyggjandi-að þarna hefði verið bjarndýr.
 Það var sem sé vafi.
Ég ákvað að halda áfram för og bakpokinn var axlaður  Hann var um 20 kg og innihélt allt sem til þurfti í útileguna á Hornströndum.

Í Hornstrandaferð er allra veðra von og þarf því allur búnaður að geta varið ferðamanninn.
 Enginn fjarskiptabúnaður var með í för- GSM símar þá ekki til og ekkert GPS tæki- þau voru óþekkt þá.

En gott kort og góður áttaviti var allt sem snéri að leiðsögn.
Ég var í óbyggðum og dagleiðir til byggða.
Og það var lagt af stað um kl 16:30 þann 7.júlí 1993 frá Hesteyri.
Eins og fyrr sagði fór Hesteyri í eyði upp úr 1952 en þar hafði verið nokkuð kauptún og rekin þar síldarverksmiðja og hvalstöð frá því um aldamótin 1900. 
Fjöldi gamalla húsa er þar ennþá og notuð sem sumarhús erfingja þeirra sem þar bjuggu fyrrum.

Nú lá leiðin upp á Hesteyrarbrúnir sem eru í um 200 m. hæð og liggja undir Kistufelli og stefnt á Kjaransvíkurskarð.
Öll er þessi leið nokkuð vel vörðuð frá fyrri tíð enda þjóðleiðin milli Hesteyrar og byggðanna í Víkum og í Hornvík og fyrrum fjölfarin á öllum árstímum.
 Nokkrir snjóskaflar urðu á leið sem fara þurfti yfir með gát vegna leysinga í giljum undir niðri og slæmt að hrapa þar niður um veika snjóþekju.
 En á þessari löngu leið þarna um hvarflaði hugurinn til hinna slæmu frétta um hugsanlegt bjarndýr á leiðinni.
Farið var yfir hvað gæti orðið til bjargar ef návígi kæmi til.
Ekki yrði gæfulegt að hlaupa burt.  Ég á 8-10 km hraða /klst en björninn á sínum 50 km/klst. –vonlaust. Eina vopnið sem ég hafði var vasahnífur – hann dyggði lítið á þykkan feldinn.
Niðurstaðan var sú að taka því sem að höndum bæri og vona það besta.

Og ég nálgaðist Kjaransvíkurskarð.   

Hornstrandir 0006

Upp nokkra brekku var að fara upp í skarðið.
Og nú var spennandi að kíkja yfir og huga að hvítum feldi, en úr Kjaransvíkurskarði er vítt útsýni yfir leiðina framundan.

 

 


 Efst í Kjaransvíkurskarði.  Álfsfellið næst og horft niður í Kjaransvíkina . Fjærst er Hælavíkurbjarg

Hornstrandir 0008         Úr Kjaransvíkurskarði er einkar glæsilegt útsýni með svipfagurt Álfsfell í forgrunni ,Kjaransvíkina niður við sjávarmál og síðan sjálft Hælavíkurbjargið í fjarska.
Eftir skönnun á landslaginu var engan hvítan feld bjarndýrs að sjá.
 Mér létti mjög og fyrr en varði var ég sestur að snæðingi á túngarðinum í Kjaransvík.
Sama góðviðrið hélst en stundum sveimuðu skýjabakkar um efstu fjallstinda.
Nú var orðið stutt eftir í náttstað sem var Búðir í Hlöðuvík.
Yfir tvær ár var að fara ‚fyrst Kjaransvíkurá og síðan Hlöðuvíkurós.
 Ekki þurfti að vaða Kjaransvíkurá. Í ósnum hafði hlaðist upp þvílíkt kaðrak af rekavið að með varúð var hægt að klöngrast þar yfir.
Eftir það lá leiðin fyrir Álfsfellið og með gamla eyðibýlinu Hlöðuvík og þá tók við Hlöðuvíkurós.
 Nokkuð vatnsmagn var í ósnum og þurfti að gæta varúðar við að vaða hann.
Og þessari 17 km löngu gönguleið frá Hesteyri lauk svo við sumarhús sem stendur þar sem heitir Búðir, undir Skálakambi.
 Tvö smá tjöld voru þar á túnbletti.
 Við það sem var nær stóð ungur ferðamaður og sagði : „Guten abend „ og við hitt tjaldið var ungt par sem ávarpaði ferðalanginn: „Bonsoir“ Ég tók undir með sömu orðum.
Síðan hófust nokkrar umræður á einhverskonar ensku – það gekk vel.
 Sá þýski var á leið um Hornstrandir og Strandir.
Hann var frá mið Þýskalandi – og var einn á ferð.  Þau frönsku voru á svipuðu róli – þau voru búsett í miðri Parísarborg.
Og ég hinn innfæddi upplýsti þau svona í stuttu máli um tilveruna á þessum slóðum hjá fólkinu sem þarna lifði um aldir.
Það fannst þeim áhugavert.
 Síðan var tjaldað –matast og lagst til svefns. Hafaldan norðan úr Íshafinu sem braut á fjörusandinum var svæfandi niður.

 Búðir í Hlöðuvík. Skálakambur rís yfir
 og Hælavíkurbjarg skagar fram í baksýn.  

Hornstrandir 0010

Þegar skriðið var úr svefnpokanum um morguninn og litið út um tjaldið blasti við svipað góðviðri og daginn áður.
Sá þýski og þau frönsku voru að leggja af stað upp Skálakamb og norður í Hornvík um Hælavíkurbjarg. Ekkert bjarndýr var sjáanlegt.
Þegar lokið var við að matast og pakka öllum ferðabúnaðinum saman í og á bakpokann- var lagt upp.
Nú var það sjálfur Skálakambur sem fyrst þyrfti að sigrast á.
Skálakambur er einn þekktasti fjallvegurinn þarna á Hornströndum vegna hættulegra aðstæðna einkum að vetarlægi í snjó og harðfenni.
 Margar skráðar heimildir eru um háska sem menn hafa þar komist í- en leiðin í Hælavík og í Hornvík lágu einatt um Skálakamb –nema í einsýnu veðri – þá var farin „fjallasýn „ eða yfir fjallgarðana á efstu tindum.
En að sumarlagi þegar snjór er að mestu uppleystur þá er för um Skálakamb í raun brattur en nokkuð góður fjallvegur .
Leið mín upp Skálakamb með hinar þungu byrðar gekk vel og fyrr en varði stóð ég á toppnum.

 Á Skálakambi. Horft yfir Hlöðuvík og Kjaransvík. 

Hornstrandir 0011

 Fyrir miðju er fjallið glæsilega. Álfsfell.
Og fremst er varðan sem staðsetur veginn í dimmviðri.  
Eftir nokkra dvöl á Skálakambi var ferðinni haldið áfram.
Nú var stefna sett á Atlaskarð þar sem kaflaskil eru milli Hornvíkur og Hælavíkur.


 Horft af Skálakambi niður í Hælavík undir Hælavíkurbjargi 

Hornstrandir 0013

Leiðin af Skálakambi liggur um svonefnda Fannalág og liggja þar fannir lengstum.
Nokkuð er bratt upp í Atlaskarð og yfir snjófannir að fara.
Nauðsynlegt var að spora sig varlega – enda hæðin mikil renni maður af stað.

Fannir sporaðar upp í Atlaskarð sem er efst til v.
  

Hornstrandir 0014

Ferðin sóttist vel og áfram var góðviðri þó nokkuð skýjað væri .
 Þá rak dimmt ský yfir fjallið og þurfti ég að ganga eftir áttavita talsverðan spotta- en svo birti upp á ný.

Engan sá ég eða mætti nokkrum manni á leiðinni. Franska parið og sá þýski sáust ekki enda ætluðu þau að fara út á Hælavíkurbjarg og með því í Hornvík

 Í Atlaskarði .  

Hornstrandir 0015

Dýrðlegt útsýni yfir Hornbjargstindana. Frá vinstri er Miðfell, þá skagar Jörundur upp og í framhaldi er Kálfstindur og síðan Dögunarfell
 Þegar upp í Atlaskarð er komið blasir Hornvíkin við og er Rekavík bak Höfn neðst við marbakkann.
 Nú lá leiðin niður úr Atlaskarðinu um grösugar brekkur og með hjalandi hvítfissandi fjallalækjum- skemmtileg ganga.
 
Í Rekavík bak Höfn  

Hornstrandir 0016Og rétt áður en komið var að Rekavík bak Höfn var tekin kaffipása og hellt upp á könnuna.
 Hornbjarg er handan Hornvíkur  
Þarna var gott að láta líða úr þreyttum fótum og fá sér orkubirgðir fyrir lokaáfangann sem var tjaldstæðið við Höfn í Hornvík.
Nokkrir póstar voru eftir m.a um Tröllakamb.
Frá Rekavík bak Höfn þarf að fara með bjargbrún og að Tröllakambi sem er forvaði í sjó út.
Allt gekk það vel.


 Tröllakambur en hann er klifinn þarna yfir skarðið t.h.  Hornstrandir 0017

Yfir Tröllakamb verður að klífa um skarð ,sem er fremur létt.
Ofan við Tröllakamb er smá hellir sem varð frægur um fyrri hluta síðustu aldar þegar bændur á Horni við Hornvík felldu þar stórt bjarndýr,eftir harða viðureign.
En ekkert hafði ég ennþá séð til bjarndýrs og reyndar hættur að hugsa um það.
 Nú tók við loka gangan frá Tröllakambi að tjaldstæðinu í Höfn

 Við sunnanverða Hornvík og skammt
 í tjaldsvæðið og göngulok
 

Hornstrandir 0018

  Fljótlega blasti tjaldsvæðið við og voru þar nokkur tjöld sjáanleg og fólk á vafri við þau.
 Ég var á ný kominn til mannabyggða.
Og þegar að tjaldstæðinu kom tók á móti mér einhentur maður og taldi ég að þar væri kominn Gísli Hjartarson- sá er hafði verið mér svo góður leiðsögumaður yfir fjöllin með skýrum leiðalýsingum sínum.
Hann varð undrandi þegar ég þakkaði honum fyrir það.
 Það var liðinn sólarhringur frá því ég lagði upp frá Hesteyri með mínar þungu veraldlegu byrðar og nokkurn huglægan þunga vegna hugsanlegrar heimsóknar hvítabjarnar.
En sú saga gæti hafa endað öðruvísi, því um svipað leyti og ég var þarna á ferð voru sjómenn að fanga hvítabjörn í hafi nokkuð vestur af Hornströndum.
Þeir komu honum um borð en hengdu hann við aðfarirnar.
 Mikill kuldi var þarna yfir næturnar- um frostmark og var erfitt um eldun með mínum gamla gasprímus og ekki alltaf heitt í matinn og jafn vel stundum hrátt.
En heitt á brúsa fékk ég hjá tjaldgestum á svæðinu.
Síðan var næstu tvo daga gengið á Hornbjarg.

 Horn í Hornvík. Í baksýn er Miðfell.  

Hornstrandir 0023

  Og við sögulok:
Fagranesið var tekið úr Hornvík inná Ísafjörð að lokinni dvöl í Hornvík

Góða skemmtunSmile

 

 

 





Miðnætursólarlag í Hornvík
Hornstrandir 0027

Gönguleiðin
Hornstrandir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Emilsson

Kærar þakkir fyrir góða grein.

Björn Emilsson, 12.12.2013 kl. 02:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband