14.5.2015 | 17:03
Hamrafell , olíuskipið mikla
Hamrafell
Myndin er tekin í lok september árið 1956 á Ermasundi í fyrstu ferð þess undir íslenskum fána
Það var um kl 20:00 þann 18. september árið 1956 að DC4 skymaster flugvél Loftleiða tekur á loft frá Reykjavíkurflugvelli . Um borð eru um 40 manns á leið til Stockhólms í Svíþjóð til að taka við 17.000 tonna olíuskipi sem Skipadeild SÍS hafði fest kaup á.
Skipið var langstærsta skip sem Íslendingar höfðu nokkru sinni eignast.
Flogið var um Stafanger í Noregi,Kaupmannahöfn og til Stockhólms . Svona ferðalag tók á þeim tíma langan tíma þó á flugi væri .
Við lentum í Stockhólmi undir hádegi daginn eftir brottför frá Reykjavík.
Þegar við komum um borð var gamla áhöfnin enn um borð ,norskir yfirmenn en kínverskir undirmenn - en þeir fóru allir þegar við komum.
Skipið hafði verið í fragt í Asíulöndum og því ýmis skorkvikindi enn um borð-einkum stórir kakkalakkar. Byrjað var á að svæla allar vistarverur út- sem tókst mjög vel.
Alls stóð islenska áhöfnin saman af 42 manns. Og næstu dagar fóru í að setja sig ínn í þennan nýja heim og tæknibúnað sem svona risa olíuskip var . Til þess nutum við aðstoðar Norðmannanna .
Og svo var skipið vígt 23. september 1956 af forystu Sambandsins og um leið var því gefið nafnið Hamrafell og með heimahöfn í Hafnarfirði.
Frá Nynashamn í Svíþjóð
Og þann 24. september 1956 var lagt upp í fyrstu ferð Hamrafells undir íslenskum fána- frá Nynashamn í Svíþjóð. Ferðinni var heitið til Caripito í Venesuela í Suður Ameríku:
Siglt var um Kílarskipaskurðinn frá Eystrasaltinu yfir í Ermasund . Í Brunsbuttel við Kílarskipaskurðinn var tekin olía og vistir til ferðarinnar.
Og í Ermasundi var stefnan sett á Asoreyjar þar sem bæta skyldi við vatn og frekari vistir.
Siglingin þangað gekk vel og áhöfnin farin að kunna á tæknina-einkum reyndi mikið á vélarliðið í þeim efnum
Frá Asoreyjum
Ekki var lagst við bryggju á Asoreyjum ,heldur komu bátar með vistir og vatn til okkar. Einkum voru þetta ávextir og margir þeirra nýnæmi fyrir okkur norðan frá heimskautsbaug- helst vorum við hrifnir af að sjá og borða anans eins og hann kom af trjánum:
Og áfram var haldið frá Asoreyjum og nú var stefna sett á Port of Spain á eynni Trinidad
Siglingin var yfirleitt ljúf ,en margt samt nýstárlegt fyrir okkur -t.d flaug nokkuð af flugfiskum upp á dekk eina nóttina- þá urðum við undrandi á náttúrunni .
Og einnig þótti okkur himininn fallegur þegar stjörnubjart var- þvílíkan aragrúa af stjörnum höfðum við ekki litið..
En samt urðu tafir á leið okkar.
Það urðu sem sé vélarbilanir í aðalvélinni.
Það varð bilun í stimpli sem þá varð að skipta um. Þeir voru engin smá smíði um 700 m.m í þvermál og 1400 m.m á hæð . Einnig þurfti að skipta um fóðringu fyrir hann . Þetta reyndi nokkuð á í hliðarveltingi - en tæpan sólarhring tók að gera við og unnið í einni törn.
Á meðan var Hamrafell bara á reki.
Og svo var gangsett og haldið áfram og allt í góðu.
Siglingaleiðin frá Nynashamn í Svíþjóð til Caripito í Venesuela
Ekki man ég lengur nákvæmlega hvað marga daga við vorum á þessari siglingu en sennilega 12-14 dagar.
Og eftir því sem við nálguðumst Suður Ameríku hlýnaði í veðri og fötum á kroppunum fækkaði.
Vistarverurnar um borð voru mjög góðar -allt einsmanns herbergi-vel búin. Stórir matsalir með setustofum.
Sameiginlegt þvottahús og stór og vel búin böð. Enda var mikil nauðsyn á svona aðbúnaði á langsiglingum um hitabeltissvæði .
Og verulegur hluti af áhöfninni vann bara á daginn meðan verið var á sjó og frí um helgar.
Veran minnti oft á stórt skemmtiferðaskip - einkum þegar sól var hátt á lofti og útisvæði þakin sólbaðsfólki
Og við erum að nálgast Trinidad
Þegar komið var til Trinidad var lagst fyrir utan höfnina í Port of Spain og tekinn hafnsögumaður þar til að fylgja okkur til Caripito sem var um 200 km inni Venesuela og eftir fljóti að sigla.
Nú er siglingin orðin merkileg- tiltölulega þröngt fljót og frumskógurinn á báðar hliðar af ærslafullu lífi sem þar býr-apar fuglar og svoleiðis.
Það var komið myrkur að kvöldi þegar lagst var að smá bryggjustúf þarna við olíulögnina sem við tengdumst til lestunar sem hófst strax.
Flestir fóru land og uppí smá frumbyggjaþorp sem þarna var.
En við vélarliðið urðum að fara í meiriháttar viðgerðarvinnu við stimpla aðalvélarinnar sem tíðum voru að bila.
Það var tæpra sólarhrings vinnutörn hjá okkur -síðan var hallað sér smá stund og farið í land.
Frá bryggjustúfnum í olíuhöfninni í Caripito
Eitt veitingahús var þarna og seldi kaldan bjór - en umhverfið var framandi og hálf villt á að horfa - svona indíánabragur á þessu.
Og þegar við komum um borð aftur þá var lestun lokið og stefnt að brottför.
Á miðri leið niður fljótið var okkur gert að stoppa þar sem mikill eiturflugnafaraldur gekk yfir um nóttina og okkur gert að loka okkur inni.
En svo kom sólin upp og við héldum för áfram og stefnan sett á Gautaborg í Svíþjóð- en saga fyrstu ferðar Hamrafells undir íslenskum fána og með íslenskri áhöfn endar hér.
Já það eru liðin 59 ár frá þessu ævintýri
Góða skemmtun
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.5.2015 kl. 10:16 | Facebook
Athugasemdir
Kærar þakkir Sævar fyrir þessa góðu og skemmtilegi frásögn.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 14.5.2015 kl. 17:48
Takk fyrir það Haukur.
Það eru margir af frumherjunum sem þarna komu við sögu- nú látnir- og sem lögðu mikið af mörkum til að þetta ævintýri tækist hjá okkur- þessari smáu og þá fátæku þjóð- hæst ber forystumenn Sambandsins
M.a í minningu þeirra er þessi smásaga sögð.
Það var mikið afrek sem í var ráðist með þessi kaup á olíuskipi sem þá fullnægði flutningsþörf okkar fyrir olíu og á viðsjálverðum tímum þegar Suez stríðið braust út árið 1956 og olíverð snarhækkaði og erfitt að fá flutning til okkar - yfirleitt.
Sævar Helgason, 15.5.2015 kl. 10:22
Var ekki sovétolían komin til skjalanna hér?
GB (IP-tala skráð) 15.5.2015 kl. 10:54
Jú, fyrsta ferð skipsins var til Suður Ameríku fyrir Svía. En í framhaldi hnnar þá tóku við siglingar til Batumi í Svartahafi og með Sovétolíuna sem við keyptum í vöruskiptum fyrir ýmsar okkar afurðir. Á fyrst ferðum okkar þarna um Miðjarðarhafið vorum við í stríðsástandi- herflugvélar á sveimi og herskip um allt . Þegar Suez stríðið braust út þá lokaðist Susezskurður fyrir allri umferð og ekki síst olíuskipa sem önnuðust markaðinn í Evrópu og Ameríku. Það varð að sigla suður fyrir Afríku. Það varð þá þegar mikill skortur á olíuskipum og olíuverð snarhækkaði. Þetta ástand kom einnig við Sovétið og okkur Ef Hamrafell hefði ekki verið komið í okkar eigu á þessum tíma- þá hefði orðið hér erfitt ástand- en það var jú tilviljun- en afdrifarík. Síðan tóku Rússar sjálfir að sér að flytja þessa olíu til okkar og Hamrafell fór á almennan leigumarkað allt til loka í okkar eigu. En merkilegir tímar og merkilegt skip fyrir þá mjög fátæka smáþjóð hér norður í hafi.
Sævar Helgason, 15.5.2015 kl. 11:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.