31.8.2007 | 15:07
Langisjór
Við fórum nokkrir félagar úr Kayakklúbbi Reykjavíkur ,alls 10 manns, í róðrarferð á Langasjó dagana 18 og 19 ágúst 2007.
Langisjór er í 670 metra hæð yfir sjó og liggur frá suðvesturhlið Vatnajökuls með stefnu suðvestur-norðaustur.
Við hófum róðurinn frá veiðihúsinu sem þarna er við suðurenda vatnsins og rérum inní norðurbotn Langasjávar ,alls 20 km róður eða 40 km fram og til baka . Náttúrufegurð þarna er stórbrotin, eyjar margar og litskrúðugar ,svo og hellar uppaf fjöruborðinu skapa ævintýraheim og vatnið kristaltært .
Slegið var upp tjaldbúðum inni í norðurenda Langasjávar, skammt undan Vatnajökli ,og við ljósaskiptin var kveiktur varðeldur með brennikubbum sem við höfðum í farteskinu. Setið var við eldinn fram undir miðnætti í þessu magnaða og ægifagra umhverfi, við spjall og ekki síst ...þögn.
Nokkuð kalt var um nóttina vegna smá kuls frá Vatnajökli
Allt framundir vor þessa árs var á plani að gera uppistöðulón þarna vegna raforkuvirkjunnar og veita Skaftá til Langasjávar með tilheyrandi stíflugörðum hér og þar og hækka með því vatnsyfirborðið um marga metra af gruggugu vatni frá Skaftánni og með tilheyrandi sveiflu á vatnsyfirborði hausta á milli... og þar með eyðileggingu á þessu ægifagra umhverfi sem nú er.
Sem betur fer er Langisjór nú kominn á friðunarlista og verður vonandi að eilífu...þessi náttúruperla.
Við lukum síðan kayakróðrinum þar sem bílarnir biðu okkar við veiðihúsið um kl 16. þann 19.ágúst.
Það voru alsælir kayakræðarar sem kvöddu Langasjó á þessum síðsumareftirmiðdegi
Athugasemdir
Prófun
Sævar Helgason, 12.9.2007 kl. 22:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.