9.9.2007 | 21:21
Grímseyjarferjumál
Það er ekki hægt annað en að þakka Mbl. fyrir vandaða umfjöllun á þessu Grímseyjarferjumáli, sem birt var í sunnudagsblaðinu þann 9. sept.
Ekki fæ ég betur skilið en að ráðamönnum hafi gengið gott eitt til , að leggja Grímseyjingum til ferju sem uppfyllti öll skilyrði fyrir slíkan farkost og jafnframt að gæta hófsemdar varðandi kostnað fyrir ríkissjóð. Það er framkvæmdin sem fer rækilega úr böndunum eins og nú er ljóst.
Fyrir það fyrsta virðist skoðun á skipinu fyrir kaupin ekki hafa verið fullnægjandi með tilliti til ástands þess. Verklýsing í útboði gaf því takmarkaðar upplýsingar um heildarumfang verksins til að fullgera skipið til þess verks sem því var ætlað að sinna.
Grímseyjingar voru ekki upplýstir né hafðir með í ráðum á frumstigi verkundirbúnings. Að falla frá verksamningum við Litháa vegna smámáls sem vantaði inní þeirra tilboð þ.e málingarvinnu, vekur óneitanlega upp þá spurningu að á ráðherrastigi hafi verið tekin sú ákvörðun að fela verktakanum, VOOV , í Hafnarfirði framkvæmdina. Það að fella út úr verkskilmálum ýmis veigamikil skilyrði til þess eins að gera þennan hafnfirska verktaka "hæfan" til verksins segir nokkuð skýrt til um vinnubrögðin.
Þegar búið er semja við verktakann, þá fyrst er farið að ræða við Grímseyjinga um óskir þeirra til skipsins og þá byrjar kostnaðarboltinn heldur betur að rúlla. Breytingaóskir á breytingaóskir ofan sem flestar ef ekki allar ná fram að ganga setur alla frumverklýsingu tilboðsins í algjört uppnám og verkið verður í raun stjórnlaust. Allur kostnaður fer úr böndunum. Eftir lýsingu í Mbl. virðist verktakinn hafa ráðið því sjálfur hvað öll þessi aukaverkefni kostuðu...reikningarnir voru bara greiddir, að því er virðist, umyrðalaust.
Verktafir hjá verktakanum VOOV eru slíkar að það er alveg ótrúlegt að verksamningi hafi ekki verið rift fyrir löngu síðan. Ráðamenn hafa greinilega haldið í vonina um að "Eyjólfur færi að hressast" og færi að ljúka verkinu en verktakinn kemur bara með nýjar og nýjar verkáætlanir þegar honum sýnist svo. Ekki sér enn fyrir endann á þessu dæmalausa verki .
Og hver er síðan ábyrgur fyrir öllu þessu klúðri. Mér finnst að mál þetta verði að kanna alveg niður í kjölinn og að þeir sem ábyrgðina bera axli hana.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:03 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.