12.9.2007 | 09:46
Náttúruvernd og samgöngur
Hún er brýn þörfin á Vestfjörðum fyrir bættar samgöngur innan fjórðungsins, já stórbættar frá því sem nú er. Fregnir berast af ófærð á vegum um Barðastrandasýslurnar , síðsumars, vegna aurbleytu og ekki fólksbílafært , víða. Óviðunandi ástand.
Þegar ljóst varð að niðurskurður á þorskveiðum yrði mjög verulegur í ár og jafnvel næstu árin, þá var borðliggjandi að Vestfirðirnir yrðu fyrir miklu tjóni vegna þessa , um sinn. Ríkisstjórnin boðaði mótvægisaðgerðir til að milda og draga úr slæmum efnahagsáhrifum vegna þessa , einkum á landsbyggðinni. Hvað kemur Vestfirðingum betur en stórbættar samgöngur og á meðan unnið er að samgöngubótum , skapast mikil atvinna og í kjölfar samgöngubóta verða öll viðskipti hagkvæmari og hagsæld eykst, almennt ?
Með samgöngubótum styttast vegalendir, umferðahraði eykst, viðhald vega minnkar og umferðaræðar haldast opnar árið um kring...sannarlega til mikils að vinna.
En ekki er sama hvernig að málum er staðið við lagningu vega og margs að gæta.
Það sem ég vil benda á er fyrirhuguð vegalagning um suðurfirðina, í Austur Barða-strandasýslu , en þ. e. leiðinni sem ætlað er að fara gegnum Teigsskóga í Þorskafirði.
Horft út Þorskafjörð frá Teigsskógi
Teigsskógur er víðáttumesti náttúrulegi birkiskógurinn á Vestfjörðum og mjög stór á landsvísu. Teigsskógur er upprunalegur birkiskógur með reynitrjám og miklum undirgróðri, sem er einstakur. Teigsskógur er á náttúruminjaskrá auk þess sem fornminjar eru nokkrar á svæðinu. Dýralíf er mikið enda svæðið afskekkt og afar fjölskrúðugt náttúrufar.
Fyrirhugað vegastæði í Teigsskógi
Þarna um er áætlað að leggja veg eftir skóginum endilöngum og valda þarmeð stórspjöllum á þessum einstæða skógi svo og náttúrunni allri. Að auki myndi þverum Djúpafjarðar og Gufufjarðar , vegna þessa vegastæðis, valda miklum spjöllum á lífríki þeirra.
Skipulagsstjóri hafnaði hugmyndum um vegalagningu þarna , við umhverfismat, en Umhverfisráðherra , Jónína Bjartmaz,felldi þann úrskurð og heimilaði þessa vegalagningu.
Er einhver jafngóður eða betri kostur í stöðunni varðandi samgöngubætur þarna ?
Bent hefur verið á fara með veginn í göngum um Hjallaháls yfir í Djúpafjörð og síðan í öðrum göngum frá botni Gufudals, þvert yfir í Kollafjörð. Þessi leið myndi stytta leiðina frá því sem nu er um 20 km og yrði 8 km styttri en leið um Teigskóg og það sem meira er , sennilega yrði kostnaður minni.
Ég tel að nú sé brýnt að endurskoða fyrri ákvörðun ,vanda hér til verka og ekki flana að neinu.
Eyðilegging á Teigsskógi og umhverfi hans yrðu óafturkræf náttúruspjöll.
Samgöngumálaráðherra og Umhverfismálaráðherra er óskað gæfu og gengis í mikilvægum störfum sínum fyrir land og þjóð.
Nóg að sinni
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:34 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.