Sjóróðrar á vetrardögum

 Bræla á haustdegi út af Gróttu

Haustið hefur verið æði umhleypingasamt til sjóróðra á minni bátum og hafi gefið að morgni hefur yfirleitt verið þæfingur og pus að koma sér í land síðla dags. Í dag brá heldur betur til betri tíðar- stafalogn , sléttur sjór og hiti um 4 °C frá morgni og fram í myrkur. Sjávarhiti var um 3 °C við yfirborð

Ég nýtti mér þetta góðviðri og réri á mínum litla bát hér út á grunnmiðin undan Vatnsleysuströndinni á um 30 metra dýpi. Veiðarfærið var sjóstöng og silfurlitaður pilkur.

Ýsan brást vel við og varð aflinn drjúgur og fiskurinn vænn.  Þegar  enginn er kvótinn, þá er heimildin sú að einn fiskimaður með einn öngul má veiða sér fisk til eigin neyslu og basta. Það þarf því að kunna sér hóf við veiðarnar - veiða ekki meira en nýtist vel.

Og nú fer skammdegið að leggjast yfir með vaxandi hraða og daginn styttir óðfluga- róðrum sem þessum fer því að fækka þetta árið, en í lok janúar á nýju ári hefst hringrásin að nýju. Fiskurinn fer aftur að ganga á grunnslóð og fjölbreytnin eykst, þorskur, steinbítur og jafnvel smálúða fer að gæta í bland við ýsuna og rauðmaginn fylgir grásleppunni sinni á hrygningarstöðvarnar. Þá er stutt í vorið.

Það er hin skemmtilegasta tilvera að vera þátttakandi í þessu ævintýri, á sjó.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Gaman að lesa svona fréttablogg Sævar, hefði verið gaman að hafa mynd af bátnum þinum

Kær kveðja

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 24.11.2007 kl. 14:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband