Við áramót

Og nú er árið 2007 senn á enda runnið.  Frá sjónarhorni þessa bloggara hefur árið verið um margt merkilegt og viðburðaríkt.

Við sem búum hér í Hafnarfirði fengum í byrjun ársins það verkefni að vega og meta hugsanlega stækkun álversins í Straumsvík og síðan ganga til kosninga um nýtt deiliskipulag vegna þessarar álversstækkunar.

Ljóst varð nokkuð fljótt að íbúar skiptust í nokkuð jafnar fylkingar , með eða á móti.  Þeir sem meðmæltir voru lögðu áherslu á atvinnuuppbygginguna og væntanlegar tekjur bæjarins og bæjarbúa ef af stækkun yrði.

En þeir sem voru á móti höfðu ýmis sjónarmið t.d  að svona risaverksmiðja nánast inni í íbúðabyggðinni væri hið versta mál , sumir voru mótfallnir vegna umhverfismála  þ.e raflínumál og miklar náttúrufórnir vegna virkjanna en Kárahnjúkavirkjun hafði nánast umpólað þjóðinni gagnvart virkjun fallvatna.

En það sem  afdrifaríkt reyndist við höfnun stækkunar Alcanverksmiðjunnar í Straumsvík var mjög umdeild starfsmannastefna fyrirtækisins, en skömmu fyrir atkvæðagreiðsluna hafði þremur rosknum starfsmönnum verið vikið fyrirvarlaust frá störfum ,með afar köldum  hætti, eftir að þeir höfðu starfað hjá fyrirtækinu í áratugi- sá gjörningur fór illa í mjög marga bæjarbúa.

En kosningabarátta hélt áfram, því að loknum álversmálum þá tóku landsmálin við.  Við sem erum í liði Samfylkingarinnar áttum mjög á brattan að sækja í upphafi og það virtist sem að liðsandinn væri ekki sem skildi, en á landsfundi Samfylkingarinnar sem haldinn var skömmu fyrir upphaf  kosningabaráttunnar , urðu vatnaskil. 

Áhrifamikil ræða formannsins, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, á landsfundinum skipti sköpum. Af þessum fjölmenna landsfundi fór afar samstilltur og baráttuglaður hópur jafnaðarmanna og kvenna í harða kosningabaráttu og hafði góðan sigur.

Við tók myndun Þingvallastjórnarinnar þar sem Samfylking og Sjálfstæðisflokkur skipta með sér verkum. Síðan er tíðindalítið af vettvangi stjórnmálanna fram á haustið. 

Þá verður sprenging- jarðvarmaorkumálin komast í uppnám. Nánast í skjóli nætur höfðu fjármálamenn með borgarstjóranum í Reykjavík , Vilhjálmi Vilhjálmssyni, gert vægast sagt umdeildan "samning" við Orkuveitu Reykjavíkur um stórverkefni erlendis . Um tíma virtist sem öll jarðvarmavirkjanamál á Reykjanesskaganum sigldu hraðbyri í hendur erlendra aðila - allt í okkar lögum var galopið í þá veru.

Ung og upprennandi stjórnmálakona Svandís Svavarsdóttir sprengdi þessar fyrirætlanir í tætlur með hugdjarfri uppreisn gegn gjörningnum - samstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í borgarstjórn leið undir lok og myndaður var nýr meirihluti undir forystu Samfylkingarinnar- Dagur B. Eggertsson tók við sem borgarstjóri Reykvíkinga.

Og iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson er með í smíðum frumvarp til laga þar sem yfiráð Íslendinga á orkuauðlindunum verða ávallt í almenningseigu þó svo nýting þeirra geti eftir atvikum verið einkavædd .

Hafnfirðingar , Grindvíkingar og Vogar stofnuðu í framhaldinu félag, Suðurlindir, til að tryggja yfirráð og nýtingarrétt á jarðavarmalindum á þeirra landsvæði á Reykjanesskaganum.

Það er enginn vafi að orkan og orkunýtingin er mál málanna nú og næstu áratugina hér á Íslandi.

Nú er frekar horft til annarra iðngreina varðandi orkunýtinguna en sölu til álvera - verðið á orkunni verður hærra og áhættunni er dreift á fleiri körfur.

Málefnum aldraða, sem voru mjög í brennidepli kosningabaráttunnar  hefur miðað hægt en mikilvæg skerf hafa þó verið stigin sem koma til framkvæmda á árinu 2008. Engar lífeyrishækkanir fyrir hina lakast settu meðal aldraða hafa enn litið dagsins ljós, en beðið er hvort yfirstandandi kjarasamningar lagfæri kjörin - ef sú verður ekki raunin ,verða kjör þeirra sem eru á strípuðum töxtum frá Tryggingastofnun R. áfram undir fátækramörkum, það er óviðunandi hjá einni  ríkustu þjóð heims.

Niðurskurður þorskveiðiheimilda, á áliðnu sumri ,varð byggðum landsins mikið áfall.

Þetta umdeilda fiskveiðakerfi okkar sætir mikilli gagnrýni - því sem það átti að koma til leiðar hefur ekki gerst- aflaheimildir fara síminnkandi og aflaheimildir leita á færri hendur- byggðalögin blæða og mörgum þeirra blæðir út. 

Þessu kerfi verður að breyta og í þá veru að byggðirnar umhverfis landið hefjist á ný til þess vegs að nýta fiskimiðin við heimabyggð og uppbyggingar sjávarplássanna. Orkufrekar veiðar og skaðsamar fyrir lífríki sjávar víki fyrir vistvænum veiðum og orkusparandi. Núverandi ástand gengur ekki.

Það er ekki hægt að kvarta yfir að árið 2007 hafi ekki verið viðburðaríkt  og um margt merkilegt.

Gleðilegt nýtt ár. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Gleðilegt ár Sævar og takk fyrir bloggsamskiptin og bloggfærslurnar þínar á árinu sem er að  líða.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 31.12.2007 kl. 15:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband