10.6.2008 | 18:00
Vatnajökulsþjóðgarður- Langisjór- Teigsskógar- náttúruvernd
Vatnajökulsþjóðgarður
Stofnun Vatnajökulsþjóðgarðsins sem umhverfisráðherra , Þórunn Sveinbjarnardóttir , lýsti formlega, laugardaginn 7.júní 2008- er stór merkur atburður í náttúruvernd á Íslandi - sennilega sá stærsti í sögunni . Við það tækifæri þakkaði hún Hjörleifi Guttormssyni, náttúrufræðingi, mikilvæg störf tengd þessum merka viðburði- að Vatnajökulsþjóðgarður er orðinn staðreynd. Þessum áfanga til verndunar og jafnframt nýtingar, án spillingar landsins og gæða þess- er fagnað. Vatnajökulsþjóðgarðurinn er geysistór , um 13 þúsund ferkílómetra . Þórunn, umhverfisráðherra minntist á í sinni vígsluræðu m.a. að hún teldi allar líkur á að Langisjór bættist við þjóðgarðinn síðar á árinu.
Langisjór
Fögrufjöll austan Langasjávar
Langisjór hefur um árabil verið á válista andspænis hinum virkjanaáköfu.
Langisjór býr yfir einstakri náttúrufegurð umgirtur Fögrufjöllum og jökulskjöldur suðvesturshluta Vatnajökuls er í aðalhlutverki í baklandinu. Ef hann yrði virkjanaöflunum að bráð , þá yrði Skaftá veitt í hann - yfirborð hans hækkað um marga metra og í stað kristaltærs vatnsins , breyttist hann í jökullitaðan drullupoll. Allt umhverfi og það með Fögrufjöll yrðu fyrir óbætanlegu tjóni og engum yndisauki.
Fagrifjörður í Langasjó
Ég átti þess kost, sl. sumar að róa kayak um Langasjó endimarka á milli og læt hér fylgja nokkrar myndir úr þeirri ferð - fólki til glöggvunar á þessari ægifögru öræfaparadís.
Horft til endimarka - Vatnajökull í bakgrunni
Hafi umhverfisráðherra fararheill við að bæta Langasjó við Vatnajökulsþjóðgarð- þar á Langisjór svo sannarlega heima
Teigsskógar
Teigsskógur í vestanverðum Þorskafirði er víðáttumesti birkiskógurinn á Vestfjörðum og mjög stór á landsvísu. Meðfylgjandi myndir eru teknar í júlí 2007 í kayakferð frá Stað á Reykhólum og í Teigsskóga þar sem gist var yfir nótt.
Frá Teigsskógum- vegastæði ?
Teigsskógur er svo til ósnortinn birkiskógur, með reynitrjám og miklum undirgróðri, og er einstakur.
Teigsskógur er á náttúruminjaskrá auk þess sem fornminjar eru nokkrar á svæðinu.
Dýralíf er mikið enda svæðið afskekkt og afar fjölskrúðugt náttúrufar. Þarna um er áætlað að leggja veg eftir skóginum endilöngum og valda þar stórspjöllum á þessum einstæða skógi svo og náttúrunni allri.
Að auki myndi þverum Djúpafjarðar og Gufufjarðar , vegna þessa vegastæðis, valda miklum spjöllum á lífríki þeirra.
Teigsskógar- horft út Þorskafjörðinn
Skipulagsstjóri hafnaði hugmyndum um vegalagningu þarna , við umhverfismat, en umhverfisráðherra , Jónína Bjartmaz,felldi þann úrskurð og heimilaði þessa vegalagningu.
Er einhver jafngóður eða betri kostur í stöðunni varðandi samgöngubætur þarna ?
Bent hefur verið á fara með veginn í göngum um Hjallaháls yfir í Djúpafjörð og síðan í öðrum göngum frá botni Gufudals, þvert yfir í Kollafjörð.
Þessi leið myndi stytta leiðina frá því sem nú er um 20 km og yrði 8 km styttri en leið um Teigskóg og það sem meira er , sennilega yrði kostnaður minni.Ég tel að nú sé brýnt að endurskoða fyrri ákvörðun ,vanda hér til verka og ekki flana að neinu.
Eyðilegging á Teigsskógi og umhverfi hans yrðu óafturkræf náttúruspjöll.
Enn er borð fyrir báru með að vernda þennan einstæða skóg - umhverfisráðherra og samgönguráðherra eiga val.
Grænanetið umhverfissamtök innan Samfylkingarinnar fyrirhugar ferð í Teigsskóga í júlíbyrjun 2008
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:56 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.