31.12.2008 | 12:14
Frá árinu 2008 og til framtíðar.
Árið 2008 er nú senn á enda runnið.
Frá mínu sjónarhorni er tvennt sem stendur uppúr .
Í fyrsta lagi banka og efnahagshrunið og í öðru lagi hrun stjórnmálanna á íslandi. Hið fyrra , bankahrunið er afleiðing af hinu seinna , hruni stjórnmálanna.
Ljóst er orðið að á síðustu áratugum hafa stjórnmálin þróast frá því að vera brjóstvörn og umsjónaraðili okkar samfélagslegu gilda þjóðlífsins - yfir í að vera varðhundur viðskiptalífsins, stjórnmál klíku og flokkadrátta.
Með bankahruninu hefur komið í ljós að höfuð ástæða þess hvernig fór var að skipulega hafa leikreglur og eftirlit með viðskiptalífinu verið, ýmist afnumdar eða gerðar óvirkar með fullkomnu aðgerðarleysi. Klíkurnar og flokkadrættir tóku yfir.
Nýfrjálshyggjan varð að hreinu trúmáli.
Markaðurinn væri óskeikull- hann leiðrétti sjálfur allar skekkjur og misfellur- því minni afskipti stjórnvalda af markaðinum- því betra fyrir heildina var boðskapurinn og allar aðgerðir og aðgerðaleysi stjórnvalda urðu samkvæmt kennisetningu viðskiptalífsins.
Gott dæmi um þetta eru "Skoðanir Viðskiptaráðs" til nokkurra ára. Þar er hælst um yfir því að meira en 90% af óskum þeirra um minnkuð afskipti stjórnvalda af viðskiptalífinu- náðu fram að ganga. Þar á bæ var æðsta boðorðið að þeirra eigin sjálfskipuðu reglur skyldu gilda.Við því urðu stjórnvöld. Afleiðingin varð síðan efnahagshrun heillar þjóðar með skuldaklafa til kynslóða.
Stjórnmálaöflin brugðust fólkinu í landinu- þjóðinni allri.
Í kjölfar þessara atburða sem á haustdögum var hellt yfir þjóðina upphófst mikil reiði.
Fjölmennir mótmælafundir eru haldnir vikulega á Austurvelli þar sem þúsundir koma saman til að mótmæla stöðu mála.
Helstu kröfurnar eru að yfirstjórnum fjármálaeftirlitsstofanna , stjórn Seðlabanka og Fjármálaeftirlits verði vikið frá , að ríkisstjórnin víki og boðað verði til kosninga.
Nú þrem mánuðum eftir hrunið hefur enginn axlað ábyrgð eða verið látinn axla ábyrgð. Hroki og raunveruleikaskyn stjórnmálanna gagnvart þjóðinni kom einkar skýrt fram á 2000 manna borgarafundi í Háskólabíó - þegar ráðherra lýsti því að þar væri þjóðin ekki stödd og allar skoðanir og kröfur sem þar komu fram- ómarktækar- þar töluðu einstaklingar.
Áætlað er að um 20 þúsund manns verði atvinnulausir þegar í mars 2009. Mótmæli munu halda áfram og sennilega stigmagnast. Vonandi átta stjórnvöld sig á því að þau eru í sætum sínum fyrir tilverknað kjósenda- þjóðarinnar- ekki sín vegna.
Árið 2009 verður erfitt ár.
Samdráttur í þjóðaframleiðslu,atvinnuleysi mikið-fjöldagjaldþrot munu einkenna þjóðlífið. Ljóst er að innihald núverandi stjórnmálaflokka er málefna og forystulega komið í þrot.
Fólkið í landinu hefur misst allt traust til þeirra. Tortryggni ræður ríkjum. Ábyrgð þessa fólks sem hefur boðið fram krafta sína til þjóðmálaforystu - er mikil.
Tími flestra þeirra í íslensku stjórnmálalífi er liðinn. Nýtt fólk óbundið af orsökum niðurlægingar þjóðarinnar- verður að taka við.
Mikilvægt er að við endurreisn stjórnmálanna verði blandað saman reynslu og þekkingu - þar veljist saman hinir eldri og reyndari ásamt hinum sem yngri eru - raunveruleg stjórn þjóðarinnar.
Mikilvægast af öllu er að skapa traust milli þjóðar , stjórnmálanna , viðskipta og atvinnulífsins . Allar þær aðgerðir sem eru í gangi og verða í endurreisninni verða að vera uppi á borðinu og gagnsæjar.
Opinberar fjáreftirlitsstofnanir og Seðlabanki öðlist traust og trúverðugleika.
Og að lokum : Kosið verði til alþingis fyrrihluta vors 2009 og að Íslendingar gangi til samvinnu við Evrópuþjóðirnar og taki hér upp traustan gjaldmiðil sem færir okkur stöðugleika til frambúðar.
Öll él birtir upp um síðir. Sameinuð sigrumst við á öllum okkar erfiðleikum.
Burt með klíkuskap og flokkadrætti.
Gleðilegt og heillaríkt nýtt ár.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 1.1.2009 kl. 18:41 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.