15.10.2009 | 22:24
Ruddaskapur við veiðiheimildir í sjávarútvegi ?
Frétt af mbl.is
Segir fyrningarleið ruddaskap
Innlent | mbl.is | 15.10.2009 | 20:59
Það er fullkominn ruddaskapur að tala um innköllun veiðiheimilda án þess að taka skuldir fyirtækjanna og einstaklinganna þar inn í. Þetta kom fram í máli Arthúrs Bogasonar formanns Landssambands smábátaeigenda í setningarávarpi á aðalfundi samtakanna í morgun.
Lesa meira
-------------------------------------------------------------------------------------------------------
Hvaða hræðsla er þetta hjá formanni smábátaeigenda ?
Það er verið að ræða um að innkalla veiðiheimildirnar á 20 árum.
Og það á ekki að hætta að veiða fisk. Veiðiheimildum verður að sjálfsögðu úthlutað, en í nýju og breyttu fiskveiðikerfi.
En í stað þess að kaupa veiðiheimildir í því braskumhverfi sem nú viðgengst- verða heimildir boðnar upp á markaði. þar standa allir jafnt að vígi. Svona er þetta hugsað í megin dráttum.
Nú er starfandi starfshópur hagsmunaaðila á vegum Sjávarútvegsráðherra sem er að finna ásættanlegan grunn að breytingu á fiskveiðistjórnunarkerfinu.
það er talað um mikla skuldsetningu í sjávarútvegi- víst er það sumstaðar.
Eitt fyrrum öflugt útgerðarfyrirtæki á Grundafirði varð gjaldþrota með 3 milljarða skuld vegna hlutabréfakaupa í fjármálabólunni- alls óviðkomandi útgerð.
Einn í Vestmannaeyjum er með gjaldfallna skuld upp á 65 milljarða vegna svipaðra mála- óviðkomandi útgerð.
Því miður braskið með veð í lifandi fiskinum í sjónum - sem er sameign íslensku þjóðarinnar- er ólíðandi.
Verulegur hluti aflaheimilda er nú veðsettur í banka í Luxembúrg- farinn úr landi.
Þetta fiskveiðistjórnunarkerfi sem við höfum búið við í 23 ár er ónýtt og hefur engu skilað varðandi fiskvernd-afli hefur hraðminnkað frá setningu þess.
Kominn tími á að breyta því.
Segir fyrningarleið ruddaskap | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Magnað með þessa menn sem eiga kvóta að þeir eru þeir einu sem finna þessu nýja kerfi allt til foráttu. Mér verður flökurt af því að heyra þessa menn rökstyðja það að kvótakerfið óbreytt sé það sem koma skal og það sé óréttlátt að fara í breytingar.
Reyndar er ég hræddur um að beinasninn hann Jón Bjarnason hafi eingöngu sett þessa nefnd á laggirnar til þess að komast hjá því að taka ákvarðanir sjálfur. Svo er það hitt með þessa blessuðu 15 manna nefnd. Meirihluti hennar er meðfylgjandi óbreyttu kvótakerfi, í ljósi þess má spyrja af hverju í andsk. er LÍÚ með tvo fulltrúa? Því miður sé ég ekki fyrir mér að neitt breytist varðandi þessi mál í nánustu framtíð með vinstri græna í stjórn.
Birgir (IP-tala skráð) 15.10.2009 kl. 23:14
þeir líta á fyrninguna sem eignaupptöku en á sama tíma prédika þeir að úthlutun aflaheimilda sé eingöngu afnotaréttur að auðlindinni. Þeir sem fjárfestu í varanlegum veiðiheimildum voru að veðja á hátt fiskverð. Hátt fiskverð myndast ef framboði er haldið lágu. Þessvegna er kvótaeigendum meinilla við allar tillögur um auknar aflaheimildir og fyrningu eignfærðs kvóta. Jafnvel þó fyrningin sé miklu minni en heimildir þeirra sjálfra til afskrifta á skattframtali leyfa. Þessum mönnum er ekki viðbjargandi. Þeir vilja ekki lifa í sátt við þjóðina. Þessvegna ber að koma á fót nýju og réttlátara fiskveiðistjórnunarkerfi samhliða þessu gamla. Þessu gamla verður lokað miðað við úthlutun eins og hún var fyrir fiskveiðiárið 2008 og um það sett lög sem banna tegundartilfærslur, framsal og geymslu. Í nýja kerfið færist öll aukning og viðbótarkvótar sem hefur verið úthlutað til gömlu kvótahafanna að þessu fiskveiðiári loknu. Nýja kerfið skal leggja áherslu á veiðar og vinnslu aflans í heimabyggð og skylt verður að setja gæði ofar magni. Margir hafa á þessu skoðanir og er mikilvægt að öllum gefist tækifæri til að koma hugmyndum sínum á framfæri og að samning nýrrar fiskveiðilöggjafar fari ekki fram í Ráðuneytinu undir leiðsögn Hafró. Hafró hefur mistekist að byggja upp helstu nytjastofna svo það er sjálgefið að leita annarra lausna en í boði hafa verið undanfarin 30 ár
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 15.10.2009 kl. 23:20
Sævar; það er sjálfsagt að laga kerfið ef það er gallað og leggja það af ef það er ónýtt. En það er ekki gott að leita uppi verstu dæmin í röksemdafærslu. Það eru til margir heiðarlegir og dugmiklir útgerðarmenn sem ekki hafa gert annað en það sem lögin bjóða og myndu skaðast af innköllun ef ekki er tekið tillit til skulda á móti.
Jóhannes; heimild til afskrifta í skattframtali var lögð af og hefur verið bönnuð síðan árið 2000.
Haraldur Hansson, 16.10.2009 kl. 01:51
Takk fyrir leiðréttinguna Haraldur. Ég lærði skattskil 1988 Sennilega hafa nýjar reglur beinlínis ýtt undir óábyrga fjármálastjórnun fyrirtækja. Allavega verður að útskýra það betur fyrir mér hvernig fyrning aflaheimilda sem nota bene , aldrei mynduðu eignarrétt, hvernig innköllun þeirra heimilda getur lagt sjávarútveginn í rúst eins og áróðursmeistarar LÍÚ segja. Afhverju geta bara sumir stundað útgerð með því að leigja til sín kvóta á uppsprengdu verði. En þeir sem leigja frá sér kvóta geta ekki stundað útgerð ef þeir verða látnir borga sanngjarnt verð fyrir hráefnið (fiskinn) sem verður ekki nema brot af gangverði leigukvóta eins og það var síðast liðið ár
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 16.10.2009 kl. 11:36
Takk fyrir málefnalegar umræður...
Sævar Helgason, 16.10.2009 kl. 13:06
Jóhannes; ég segi hvergi "leggja sjávarútveginn í rúst", heldur að útgerðarmenn geti skaðast. Og úr því þú spyrð þá er hér eitt alvöru dæmi:
Ég þekki mann sem hefur stundað sjó í áratugi. Hann fékk 4 tonna "gjafakvóta" á trilluna sína í árdaga kvótans. Löngu seinna keypti hann netabát með einverjum kvóta og gerir hann út í dag, með 410 tonna kvóta. Þar af hefur hann keypt 406 tonn, samkvæmt gildandi lögum. Síðustu kvótakaup hans voru vorið 2008 þegar hann keypti fyrir 300 milljónir og setti veiðiheimildirnar að veði fyrir láni til kaupanna.
Þetta er bara venjulegur dugmikill sjómaður. Rekur sitt fyrirtæki vel, það er hóflega skuldsett og hann skapar vinnu í sjó og á landi fyrir 12-15 manns, sem munar um í litlu plássi.
Verði keyptar veiðiheimildir afturkallaðar er verið taka af honum tvennt:
Hann missir eignina, en situr eftir með skuldina. Til að halda sömu sjósókn þarf hann nú í staðinn að leigja til sín kvóta (til viðbótar afborgunum af lánunum), því reksturinn er ekki hagkvæmur ef kvótinn fer mikið undir 400 tonn á ári.
Þessi maður er ekki kvótakóngur. Hann hefur ekki fengið neitt gefins og hvorki keypt sé pizzastað né þyrlu. Hann stundar heiðarlegan rekstur og skapar verðmæti, gjaldeyristekjur og atvinnu. Hvers vegna á að vera hægt að gera íþyngjandi breytingar með því að breyta reglunum eftirá? Athugaðu að kvótakerfið, eins og það er í dag, hefur mótast á 25 árum.
Ég ætla ekki að verja kvótakerfið. En þessi kratahugmynd um að innkalla kvótann hefur ekki verið hugsuð nema hálfa leið. Þetta er ábyrgðarlaust hjal sem var soðið sama kortéri fyrir kosningar til að fiska á hana atkvæði.
Ef þú nennir að eyða fáeinum mínútum í lestur, þá tók ég saman þessa færslu í sumar, um þróun kerfisins og álitamál varðandi innköllunarhugmyndir krata.
Haraldur Hansson, 17.10.2009 kl. 00:36
"Ég ætla ekki að verja kvótakerfið. En þessi kratahugmynd um að innkalla kvótann hefur ekki verið hugsuð nema hálfa leið. Þetta er ábyrgðarlaust hjal sem var soðið sama kortéri fyrir kosningar til að fiska á hana atkvæði."
Þessi staðhæfing er alröng. Þessi lausn hefur fengið ýtarlega umfjöllun -allavega innan Samfylkingarinnar,nánast frá stofnun hennar.
Grunnhugmyndin er að innkalla 5% kvóta/ári og eyða núverandi kerfi upp á 20 árum. Auðvitað geta þeir sem missa 5%/ári sín fengið þau til baka , en þá með nýjum og breyttum skilyrðum. Fiskveiðar verða stundaðar áfram og vonandi dreifðar um landið allt.
Núna þessa mánuðina er verið að fara mjög vandlega og með mjög ábyrgum hætti í útfærsluna á þessu mikla fjöreggi þjóðarinnar allrar- ekki bara sumra. Auðlindin er þjóðareign - undirstaða tilveru okkar hér í þessu landi- ekki séreign fárra.
Skuldir sjávarútvegsins erum um 5-600 milljarðar á meðan aflaverðmæti/ár erum um 120 milljarðar. Þannig að yfirveðsetning í greininni er gríðarleg- eitthvað sem kvótakerfið átti að koma í veg fyrir . Og ástæðan er veðsetningarheimildir á óveiddum fiskinum í sjónum - fyrir útvalda. Upphafið að hruni Íslands, sem við búum við núna, átti sér eldsmat í gjafakvótanum.
En nú er ég að fara á sjó -til veiða - veður er gott og aflavon.... þó enginn sé kvótinn.
Sævar Helgason, 17.10.2009 kl. 10:52
Haraldur takk fyrir svarið. þótt spurning mín hafi verið almennt til þeirra sem málið varða. En gott og vel. Þú nefnir dæmi sem er gott og gilt. En þú reiknar ekki dæmið miðað við forsendur.
Í fyrsta lagi þá eru fyrirhugaðar afskriftir 5% á ari sem er mjög hóflegt.
Í öðru lagi þá hefur fiskverð hækkað umtalsvert við hrun gengisins
Í þriðja lagi þá eru allar líkur á umtalsverðum afskriftum skulda sjávarútvegsfyrirtækja
Miðað við þessar forsendur þá getur enginn haldið því fram að sjávarútvegurinn geti ekki staðið undir afskriftunum. Ég tala ekki um þann áróður að þjóðfélagið skaðist ,sem er þvílíkt skrum að ekki tekur tali. Fiskur verður veiddur og seldur áfram þótt einhverjir af núverandi kvótakóngum sem lifa á framsali leggi upp laupana.
p.s Vonandi gekk sjóferðin vel Sævar þótt kvótakerfið hafi gert okkur að þrælum í eigin landi
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 18.10.2009 kl. 10:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.