Metró-lestarkerfi fyrir höfuðborgarsvæðið ?

Umræður varðandi lestakerfi á höfuðborgarsvæðinu verða sífellt tíðari og alvörugefnari.

Alþingi hefur ályktað um verkefnið og vill alvarlega skoðun á þessum  lestarkosti. Fram kemur í fréttum að nú þegar hafi 14 aðilar sent samgöngunefnd alþingis umsögn  um athugun á lest milli höfuðborgarinnar og Keflavíkurflugvallar ásamt léttlestarkerfi fyrir höfuðborgarsvæðið. Þeirra á meðal er svokallaður metróhópur í verkfræðideild Háskóla Íslands, en þeir vilja skoða vandlega neðanjarðarlestakerfi.  Sannarlega áhugavert.

 Í miðborg Montreal við Metró stöð 

P1010046

Í var nú í vor staddur í Montreal í Kanada og m.a voru mér samgöngumálin hjá þeim mér mjög hugleikin.  Þeir hafa byggt þrjár línur af  neðanjarðarlestakerfi að fyrirmynd þeirra í París- Metrólestarkerfið. 

Þetta er afar afkastamikið lestarkerfi og útfrá lestarstöðvunum tekur síðan við öflugt strætókerfi sem er farmiðalega samtengt. 

Athygli mína vakti að þetta kerfi varð til í tíð eins borgarstjóra í Montreal- hann stefnumarkaði málið og framkvæmdi það með glæsibrag.

Þetta góða lestarkerfi þýðir að bílanotkun innan borgarinnar er mjög lítil  og tröllsleg umferðamannvirki eins og BNA menn hafa byggt, eru ekki fyrir hendi.

Frá Montreal- almenningsumferð 

P1010073 Montrealbúar hafa komið sér upp meira en 300 km af reiðhjólagötum sem eru mikið notaðar og þykir flottur ferðamáti.

 Fólk er mikið gangandi um borgina og er það vel merkjanlegt á líkamlegu útliti þess- grannholda og hraustlegt.

Við hér á höfuðborgarsvæðinu stöndum á tímamótum að mínu mati varðandi lausn almenningssamgangna- eigum við að fara sömu leið og t.d BNA menn og byggja okkar samgöngur á einkabílnum og þá með tilheyrandi risamannvirkjum ofanjarðar eða gera eins og þeir í Montreal  t.d að byggja öflugt neðanjarðarlestakerfi af Metró gerð ?  

Hægt er að hugsa sér tvær línur: Miðbær- Kópavogur- Hafnarfjörður- Keflavíkurflugvöllur   og Miðbær- Mosfellsbær.  Síðan yrðu allar brautarstöðvarnar tengdar öflugu strætókerfi..  Ofanjarðarbílabrautir yrðu sem nú er . 

Jafnframt yrði lögð mikil áhersla á öflugt kerfi reiðhjólavega svo og fyrir gangandi.

 Fólk ber oft fyrir sig veðurfarslegum annmörkum varðandi önnur samgöngutæki en einkabílinn. Í Montreal svo aftur sé vitnað þangað , þá búa þeir við erfiða vetur - frost á bilinu mínus 20 - 35 °C og snjóþyngsli veruleg , jafnvel 4 metra þykk snjóalög . Við erum mun betur sett.

Frá Montreal- félagar á ferð 

P1010071

 

 

 

 

 Vonandi fær Reykjavíkurborg öfluga , kraftmikla og athafnasama forystu þegar núverandi kjörtímabili lýkur- forystu eins og þeir í Montreal höfðu í þessum eina borgarstjóra sem kom sá og sigraði í almenningssamgöngum, með glæsibrag


Eru bankarnir að svínbeygja þjóðina ?

það eru vægast sagt einkennilegar tímasetningar á ofurfalli krónunnar - að það skuli hittast svo á að gengisfallið sé rétt áður en ársfjórðunglegt uppgjör einkabankanna fer fram.  130 milljarða gengishagnaður á fyrsta ársfjórðungi og nú 80 milljarða gengishagnaður á öðrum ársfjórðungi.

Málið er mjög alvarlegt og það hlýtur að vera krafan að  æðstu stjórnvöld efnahagsmála fari ofan í kjölin á málinu.   Fer ekki að styttast í að þessir bankar verði þjóðnýttir og öll fjármál þeirra stokkuð upp- Þeir hafa reynst fólkinu í landinu æði dýrir - svo íbúðarmálin séu tekin sem dæmi. 

Og að grauta starfseminni allri í einn pott- þ.e. viðskiptabankamálum og áhættufjárfestingarmálum - lýsir ekki mikilli ábyrgð.  Nú er þrýst á , af hálfu þeirra, að ráðist verði á náttúru landsins og orkan sogin til sölu fyrir erlenda fjárfesta, til björgunar eigin skinni. 

Bankastarfsemi byggir öðru fremur á trausti- mér finnst þessir nýeinkavæddu bankar trausti rúnir.

Forsætisráðherra sagði á ráðstefnu fjárfesta í London, í gær, að helsti kostur íslensku krónunnar væri sá hversu sveigjanleg hún væri - Nú tala menn og konur um að einnig megi svínbeygja þjóðina með henni m.a til fylgilags fyrir stóriðju.


mbl.is Bankarnir fá 80 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Merkur áfangi í jarðvarmavirkjunamálum

Hér er að hefjast stórmerkur áfangi í okkar jarðvarmanýtingu,- 4-5 km djúpar borholur.  Takist vel til og við náum góðum tökum á þessari hátækni sem djúpborun af þessari stærðargráðu er- þá opnast gríðarleg tækifæri fyrir okkur Íslendinga.

Háhitasvæði á Reykjanesi

Háhitasvæði við Seltún- í aðdraganda aðventu

Við getum fengið margfalda þá orku úr hverri borholu en nú er mögulegt .

Núverandi 2-3 km djúpar borholur eru að gefa af sér gufuorku um 5 MW , en 4-5 km djúpar borholur eru taldar geta gefið af sér orku upp á 40 - 50 MW- það munar um minna. 

Hvaða þýðingu hefur þetta ? 

Fyrst og fremst verður hægt að fá gríðarlega orku frá svæði þar sem ofanjarðarrask verður mjög lítið á orkueiningu - miðað við það sem nú er. Það aftur þýðir að við getum nýtt okkar orkulindir í miklu meiri sátt við náttúruna en verið hefur .

Hellisheiðarvirkjun 

P1010001

Það eru greinilega að fara í hönd  spennandi tímar í okkar orkumálum þar sem saman getur farið mikil orkunýting og öflug umhverfisvernd.

 Vonandi ganga þessi djúpborholuverkefni vel eftir.

 

Iðnaðarráðherra hefur greinilega í mörgu snúast og er það vel. 


mbl.is 3,5 milljarðar í djúpborun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vatnajökulsþjóðgarður- Langisjór- Teigsskógar- náttúruvernd

Vatnajökulsþjóðgarður

Stofnun Vatnajökulsþjóðgarðsins sem umhverfisráðherra , Þórunn Sveinbjarnardóttir , lýsti formlega, laugardaginn 7.júní 2008- er stór merkur atburður í náttúruvernd á Íslandi - sennilega sá stærsti í sögunni . Við það tækifæri þakkaði hún Hjörleifi Guttormssyni, náttúrufræðingi, mikilvæg störf tengd þessum merka viðburði- að Vatnajökulsþjóðgarður er orðinn staðreynd.  Þessum áfanga til verndunar og jafnframt nýtingar, án spillingar landsins og gæða þess- er fagnað. Vatnajökulsþjóðgarðurinn er geysistór , um  13 þúsund ferkílómetra .   Þórunn, umhverfisráðherra  minntist á í sinni vígsluræðu m.a. að hún teldi allar líkur á að Langisjór bættist við þjóðgarðinn síðar á árinu.
Langisjór

Fögrufjöll austan Langasjávar 

Kayakróður á Langasjó

Langisjór hefur um árabil verið á válista andspænis hinum virkjanaáköfu. 

Langisjór býr yfir einstakri náttúrufegurð umgirtur Fögrufjöllum og  jökulskjöldur suðvesturshluta Vatnajökuls er í aðalhlutverki í baklandinu. Ef hann yrði virkjanaöflunum að bráð , þá yrði Skaftá veitt í hann - yfirborð hans hækkað um marga metra og í stað kristaltærs vatnsins , breyttist hann í jökullitaðan drullupoll. Allt umhverfi og það með Fögrufjöll yrðu fyrir óbætanlegu tjóni og engum yndisauki. 

 Fagrifjörður í Langasjó

Frá Langasjó- Fagrifjörður
Ég átti þess kost, sl. sumar að róa kayak um Langasjó endimarka á milli og læt hér fylgja nokkrar myndir úr þeirri ferð - fólki til glöggvunar á þessari ægifögru öræfaparadís.


Horft til endimarka - Vatnajökull í bakgrunni

Frá Langasjó- vatnajökull í baksýn

 

 

 

 

    
 

    Hafi umhverfisráðherra fararheill við að bæta Langasjó við Vatnajökulsþjóðgarð- þar á Langisjór svo sannarlega heima 

Teigsskógar

Teigsskógur  í vestanverðum Þorskafirði er víðáttumesti  birkiskógurinn á Vestfjörðum og mjög stór á landsvísu.  Meðfylgjandi myndir eru teknar í júlí 2007 í kayakferð frá Stað á Reykhólum og í Teigsskóga þar sem gist var yfir nótt.
Frá Teigsskógum- vegastæði ? 

Vegastæði í TeigsskógiTeigsskógur er svo til ósnortinn  birkiskógur,  með reynitrjám og miklum undirgróðri, og er einstakur.

Teigsskógur er á náttúruminjaskrá auk þess sem fornminjar eru nokkrar á svæðinu.

Dýralíf er mikið enda svæðið afskekkt  og afar fjölskrúðugt náttúrufar.  Þarna um er áætlað að leggja veg eftir skóginum endilöngum og valda  þar stórspjöllum á þessum einstæða skógi svo og náttúrunni allri.

Að auki myndi þverum Djúpafjarðar og Gufufjarðar , vegna þessa vegastæðis, valda miklum spjöllum á lífríki þeirra.

 
Teigsskógar- horft út Þorskafjörðinn

Séð út Þorskafjörð

 

Skipulagsstjóri hafnaði hugmyndum um vegalagningu þarna , við umhverfismat, en umhverfisráðherra , Jónína Bjartmaz,felldi þann úrskurð og heimilaði þessa vegalagningu.

Er einhver jafngóður eða betri kostur í stöðunni varðandi samgöngubætur þarna ?

Bent hefur verið á fara með veginn í göngum um Hjallaháls yfir í Djúpafjörð og síðan í öðrum göngum frá botni Gufudals, þvert yfir í Kollafjörð.

Þessi leið myndi stytta leiðina frá því sem nú er um 20 km og  yrði 8 km styttri en leið um Teigskóg og það sem meira er , sennilega yrði kostnaður minni.Ég tel að nú sé brýnt að endurskoða fyrri ákvörðun ,vanda hér til verka og ekki flana að neinu.

Eyðilegging á Teigsskógi og umhverfi hans yrðu óafturkræf náttúruspjöll.

Enn er borð fyrir báru með að vernda þennan einstæða skóg - umhverfisráðherra og samgönguráðherra eiga val.

Grænanetið umhverfissamtök innan Samfylkingarinnar fyrirhugar ferð í Teigsskóga í júlíbyrjun 2008 


Dregur úr ofneyslu- vöruskiptajöfnuður að ná jafnvægi

Þetta eru mjög góðar fréttir.  Það er greinilega að draga úr þeirrri ofneyslu sem hefur hrjáð okkur undanfarin ár. 
mbl.is Nánast enginn halli á vöruskiptum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðlindafrumvarp Samfylkingarinnar orðið að lögum.

Alþingi hefur nú ,við þinglok ,samþykkt afar þýðingarmikð frumvarp varðandi auðlindamál þjóðarinar . Frumvarp iðnaðarráðherra , Össurar Skarphéðinssonar, sem lýtur að eign þjóðarinnar á orkuauðlindum sínum- er orðið að lögum.

 Á haustdögum 2007 var hér á þessari bloggsíðu lýst áhyggjum vegna ásælni erlendra aðila á yfirtöku orkuauðlinda okkar :

"Er verið að selja yfirráð orkulindanna í hendur erlendra aðila ? Bandarískur banki hefur nú eignast hlut í varanlegri orkuauðlind á Íslandi . Þetta voru fréttir gærdagsins. Mér finnst þetta grafalvarlegt mál. Hvernig má þetta vera  ?  Eru fjárfestingarmongúlar hér á Íslandi komnir með þau völd að .þeir geti ráðskaðst með fjöreggin okkar með þessum hætti og selt þau í hendur erlendra aðila ? Það er ljóst að erlend fjármálaöfl eru komin með annan fótinn yfir þröskuldinn í átt að yfirtöku á auðlindum okkar fari sem nú horfir.  Það virðist sem allt sé galopið í viðskiptum sem þessum.  Er ekki krafan að Alþingi Íslendinga bregðist hratt við og tryggi að varanlegar auðlindir á borð við fisk,vatn og orku verði ævinlega og alltaf eign Íslendinga og með öllu óheimilt að  ráðstafa eigninni  úr yfirráðum Íslands  ?"

Eitt af helgustu stefnumálum Samfylkingarinnar hefur öðlast lagagildi.

Tryggt hefur verið að orkuauðlindinar verða eign fólksins sem byggir þetta land.

Iðnaðarráðherra , Össur Skarphéðinsson, hefur skilað landi sínu og þjóð góðu verki .

Samfylkingin hefur unnið góðan sigur .


Nýting orkuauðlinda og ódýrasta orka í heimi til sölu

Hann er afbragðsgóður leiðari Mbl. í dag 22.05.  þar sem fjallað er um nýtingu auðlinda okkar.

Vitnað er í nýja álitsgerð bandaríska fjármálafyrirtækisins Lehman Brothers um íslenskt efnahagslíf. Þetta mun vera eitt þekktasta fyrirtækið í sinni grein vestanhafs.  Þar kemur m.a. fram að íslensks orkufyrirtæki eru að selja orku frá jarðgufuvirkjunum á lægsta verði sem um getur í heiminum.  

Af þessu er ljóst að við erum ekki mikilhæfir viðskipamenn á sviði orkumála.

Hér hefur verið virkjað í stórum stíl undanfarin ár og víða í mikill óþökk þjóðarinnar, náttúrusvæði eyðilögð , varanlega og orkan nánast gefin til erlendra aðila.  

Nú er svo komið að valddreifingin við orkuöflunina, orkusöluna og framkvæmdirnar hefur leitt til þess að í raun hefur enginn heildaryfirsýn yfir gang mála.  

Orkufyrirtækin keppast sín á milli um viðskiptin og sá fær sem lægst býður .  Sveitafélögin reyna hvert um sig að fá orkukaupendurna í sína sveit og er þá margt falt fyrir lítið.  Við höfum dæmin hér á suðvesturhorninu þar sem Ölfushreppur og Reykjanesbær berjast um að fá þessi fyrirtæki , ekki beint geðslegt.  

Orkufyrirtæki setja í gang framkvæmdir uppá milljarða án þess að hafa tilskilin leyfi opinbera aðila og þrátt fyrir hörð mótmæli nágranna. Nýjasta dæmið um þetta er fyrirhuguð virkjun við Bitru á Hellisheiði- sem búið er að slá af vegna umhverfisáhrifa.

Menn hugsa bara um álver og fleiri álver sem á að vera allra sveitafélagabót- hvað sem það kostar.

  Hafa stjórnvöld í raun gert úttekt á þjóðhagslegum hagnaði af álverum .  Við seljum þeim orkuna , þá ódýrustu í heimi. Þau fá úrvals gott starfsfólk og mjög vel menntað - frítt vatn fyrir framleiðsluna og afslátt frá opinberum gjöldum.  Allur annar virðisauki af framleiðslunni er þeirra eign og fluttur úr landi og okkur óviðkomandi.

Er ekki orðið fyllilega tímabært að stokka öll þessi orkumálefni okkar upp - fá yfir þau heildaryfirsýn .  Er það ekki verðugt verkefni fyrir Alþingi okkar að ríða á vaðið og móta þjóðhagslega stefnu og markmið í þessum orkumálum þjóðarinnar.

Nú þrengir að og þjóðinni vantar meiri verðmæti.


Norðurlöndin í ESB rétta okkur hjálparhönd

Geir forsætisráðherra og formaður Flokksins er alveg himlifandi yfir að Svíþjóð og Danmörk , sem bæði eru innan ESB, ætli að rétta okkur hjálparhönd með því að ábyrgjast fjárhagsaðstoð vegna bágrar stöðu einkabankanna hér á landi.  Ekki er þessi velgengni Dana og Svía í neinu samræmi við ræðu Geirs í Valhöll á dögunum þar sem hann málaði allt svart gagnvart inngöngu okkar í ESB.  Við erum nú þegar um 80 % innan ESB en njótum ekki þess aga og stöðugleika í efnahagslífinu- sem t.d Danir og Svíar.   Hið olíuauðuga ríki Noregur tekur þátt í bónbjörginni til okkar.
mbl.is Útlán of lítil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn er hugsað um lán og meiri lán

Þessi gífurlegu lán sem þjóðin hefur tekið á undanförnum árum eru í dag okkar stærsta ólán. Og enn erum við  snapandi lán hvar sem einhvern pening er hugsanlega að hafa. Nú síðast gátum við betlað okkur inná Seðlabanka Svíþjóðar og Noregs með vilyrði um meiri lán. Ábyrgir aðilar í Noregi gera óspart grín að okkur fyrir óráðsíuna og segjast vera að lengja í hengingaról íslensks efnahagslífs.

Allt þetta marglofaða góðæri undanfarin ár er allt fengið að láni- við eigum bara eftir að borga reikninginn.   En ekki alveg strax - seinna  . Og áfram höldum við að slá lán. Allt minnir þetta á langt genginn fíkil.

 


mbl.is „Lengt í hengingaról Íslendinga"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt er vænt sem vel er grænt.

"Græn stóriðja í Grindavík " er fyrirsögnin á frétt í Fréttablaðinu í morgun 9.maí.

Fram kemur að iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson hafi formlega opnað hátæknigróðurhúsið Grænu smiðjuna.  Í þessari grænu verksmiðju er framleitt erfðabreytt bygg sem er síðan notað við lyfjaframleiðslu, lyfjaþróun og rannsóknir. Fram kemur að gróðurhúsið sé einstakt í heiminum og framleiðslan að mestu sjálfvirk.  Orkuþörf er mikil til að rækta bygg í gróðurhúsi . Rafmagn og heitt vatn til starfseminnar kemur frá Hitaveitu Suðurnesja.  Gróðurhúsið er um 2000 m2 að stærð og er aðeins fyrsti áfangi.

Það er greinilega mikil gerjun hjá okkur Íslendingum varðandi nýtingu á okkar grænu orku til grænna verkefna.  Kísilverksmiðjur til m.a sólarrafhlöðuframleiðslu, gagnaver og núna framleiðsla á byggi til hátækniverkefna .  Það er af sem áður var þegar aðeins ein leið var til að nýta orkuna okkar til stórra verkefna- til álvinnslu.  Orkunýtingareggjunum okkar fjölgar mjög í fleiri körfum - fjölbreytnin eykst.  Það eru nýir tímar runnir upp í okkar orkunýtingu- það er vel.


Eftirlaunafrumvarp Valgerðar Bjarnadóttur , fryst á Alþingi ?

Eitt svakalegasta dæmi um sérhygli ráðamanna sem setið hafa á Alþingi Íslendinga, er samþykkt eftirlauna fyrir þá sjálfa. Auk ofur eftirlaunakjara í eftirlaunakaupgreiðslum þá eru í gerningnum ákvæði um að þessi útvaldi hópur geti farið á eftirlaun uppúr fimmtugu en jafnfram þegið laun í opinberu starfi til sjötugs, samhliða. Þó liðin séu nokkur ár frá því alþingismenn samþykktu þessi dæmalausu kjör sér til handa- er þjóðin enn hneyksluð á bíræfinni. Ítrekaðar tilraunir hafa verið gerðar í þá veru að fá þessum fáránlegu eftirlaunalögum breytt, en árangur enginn.  Valgerður Bjarnadóttir , varaþingmaður Samfylkingarinnar lagði fram frumvarp á haustþingi , þar sem lagt er til að þessum lúxuseftirlaunakjörum verði breytt og færð til þess sem almennt gerist með þjóðinni.

Frumvarp þetta fæst ekki  einu sinni rætt á Alþingi- því er haldið neðst í málabrúnka allsherjarnefndar og reynt að svæfa málið einn ganginn enn.

Nú sverfur að hjá þjóðinni , kjör hennar versna og  engan veginn útséð með hversu langt niður lífskjörin fara frá því sem verið hefur. Búast má við verulegu atvinnuleysi á næstu mánuðum.Uppsagnir í byggingaiðnaði eru þegar hafnar í verulegum mæli og keðjuverkun fer af stað. Verðbólga mælist hærri en sl. átján árin. Öllum er að verða ljóst að efnahagsstjórnin síðustu árin hefur ekki verið sem skyldi. Þenslan vegna Kárahnjúkavirkjunar svo og gengdarlaus mokstur á erlendu lánsfé inn í hagkerfið ber efnahagsstjórnunni vitni. Góðærið var fengið að láni . Guðni Ágústsson fyrrum ráðherra þeirrar stjórnar sem vandanum var ekki vaxinn - skilur ekki neitt í neinu og kennir núverandi stjórn . Til að bæta gráu ofan í svart hygluðu þessir ráðamenn sér ofur eftirlaunakjörum sem eru úr öllum tengslum við þann raunveruleika sem almenningur býr við.

Nú er lag fyrir Alþingi Íslendinga að leiðrétta þessi mistök og endurskoða þessi lúxuseftirlaunakjör sín- það þrengir að hjá þjóðinni- byrjið hjá ykkur sjálfum með þá tiltekt sem nauðsynleg er framundan í efnahagsmálum. Afnemið þessi eftirlaunakjör ykkar ,standið með þjóðinni og deilið með henni kjörum- nú er lag  - takið frumvarp Valgerðar Bjarnadóttur úr bunkanum hjá allsherjarnefnd og komið því   í þingsal.


Stjórnvaldskreppa á Íslandi ?

Nú þegar alvarlegasta efnahagskreppa sem Íslendingar hafa staðið frammi fyrir í áratugi, er í augnsýn- þá er spurt :  Er stjórn í landinu ? 

Eftir fréttum undanfarnar vikur að dæma eru efasemdir um að alvara málsins risti mjög djúpt hjá okkar landgæslumönnum.

Seðlabankstjórn hækkar stýrivexti villt og galið .  Kynnt er spá um fasteignarmarkaðinn þar sem gert er ráð fyrir að verðgildi húsnæðis lækki um 30 % til ársins 2010. Gangi þetta eftir er ljóst að þúsundir " íbúðareigenda" verða gjaldþrota , eftir að hafa nýtt sér 90-100% lánakjör síðari ára hjá bankakerfinu á uppsprengdum fasteignamarkaði. Stórfellt atvinnuleysi blasir við hrynji byggingamarkaðurinn.

Nú huga samtök atvinnulífsins að því að henda krónunni fyrir borð og taka upp evru sem viðskiptagjaldmiðil. Hvað með almenning á hann einn að notast við krónuna . Verði svo er þá ekki ljóst að tvær þjóðir verða í landinu- evruþjóðin og krónuþjóðin . Væntanlega á Seðlabankinn að ákvarða kjörin hjá krónuþjóðinni. Stöðugleiki Evrópusambandsins sér um hina þjóðina- evruþjóðina. Og hvar eru helstu ráðamenn okkar þessa dagana ?  :

-Utanríkisráðherra er í heimsókn hjá Íraksstríðsráðherranum, C. Rice í BNA

- Iðnaðarráðherra var undir sprengjuregni í Jemen, síðast þegar af honum fréttist

- Viðskiptaráðherra er í heimsókn í Kína.

- Formaður viðskiptanefndar er syðst í Afríku,Höfðaborg.

- Forsætisráðherra var fluttur með leiguflugi með hraði til Svíþjóðar , á fund.

Sjálfsagt er hægt að halda símafundi og samráð - en ekki er þetta nú traustvekjandi fyrir okkur sauðsvartan almúgann- nú þegar alvarlega horfir.

Einn er sá ráðherra sem ekki hleypir heimdraganum , heldur vinnur hörðum höndum að bættum kjörum þeirra sem minnst mega sín í þjóðfélaginu og hefur orðið vel ágengt. Þetta er að sjálfsögðu kjarnakonan Jóhanna Sigurðardóttir, félags og tryggingamálaráðherra.

Gylfi Arnbjörnsson ,framkvæmdastjóri ASÍ , lýsir þungum áhyggjum yfir mjög versnandi horfum á vinnumarkaði og spyr eftir lausnum ráðamanna.

Er kannski frelsið orðið það mikið að Alþingi hefur orðið lítið með mál að gera ?

-         Samtök atvinnulífsins stefna á evruupptöku sín í milli

-         Fyrirtæki reisa risaálver þótt svo orku og línulagnamál séu á huldu

-         Bankar taka skammtímalán erlendis uppá þúsundir milljarða kr. og lána síðan almúganum á Íslandi það fé sem langtíma húsnæðislán og á breytilegum vöxtum og  með gengistryggingum. Nú virðast þessir sömu bankar komnir í mikla ónáð í alþjóðabankaheiminum og leita ásjár hér innanlands.

-         Viðskiptahalli meiri en þekkst hefur í allri sögu þjóðarinnar.

Og nú er allt í steik og allt stefnir í að hinn sauðsvarti almenningur eigi að greiða  óraðsíu við "stjórn" efnahagsmála síðustu árin.

Hafi ég verið í hinum minnsta vafa um fulla aðild okkar Íslendinga að ESB og upptöku evru, þá er sá vafi með öllu horfinn . Við almenningur hljótum að krefjast þess að farið verði í fullar og alvarlegar viðræður - nú þegar.  Ungt fólk sér enga framtíð hér ,haldi fram sem nú horfir.


Hjartalæknar, sjúkir , aldraðir og heilbrigðiskerfið

Einn er sá gerningur í heilbrigðiskerfinu sem er lítt skiljanlegur venjulegu fólki og þá ekki síst sem fyrir barðinu á þessum gerningi verða, að ósekju.   Hér er átt við það "kerfi" sem hinn almenni borgari býr við gagnvart nauðsynlegum samskiptum við hjartalækna.

Fyrir nokkrum árum kom upp sú staða að sá greiðslukvóti TR (Tryggingastofnun ríkisins), sem ákveðinn hafði verið það árið , var uppurinn á haustdögum og viðræður læknanna og TR fóru fóru uppnám . Það leiddi til þess að Siv fv. heilbrigðisráðherra sleit öllum samningum við hjartalækna , sem þá fóru af beintengdum greiðslulista TR, hjartalæknar urðu óháðir TR og svo er enn.

Þessi gjörningur , í ljósi reynslunnar, leggst eingöngu á þá sem eru verulega veikir af sínum hjartasjúkdómi og  svo aldrað fólk. Ferill heimsóknar til hjartalækna á stofu er háð þeim ferli að fyrst þarf fólkið að panta tíma hjá heimilislækni ( sem er nú ekki fljótfenginn) , koma sér á þá stofuna og fá tilvísun á hjartalækni.  Þá er hjartalæknirinn heimsóttur.

Síðan er sú heimsókn að fullu greidd. Að síðustu er farið með nótuna og tilvísunina  til TR og hún lögð inn til greiðslu á hlut TR.  Ef viðkomandi er ekki með bankareikning þarf hann síðan að nálgast endurgreiðsluna að nokkrum dögum liðnum.  

Geta má nærri um það mikla álag sem lagt er á þessa hjartasjúklinga og kostnað umfram læknisþjónustuna. Hér er um eindæma grimmilegan gjörning að ræða frá yfirvöldum heilbrigðismála.

Hjartalæknar segja að þessi gjörningur fv. heilbrigðisráðherra hafi engin áhrif haft á tíðni heimsókna til þeirra - þeir efnameiri  greiðir sjálfur fyrir heimsóknina, án tilvísunar- það séu fyrst og fremst lasburða, efnalitlir og ellilífeyrisþegar sem lendi í hremmingunum.

Spurt er : Er ekki orðið tímabært að létta þessum óskapnaði af þessu fólki ? 

 


Kísilvinnsla , græn orka- græn framleiðsla

Í Fréttablaðinu í dag 18.03. er frétt um að skrifað hafi verið undir viljayfirlýsingu um að veita nýrri kísilvinnslu í Þorlákshöfn orku allt að 100 MW og á síðari stigum 85 MW til viðbótar. 

 Háhitasvæði á Reykjanesi

Háhitasvæði við Seltún- í aðdraganda aðventuOrkuveita Reykjavíkur selur orkuna.  Verksmiðja þessi krefst ekki losunarheimilda vegna gróðurhúsaáhrifa þar sem um mengunarfrían og vistvænan rekstur er að ræða. 

Áætlað er að þarna verði til 350 störf í fyrsta áfanga. Og orkuna ætlar Orkuveitan að virkja á Hengilsvæðinu. 

Það þýðir m.a. mjög stuttar háspennulagnir og eflaust góðir möguleikar á að nota jarðstrengi a.m.k að verulegum hluta.  Hér en enn og aftur verkefni þar sem græn orka er notuð í græna úrvinnslu, en afurðir frá kísilvinnslu eru notaðar í hálfleiðara og sólarrafhlöður.

Ekki er langt síðan samið var um orkusölu til gagnavers á Suðurnesjum. Nú fæst hærra raforkuverð en fyrir álverin og það sem mikið gildi hefur - það þarf engan losunarkvóta vegna andrúmsloftsins.  Þetta eru nýir tímar.

Þegar samið var um byggingu Búrfellsvirkjunar og álversins í Straumsvík fyrir 40 árum var brotið blað í atvinnusögu þjóðarinnar. Að viðbættu einu álveri til viðbótar þeirra sem nú eru og þá helst á Bakka við Húsavík, sýnist komið nóg í álverskörfuna okkar.

Þessar nýju atvinnugreinar sem nú er verið að semja um dreifa orkusölu okkar á fleiri körfur, skapa nýja tegund starfa - hátæknistarfa m.a.

Það eru nýir tímar runnir upp í okkar atvinnu og orkusölumálum. Því ber að fagna . Það verður bara að ganga vel , snyrtilega og af virðingu um okkar stórbrotnu og dýrmætu náttúru.

 


Nýir tímar í orkusölumálum

Merkur áfangi varð í orkusölumálum okkar í gær þegar undirritaður var samningur við Verne Holding ehf  um nýtt gagnaver .

24 MW orka er áætluð í fyrsta áfanga gagnaversins og fæst nú hærra verð fyrir raforkuna en álver greiða. Gert er ráð fyrir að 25 MW viðbótarorkuþörf verði í nálægri framtíð. Heildarfjárfesting á fyrstu 5 árunum verða um 20 milljarðar ísl,kr. og bein og óbein efnahagsáhrif hér innanlands verði um 40 milljarðar ísl.kr.

 Gagnaverið verður staðsett á fyrrum varnarsvæði á Keflavíkurflugvelli.  Reksturinn kallar á nýjan sæstreng með 40 sinnum meiri flutningsgetu en nú er að og frá landinu.  Um 100 manns munu starfa beint við gagnaverið þannig að áætla má að 200-300 afleidd störf fylgi í kjölfarið.  Þetta er aldeilis búhnykkur fyrir Suðurnesin. 

Og iðnaðarráðherra  Össur Skarphéðinsson upplýsir að meira af viðlíka fjárfestum séu að banka upp á í Iðnaðarráðuneytinu.

Ljóst er að  verðmæti orkunnar okkar grænu fer ört vaxandi og í grænan iðnað.  Orkueggin okkar fara ekki lengur öll í sömu körfuna- álverskörfuna.

Það eru nýir tíma  að renna upp í orku,iðnaðar og atvinnumálum. Það hefur verið haldið vel á málum í Iðnaðarráðuneytinu eftir að núverandi ríkisstjórn tók við.


" Á skíðum ég skemmti mér..."

Það viðraði vel til skíðaiðkana á skíðasvæðum höfuðborgarsvæðisins um þessa helgi.                              Í Bláfjöllum var nægur nýfallinn snjór , sólskin og hægviðri , frost um -3 °C .                                         Mikill fjöldi skíðafólks var á svæðinu og biðraðir við allar lyftur.

Frjálst er í fjallasal

Gönguskíðaslóð í Bláfjöllum
15-20 km skíðagöngubraut var lögð um Heiðina há og inn dalina sunnan við skíðalyfturnar.

Skíðagöngufærið var eins og best gerist og mikill fjöldi gönguskíðafólks var á dreif um alla þessa flottu skíðabraut, alsælt . Nokkur ár eru síðan viðlíka skíðaaðstæður hafa skapast sem nú í Bláfjöllum og útlit fyrir að svo verði fram yfir páska. Það eru því góðar væntingar fyrir skíðafólkið næsta mánuðinn og er það vel.

Fátt er hollara fyrir kroppinn en iðkun skíðaíþróttarinnar til fjalla , hreint og tært loft og ef sólin skín þá er brúni liturinn fljótur að koma á andlitin enda styrkur sólargeislanna um sexfaldur við snjóaðstæður á fjöllum en að sumri á láglendi.

Það er því eftir miklu að slægjast að  stunda þetta holla og endurnærandi sport til fjalla.

Mæli með því.


Veiðiheimildir og hugmynd formanns Samfylkingarinnar.

Að setja hluta veiðiheimilda á markað er hugmynd sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar og utanríkisráðherra setti fram nú í vikunni á þingmannafundi Samfylkingarinnar sem haldinn var á Akureyri. Sá hluti veiðiheimilda sem nú er eyrnamerktur sem "byggðakvóti"  er um 12 þúsund tonn /ári,og er utan hinna hefðbundnu aflaheimilda, verði settur á almennan markað og boðinn hæstbjóðanda. Andvirði sölunnar renni til sjávarbyggðanna til atvinnusköpunar . Hér er lagt til að opna nokkuð hið harðlæsta kvótakerfi sem fengið hefur falleinkunn hjá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna og þorra þjóðarinnar.

Þessi "byggðakvóti" hefur verið bastarður , sýnd veiði en ekki gefin vegna mikilla reglugerðargirðinga og  hefur nýst byggðunum illa , oftar en ekki aðeins litlum hluta hans verið úthlutað í raun.

Það eru aðeins rúmir 2 mánuðir þar til Íslendingar verða að bregðast við áliti  Mannréttindanefndar S.Þ. og leggja fram trúverðugar skýringar á hvernig við hyggjumst bregðast við með þetta mannréttindabrota fiskveiðistjórnunarkerfi okkar..kerfi sem yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar er andvígur samkv. skoðanakönnunum.

Hugmynd formanns Samfylkingarinnar með opið almennt uppboð á þessum 12 þús. tonna "byggðakvóta" er stórt skref í þá átt að uppfylla þau skilyrði sem mannréttindanefnd S.Þ telur að vanti í kvótakerfið.

Ekki er vafi á því að lausn sem þessi og þá með mun stærri aflahlutdeild, kæmi sjávarbyggðunum afar vel og myndi stórtefla þær  og alveg öfugt við núverandi kerfi.

Skilyrða verður nýtingu þessara aflaheimilda þannig að byggðalögin kringum landið njóti forgangs og að aflinn komi í byggðalögin til ráðstöfunar en fari ekki beint í gámaskip erlendra kaupenda eins og nú er með fiskinn og við verðum vitni að um land allt..fólkinu sagt upp störfum, vinnslan lögð niður og aflinn fluttur óunninn úr landi með afslætti á útflutningsgjöldum til hagsbóta fyrir erlenda aðila. Sá afli er síðan vigtaður í erlendri höfn og þá orðinn verulega léttari. Það er sú þyngd sem þá telst til þyngdar veiðiheimildarinnar... enn eitt kvótasvindlið og braskið.

Það er tekið undir hugmynd Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra.


Fylgi við Sjálfstæðisflokk dalar..Samfylkingin bætir mikið við sig

Þá er fyrsta skoðanakönnun á fylgi stjórnmálaflokkanna eftir að hallarbyltingin í Ráðhúsi Reykjavíkur var gerð seinnihluta janúar, komin fram.

Niðurstaðan er þessi :

Samfylkingin fékk 39%, Sjálfstæðisflokkur 34%, Vinstri grænir 12%, Framsóknarflokkur 8,5% og frjálslyndir tæp 7%.

Þessi skoðanakönnun er framkvæmd áður en REI skýrslan var kunngerð og Kastljóss fingurbrjótur Vilhjálms fv. borgarstjóra ekki kominn fram.  

Gera má  ráð fyrir því að uppákoman í borgarstjórninni sé ráðandi í þessari skoðanakönnun og hefði orðið mun lakari fyrir Sjálfstæðisflokk hefði hún verið tekin til dagsins í dag.  

Þeir flokkar sem stóðu að því meirihlutasamstarfi ,undir forystu Dags B. Eggertssonar fv borgarstjóra , sem Vilhjálmur Þ, Vilhjálmsson og Ólafur F. Magnússon veltu úr sessi , eru með um 60 %  fylgi samkvæmt þessari könnun.

Ljóst er af þessu að vandi Sjálfstæðisflokks í Reykjavík er mikill...tiltrú fólks á flokknum fer þverrandi.  

Samfylkingin getur vel við unað og ljóst að Dagur B. Eggertsson nýtur vaxandi trausts .


REI - hneykslið

Aðalatriðið í þessu REI máli og sem skiptir höfuðmáli,finnst mér, er sú staðreynd að fjármálaöflunum mistókst að komast yfir Orkuveituna ásamt Hitaveitu Suðurnesja með auðlindum Reykjanesskagans eins og greinilega var meginmálið. Svandís Svavarsdóttir, VG .og borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ,án Vilhjálms Þ. V. , komu í veg fyrir gerninginn.

Eftir stendur að Orkuveitan er áfram í 100 % eigu almennings . Yfirtöku HS og auðlinda Reykjanesskagans hefur verið forðað , en við blasti um tíma að erlend yfirráð væru þar á næsta leiti. Ríkisstjórnarflokkarnir eru með fyrir Alþingi frumvarp sem á að tryggja Íslendingum að orkuauðlindirnar verði ávallt í samfélagslegri eigu .

Nú hafa borgarfulltrúar Reykjavíkur komið fram með skýrslu  sem stýrihópur á þeirra vegum hefur unnið. Þessi skýrsla er í raun kolsvört lýsing á miklum veikleika á stjórnsýslukerfi Reykjavíkurborgar og fyrirtækja hennar. Orðalag skýrslunnar ber með sér að mikil málamiðlun hafi átt sér stað milli borgarfulltrúa við endanlega gerð hennar til að tryggja sameiginlega niðurstöðu. Skýrsluna þarf því að skoða í því ljósi Þó blasir við að embættismenn í viðkomandi fyrirtækjum í eigu Reykjavíkurborgar svo og fv. borgarstjóri Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson hafa verið á miklum villigötum í stjórnsýslunni

 Beðið er álits Umboðsmanns Alþingis varðandi allan þann gjörning sem REI málið er. Væntanlega kemur þar fram skýrari sýn á málið allt en nú liggur fyrir.

Almenningur á kröfu á því að þeir sem ábyrgð bera á öllu þessu ferli , hvort sem er í viðkomandi fyrirtækjum eða borgarstjórn Reykjavíkurborgar , axli hana með viðeigandi hætti.

Málið allt er hneyksli.


Veikur meirihluti í Reykjavík

Það var upplifun að horfa á beina útsendingu frá nýjustu hallarbyltingunni í Ráðhúsi Reykjavíkur. Hinn nýji meirihluti sem þessa stundina fer með valdasprotann í borginni virkaði afar þreytulegur og líflaus alveg ofvent við fráfarandi meirihluta sem geislaði af lífi, krafti og hugsjónum.  

Og ekki virðist tjaldað til margra nátta í þessum nýja meirihluta- varamaður (kona) verðandi borgarstjóra  styður ekki gerninginn og lýsir því yfir að hún felli núverandi meirihluta við fyrsta tækifæri.

Það verður lítið svigrúm hjá verðandi borgarstjóra varðandi frí ,að ekki sé talað um önnur forföll .

Það virðist því ekki mikill styrkleiki vera við stjórnvölinn í höfuðborginni eftir þessa hallarbyltingu og væntanlega mun Reykjavíkurborg líða mjög fyrir það ef eitthvað framhald verður á þessum gerningi.

Svo er það stóra spurningin hvort afleiðing þessarar hallarbyltingar leiði til víðtæks samstarfs eða sameiningar þeirra stjórnmálaafla sem eru utan Sjálfstæðisflokks ..oft veltir lítil þúfa þungu hlassi.  Kannski eru stórtíðindi í farvatninu ?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband