Færsluflokkur: Ferðalög

Einn á ferð um Hornstrandir fyrir 20 árum

 Yfir Hornströndum norðan Ísafjarðardjúps hvílir einhver dulmögnun. Hornstrandir fóru í eyði kringum árið 1952 þegar síðustu íbúar flutt frá Hesteyri.
 Áður hafði byggðin öll smásaman verið að leggjast af. Þó var búið áfram í Grunnavík framyfir árið 1960.  Hornstrandir voru einkar harðbýl að vetrum og sumur mjög stutt . Strjálbýlt utan Aðalvíkur og Hesteyrar.
Lifibrauðið var sjósókn og mikil björg sótt í fuglabjörgin miklu-einkum Hornbjarg og Hælavíkurbjarg. Þetta landsvæði hafði heillað mig í mörg ár að heimsækja og þá að ferðast um það gangandi.

 Að fara í ferðafélagshóp var dýrt og ekki kostur fyrir mig .
 Ég hafði því þann möguleika að fá einhvern til að slást í för á eigin vegum. Það leit vel út með það vorið 1993 að Pétur Bjarnason þáverandi fræðslustjóri á Ísafirði væri líklegur samferðamaður- en á síðustu stundu forfallaðist hann til svona ferðar.
 Nú voru góð ráð dýr.
 Og niðurstaðan varð sú að einn skyldi ég leggja upp í Hornstrandaferð.
Ferðin var mjög vel undirbúin. Auk þess að kunna utanbókar „Hornstrendingabók“ hans Þórleifs Bjarnasonar, skólastjóra á Akureyri sem fæddur var og uppalinn hjá afa sínum og ömmu í Hælavík á Hornströndum- þá fannst heilmikill leiðafróðleikur í ritum Útivistar eftir Gísla Hjartarson sem í áratugi hafði verið landvörður og fararstjóri á Hornströndum.  Þetta var leiðsögunestið

 Horft yfir Ísafjarðardjúp –yfir til Hornstranda.  

Hornstrandir Og um eftirmiðdag þann 6. Júlí 1993 var ég kominn á Ísafjörð.
Veðurútlit var gott og gott skyggni yfir Djúpið til Jökulfjarðanna þangað sem för var heitið.
 Un nóttina var gist inní Tungudal í tjaldi. Ferðadagurinn 7. Júlí 1993 var tekinn snemma og allur búnaður til Hornstrandaferðar var gerður klár.

Bílnum komið í stæði skammt frá löggæslunni á Ísafirði og lögreglan beðin fyrir lyklana ásamt upplýsingum um ferðalag mitt.
Að því búnu var farið um borð í Fagranes ,Djúpbátinn sem nú var á leið til Hornstranda með fyrstu viðkomu á Hesteyri -en þar skyldi ferð mín hafin.
Það var margt um manninn um borð í Fagranesinu-ferðamenn að fara í Hornstrandaferð.
 Gott var í sjóinn yfir Djúpið og bjart yfir landinu.

 Siglt inn á Jökulfirðina. Vébjarnarnúpur t.h 

Hornstrandir 0002

   Og eftir rúmlega klst. siglingu frá Ísafirði var lagst utan Hesteyrar á Hesteyrarfirði .
Við vorum komin til Hornstranda.
Engin skipabryggja er á Hesteyri og farþegar og farangur ferjaður í land með slöngubát.
Ég var fljótur niður á dekk þar sem slöngubáturinn beið.
Enginn af þessum mörgu ferðamönnum  um borð voru  þar staddir svo ég spurð ferjumanninn hverju það sætti ?
 Og svarið var: „Þú ert bara einn hér í land.“
 Þar með fóru allar væntingar fyrir lítið, um samfylgd yfir fjöllin norður í Hornvík-þangað sem för var heitið. 
Þegar komið var í fjöru á Hesteyri settist ég í grasið ofan fjörukambsins og hóf að næra mig duglega fyrir væntanleg átök frá Hesteyri um Kjaransvikurskarð og til Búða í Hlöðuvík.
 Og ég horfði á eftir Fagranesinu sem hélt för sinni áfram norður á Hornstrandir með allt ferðafólkið.

Fagranesið heldur för sinni áfram norður Hornstrandir 

Hornstrandir 0004

 Og á meðan ég borðaði þarna á fjörukambinum leit ég yfir DV sem ég hafði keypt um leið og ég yfirgaf Ísafjörð.
 Þar gat að líta heldur óskemmtilega frétt :
 Spor eftir bjarndýr voru talin hafa sést í fjöru á þeirri leið ég færi um.
Þetta setti að mér ugg.
Átti ég að halda för áfram eða hætta við.
En fréttin bar með sér að ekki var þetta óyggjandi-að þarna hefði verið bjarndýr.
 Það var sem sé vafi.
Ég ákvað að halda áfram för og bakpokinn var axlaður  Hann var um 20 kg og innihélt allt sem til þurfti í útileguna á Hornströndum.

Í Hornstrandaferð er allra veðra von og þarf því allur búnaður að geta varið ferðamanninn.
 Enginn fjarskiptabúnaður var með í för- GSM símar þá ekki til og ekkert GPS tæki- þau voru óþekkt þá.

En gott kort og góður áttaviti var allt sem snéri að leiðsögn.
Ég var í óbyggðum og dagleiðir til byggða.
Og það var lagt af stað um kl 16:30 þann 7.júlí 1993 frá Hesteyri.
Eins og fyrr sagði fór Hesteyri í eyði upp úr 1952 en þar hafði verið nokkuð kauptún og rekin þar síldarverksmiðja og hvalstöð frá því um aldamótin 1900. 
Fjöldi gamalla húsa er þar ennþá og notuð sem sumarhús erfingja þeirra sem þar bjuggu fyrrum.

Nú lá leiðin upp á Hesteyrarbrúnir sem eru í um 200 m. hæð og liggja undir Kistufelli og stefnt á Kjaransvíkurskarð.
Öll er þessi leið nokkuð vel vörðuð frá fyrri tíð enda þjóðleiðin milli Hesteyrar og byggðanna í Víkum og í Hornvík og fyrrum fjölfarin á öllum árstímum.
 Nokkrir snjóskaflar urðu á leið sem fara þurfti yfir með gát vegna leysinga í giljum undir niðri og slæmt að hrapa þar niður um veika snjóþekju.
 En á þessari löngu leið þarna um hvarflaði hugurinn til hinna slæmu frétta um hugsanlegt bjarndýr á leiðinni.
Farið var yfir hvað gæti orðið til bjargar ef návígi kæmi til.
Ekki yrði gæfulegt að hlaupa burt.  Ég á 8-10 km hraða /klst en björninn á sínum 50 km/klst. –vonlaust. Eina vopnið sem ég hafði var vasahnífur – hann dyggði lítið á þykkan feldinn.
Niðurstaðan var sú að taka því sem að höndum bæri og vona það besta.

Og ég nálgaðist Kjaransvíkurskarð.   

Hornstrandir 0006

Upp nokkra brekku var að fara upp í skarðið.
Og nú var spennandi að kíkja yfir og huga að hvítum feldi, en úr Kjaransvíkurskarði er vítt útsýni yfir leiðina framundan.

 

 


 Efst í Kjaransvíkurskarði.  Álfsfellið næst og horft niður í Kjaransvíkina . Fjærst er Hælavíkurbjarg

Hornstrandir 0008         Úr Kjaransvíkurskarði er einkar glæsilegt útsýni með svipfagurt Álfsfell í forgrunni ,Kjaransvíkina niður við sjávarmál og síðan sjálft Hælavíkurbjargið í fjarska.
Eftir skönnun á landslaginu var engan hvítan feld bjarndýrs að sjá.
 Mér létti mjög og fyrr en varði var ég sestur að snæðingi á túngarðinum í Kjaransvík.
Sama góðviðrið hélst en stundum sveimuðu skýjabakkar um efstu fjallstinda.
Nú var orðið stutt eftir í náttstað sem var Búðir í Hlöðuvík.
Yfir tvær ár var að fara ‚fyrst Kjaransvíkurá og síðan Hlöðuvíkurós.
 Ekki þurfti að vaða Kjaransvíkurá. Í ósnum hafði hlaðist upp þvílíkt kaðrak af rekavið að með varúð var hægt að klöngrast þar yfir.
Eftir það lá leiðin fyrir Álfsfellið og með gamla eyðibýlinu Hlöðuvík og þá tók við Hlöðuvíkurós.
 Nokkuð vatnsmagn var í ósnum og þurfti að gæta varúðar við að vaða hann.
Og þessari 17 km löngu gönguleið frá Hesteyri lauk svo við sumarhús sem stendur þar sem heitir Búðir, undir Skálakambi.
 Tvö smá tjöld voru þar á túnbletti.
 Við það sem var nær stóð ungur ferðamaður og sagði : „Guten abend „ og við hitt tjaldið var ungt par sem ávarpaði ferðalanginn: „Bonsoir“ Ég tók undir með sömu orðum.
Síðan hófust nokkrar umræður á einhverskonar ensku – það gekk vel.
 Sá þýski var á leið um Hornstrandir og Strandir.
Hann var frá mið Þýskalandi – og var einn á ferð.  Þau frönsku voru á svipuðu róli – þau voru búsett í miðri Parísarborg.
Og ég hinn innfæddi upplýsti þau svona í stuttu máli um tilveruna á þessum slóðum hjá fólkinu sem þarna lifði um aldir.
Það fannst þeim áhugavert.
 Síðan var tjaldað –matast og lagst til svefns. Hafaldan norðan úr Íshafinu sem braut á fjörusandinum var svæfandi niður.

 Búðir í Hlöðuvík. Skálakambur rís yfir
 og Hælavíkurbjarg skagar fram í baksýn.  

Hornstrandir 0010

Þegar skriðið var úr svefnpokanum um morguninn og litið út um tjaldið blasti við svipað góðviðri og daginn áður.
Sá þýski og þau frönsku voru að leggja af stað upp Skálakamb og norður í Hornvík um Hælavíkurbjarg. Ekkert bjarndýr var sjáanlegt.
Þegar lokið var við að matast og pakka öllum ferðabúnaðinum saman í og á bakpokann- var lagt upp.
Nú var það sjálfur Skálakambur sem fyrst þyrfti að sigrast á.
Skálakambur er einn þekktasti fjallvegurinn þarna á Hornströndum vegna hættulegra aðstæðna einkum að vetarlægi í snjó og harðfenni.
 Margar skráðar heimildir eru um háska sem menn hafa þar komist í- en leiðin í Hælavík og í Hornvík lágu einatt um Skálakamb –nema í einsýnu veðri – þá var farin „fjallasýn „ eða yfir fjallgarðana á efstu tindum.
En að sumarlagi þegar snjór er að mestu uppleystur þá er för um Skálakamb í raun brattur en nokkuð góður fjallvegur .
Leið mín upp Skálakamb með hinar þungu byrðar gekk vel og fyrr en varði stóð ég á toppnum.

 Á Skálakambi. Horft yfir Hlöðuvík og Kjaransvík. 

Hornstrandir 0011

 Fyrir miðju er fjallið glæsilega. Álfsfell.
Og fremst er varðan sem staðsetur veginn í dimmviðri.  
Eftir nokkra dvöl á Skálakambi var ferðinni haldið áfram.
Nú var stefna sett á Atlaskarð þar sem kaflaskil eru milli Hornvíkur og Hælavíkur.


 Horft af Skálakambi niður í Hælavík undir Hælavíkurbjargi 

Hornstrandir 0013

Leiðin af Skálakambi liggur um svonefnda Fannalág og liggja þar fannir lengstum.
Nokkuð er bratt upp í Atlaskarð og yfir snjófannir að fara.
Nauðsynlegt var að spora sig varlega – enda hæðin mikil renni maður af stað.

Fannir sporaðar upp í Atlaskarð sem er efst til v.
  

Hornstrandir 0014

Ferðin sóttist vel og áfram var góðviðri þó nokkuð skýjað væri .
 Þá rak dimmt ský yfir fjallið og þurfti ég að ganga eftir áttavita talsverðan spotta- en svo birti upp á ný.

Engan sá ég eða mætti nokkrum manni á leiðinni. Franska parið og sá þýski sáust ekki enda ætluðu þau að fara út á Hælavíkurbjarg og með því í Hornvík

 Í Atlaskarði .  

Hornstrandir 0015

Dýrðlegt útsýni yfir Hornbjargstindana. Frá vinstri er Miðfell, þá skagar Jörundur upp og í framhaldi er Kálfstindur og síðan Dögunarfell
 Þegar upp í Atlaskarð er komið blasir Hornvíkin við og er Rekavík bak Höfn neðst við marbakkann.
 Nú lá leiðin niður úr Atlaskarðinu um grösugar brekkur og með hjalandi hvítfissandi fjallalækjum- skemmtileg ganga.
 
Í Rekavík bak Höfn  

Hornstrandir 0016Og rétt áður en komið var að Rekavík bak Höfn var tekin kaffipása og hellt upp á könnuna.
 Hornbjarg er handan Hornvíkur  
Þarna var gott að láta líða úr þreyttum fótum og fá sér orkubirgðir fyrir lokaáfangann sem var tjaldstæðið við Höfn í Hornvík.
Nokkrir póstar voru eftir m.a um Tröllakamb.
Frá Rekavík bak Höfn þarf að fara með bjargbrún og að Tröllakambi sem er forvaði í sjó út.
Allt gekk það vel.


 Tröllakambur en hann er klifinn þarna yfir skarðið t.h.  Hornstrandir 0017

Yfir Tröllakamb verður að klífa um skarð ,sem er fremur létt.
Ofan við Tröllakamb er smá hellir sem varð frægur um fyrri hluta síðustu aldar þegar bændur á Horni við Hornvík felldu þar stórt bjarndýr,eftir harða viðureign.
En ekkert hafði ég ennþá séð til bjarndýrs og reyndar hættur að hugsa um það.
 Nú tók við loka gangan frá Tröllakambi að tjaldstæðinu í Höfn

 Við sunnanverða Hornvík og skammt
 í tjaldsvæðið og göngulok
 

Hornstrandir 0018

  Fljótlega blasti tjaldsvæðið við og voru þar nokkur tjöld sjáanleg og fólk á vafri við þau.
 Ég var á ný kominn til mannabyggða.
Og þegar að tjaldstæðinu kom tók á móti mér einhentur maður og taldi ég að þar væri kominn Gísli Hjartarson- sá er hafði verið mér svo góður leiðsögumaður yfir fjöllin með skýrum leiðalýsingum sínum.
Hann varð undrandi þegar ég þakkaði honum fyrir það.
 Það var liðinn sólarhringur frá því ég lagði upp frá Hesteyri með mínar þungu veraldlegu byrðar og nokkurn huglægan þunga vegna hugsanlegrar heimsóknar hvítabjarnar.
En sú saga gæti hafa endað öðruvísi, því um svipað leyti og ég var þarna á ferð voru sjómenn að fanga hvítabjörn í hafi nokkuð vestur af Hornströndum.
Þeir komu honum um borð en hengdu hann við aðfarirnar.
 Mikill kuldi var þarna yfir næturnar- um frostmark og var erfitt um eldun með mínum gamla gasprímus og ekki alltaf heitt í matinn og jafn vel stundum hrátt.
En heitt á brúsa fékk ég hjá tjaldgestum á svæðinu.
Síðan var næstu tvo daga gengið á Hornbjarg.

 Horn í Hornvík. Í baksýn er Miðfell.  

Hornstrandir 0023

  Og við sögulok:
Fagranesið var tekið úr Hornvík inná Ísafjörð að lokinni dvöl í Hornvík

Góða skemmtunSmile

 

 

 





Miðnætursólarlag í Hornvík
Hornstrandir 0027

Gönguleiðin
Hornstrandir


Jökulfirðir-kayakróður

Það var í júlímánuði ,dagana 24-27 árið 2001 að Kayaklúbburinn í Reykjavík efndi til sjókayakleiðangurs um Jökulfirði á Hornströndum. Þátttakendur voru alls 14.

 Eftir að ræðarar höfðu komið sér til Ísafjarðar var farið með bát frá Ferðaþjónustu Hafsteins og Kiddýar frá Ísafirði að morgni 24.júlí-með allt hafurtaskið og stefnan sett á Hesteyri við Hesteyrarfjörð í Jökulfjörðum. Siglingin þangað tók um 1 ½ klst.

 Mannskapurinn var selfluttur með „tuðru“ í land með farangurinn en kayakarnir voru bundnir saman og dregnir í land.

Kort af Jökulfjörðum og róðrarleið innrituð.

.Jökulfirðir 0024 

Hesteyri fór öll í eyði í nóvember árið 1952. Á Hesteyri myndaðist vísir að þorpi fyrir aldamótin 1900,þegar Norðmenn stunduðu þaðan hvalveiðar og vinnslu á Stekkeyri sem er skammt norðan við þorpið.

Nokkrum húsum er enn vel viðhaldið og notuð sem sumarhús. Í Læknishúsinu, sem er stórt tvílyft timburhús er rekin greiðasala yfir hásumarið.

Þar fengu sjókayakmenn og konur sér „kaffi og pönsur“

     Sjóbúið í fjörunni á Hesteyri

.Jökulfirðir 0021 

Frá Hesteyri liggja gamlar þjóðleiðir til Víknanna á Hornströndum og til Aðalvíkur. Í baksýn er fjallið Kagrafell og Hesteyrarbrúnir (neðan við snjóskaflinn)

 Um Hesteyrarbrúnir lá leiðin frá Hesteyri um Kjaransvíkurskarð yfir í Kjaransvík og Hlöðuvík og síðan þaðan í Hælavík og um Atlaskarð í Hornvík en heiðina til vinstri er farið í Aðalvík.

 Á myndinn eru kayaykræðarar að búa bátana undir róðurinn. Það er mikill farangur sem þarf í ferð sem þessa um Jökulfirðina og voru kayakarnir því þunglestaðir í upphafi ferðar

.Veður var þungbúið og vaxandi vindur var út Hesteyrarfjörð. Og um kl 15 lögðum við upp frá Hesteyri og stefndum inn Hesteyrarfjörðinn að Stekkeyri.

 Á Stekkeyri höðu Norðmenn mikil umsvif í upphafi 20. aldar með hvalveiðum og vinnslu eða allt þar til hvalveiðibann gekk í gildi.

Síðan tók Kveldúlfur við og var með mikla síldarvinnslu framyfir fjórðatug aldarinnar.

Svo hvarf síldin og mannfólkið fluttist smá saman burt-suðuryfir Djúp. Við skoðuðum rústirnar frá þessum athafnatímum.

Og ýtt var úr vör frá Stekkeyri og stefnan sett á útnesið á fjallinu Lás sem er útvörður Hesteyrarfjarðar í austri og skilur að Veiðileysufjörð.

 Nú var kominn strekkings vindur og kröpp alda-það var lens.

       Róið suður Hesteyrarfjörð með fjallinu Lás

.Jökulfirðir 0020 

Þegar komið var að enda fjallsins var komið hvínandi rok og ekki talið ráðlegt að leggja þá í að þvera Veiðileysufjörð.

Kayakarnir voru þunglestaðir og létu því vel í sjó en gæta þurfti varúðar með vindinn í bakið með hviðum og krappri báru.

Ekki er gott að stunda myndatökur við svona aðstæður-nóg var annars að halda jafnvæginu.

Lagst í var við Skaufanes undir Lásfjalli

.Jökulfirðir 0019

Ákveðið var að leggjast í var við Skaufanes fremst við Lásfjall og bíða af okkur veðrið . Mun hvassara veður og sjór var í Veiðileysufjörðinn sem við ætluðum að þvera.

 Það var þægileg tilvera þarna við Skaufanesið meðan við biðum.

 Við fengum okkur góða næringu því löng leið var framundan að Kvíum í  Lónafirði þar sem við ætluðum að hafa bækistöð til tveggja nátta.

 Róið þvert fyrir Veiðileysufjörð

. Jökulfirðir 0018

Og fyrripart kvölds gekk vindur niður og sjólag varð gott.

 Við lögðum upp frá ystaenda Lásfjalls og þveruðum Veiðileysufjörðinn –alls um 6 km róður. Á myndinni sést að ennþá er þungbúið í lofti en skyggni að aukast.

T.v sjáum við Bolafjall sunnan Djúps-þá út Djúpið og Lásfjall næst og framúr því sér til Grænuhlíðar.  Róðurinn yfir Veiðileysufjörð gekk vel.

Lendingarstaðurinn við eyðibýlið Kvíar í Lónafirði

.Jökulfirðir 0017 

Og seint um kvöldið var komið að eyðibýlinu Kvíum eftir rúmlega 20 km róður frá Hesteyri að  hluta til í slæmu veðri.

En þegar að Kvíum var komið var veður orðið með ágætum og bjart yfir.

Að Kvíum voru reistar tjaldbúðir austan Bæjarár og eyðibýlisins.

 Þarna skyldi höfð bækistöð í tvær nætur.

Kvíar fóru í eyði árið 1948. Þar stendur ennþá hið reisulegasta steinhús ,tveggjahæða. Bæjará rennur straumhörð um gljúfur neðan túns –til sjávar.

 Á Kvíum var mest byggt á sjósókn og selveiði inni í Lónafirði –auk búskapar með kindur og kýr. Það var mjög vel búið þarna.

 Á flóði veiddust stórar og feitar bleikjur í ármótum. Þær voru grillaðar í eftirrétti og smökkuðust vel.

 Refafjölskylda átti greni undir Múlanum austan Kvía og mættu sum okkar henni á göngu skammt frá tjaldstaðnum.

 Myndin sýnir kayakana í vör neðan hárra sjávarbakka að Kvíum. 

Handan Jökulfjarðar er Maríuhorn útvörður Grunnavíkur

Haldið inn Lónafjörð

.Jökulfirðir 0015 

Og að morgni 25.júlí var komið mjög gott veður .

 Ákveðið var að róa inn Lónafjörð og inní Rangala sem er innst í Lónafirði .

Þetta yrði um 20 km róður fram og til baka að Kvíum.

 Lónafjörður er talinn fallegastur Jökulfjarðanna ,einkum í Ragala og Sópanda.

 Ekki eru sagnir um fasta byggð í Lónafirði.

 Lónafjörður féll undir Kvíar og var nýttur þaðan einkum til selveiða inní Rangala og mið-Kjós.

 Myndin er tekin utan við Kvíar og horft inn Lónafjörðinn.

 Fremst t.v er Múli,þar fyrir neðan liggur Borðeyri þvert fyrir og fyrir miðri mynd er fjallið Einbúi .

Til hægri við hann er Sópandi og heiðin þar uppaf eru Þrengsli,þjóðleiðin til Barðsvíkur á norður ströndum . Til hægri  er svo Hvanneyrarhlíð.

        Eyðibýlið Gautastaðir innarlega í Lónafirði

.Jökulfirðir 0014 

Eftir nokkurn róður inn Lónafjörðinn blasir við okkur eyraroddi undan brattri fjallshlíðinni. Allur þakinn hvönn.

 Hvönnin vísar til mannvistaleifa um aldir .

Þetta eru Gautastaðir.

Engar sagnir eru um búsetu á Gautastöðum en ekki ósennilegt að þarna hafi verið haft í seli frá Kvíum fyrrum.

 Þarna er einstök fegurð og þessvegna glæsilegt bæjarstæði. 

 Þarna í kring hafa fundist volgrur og steingerfingar trjáa frá tímum hitabeltis á þessum slóðum-þúsundir ára gamlar.

       Rangali í Lónafirði framundan

.Jökulfirðir 0011 

Innst inni í Lónafirði að vestan er Rangali.

Afar fallegur staður á hásumri þegar veður skartar sínu fegursta.

 Upp Rangalann liggur gömul þjóðleið yfir í Hornvík á Hornströndum.

 Algengt var fyrrum að þeir sem á norður Hornströndum bjuggu  létu koma nauðsynjavöru frá Ísafirði með báti yfir í Ranala eða Mið-Kjós,fyrir jólsem þeir síðan nálguðust þegar færð og veður leyfði.

 Þessar birgðir voru síðan bornar á bakinu yfir fjöllin og heim í kotin.

 Oft urðu þetta miklar svaðilfarir og mannraunir.

Spáð og spekúlerað í náttúruna inni í Rangala

.Jökulfirðir 0010 

Dvalist var góðan tíma þarna inni í Rangala.

Mikil og stórbrotin fegurð.

Fjörusvæðið framan við okkur heitir Ófæra. Nafnið skýrir sig sjálft.

Ró og kyrrð inni í Rangala Kayakinn bíður húsbónda síns eins og þægur hestur.

.Jökulfirðir 0009 

Það var erfitt að snúa til baka frá þessum dýrðar stað.

Ein kayakkonan töfraði úr pússi sínu allt til pönnukökubaksturs.

 Ekki amalegt að gæða sér á þeim í blíðunni þarna og virða þessa stórbrotnu náttúru fyrir sér.

 Og að lokum var haldið heim í tjaldbúðirnar að Kvíum.

Grill var sett upp í gamalli fjárrétt á kambinum við Bæjará  og að lokum skriðið í tjöldin efir frábæran róðrardag inni í Lónafjörð og Rangala.

Búist til brottferðar frá Kvíum á þriðja ferðadegi

.Jökulfirðir 0007 

Og nýr dagur reis þarna norður í óbyggðum Hornstrandanna í Jökulfjörðum.

Nú var stefnt þvert austur yfir Lónafjörðinn og í átt að Hrafnfirði.

 Veður skartaði sínu blíðasta ,sól,ekki ský á himni-logn til sjávar.

Lagt upp frá Kvíum

.Jökulfirðir 0006 

Í baksýn á myndinni  eru Höfðaströndin,Kollsá,Staðarhlíð og Maríuhorn fremst .

 Bolafjall sunnan Djúps gægist fram í fjarska.

Rjómablíða til lofts og sjávar.

 Nokkrar hnísur brugðu á leik skammt frá.

Róið inn Hrafnfjörð

.Jökulfirðir 0004 

Eftir að Lónafjörður hafði verið þveraður var komið í Hrafnfjörð.

Lónanúpur er til vinstri .

Gýgarsporshamar fyrir miðri myndi í botni Hrafnfjarðar.

Skorarheiði,gömul þjóðleið yfir í Furufjörð til hægri við hamarinn.

 Og nú var stefnt á Hrafnfjarðareyri í Hrafnfirði.

 Lendingin í fjörunni á Hrafnfjarðareyri

.Jökulfirðir 0003 

Horft er út Hrafnfjörðinn.

 T.v. er KjósarnúpurStaðarhlíð fyrir miðri mynd með Maríuhorn fremst.

Og í fjarska sér í Grænuhlíð og Ritinn norðan Djúps.

Veðurblíðan er einstök.

Minningarkross um útlagann fræga Fjalla-Eyvind  á Hrafnfjarðareyri.

.Jökulfirðir 0002 

Á myndinn er minningarkross um Fjalla-Eyvind en hann bjó síðustu ár ævi sinnar ásamt Höllu í friði við guð og menn. 

Er einfaldur trékross og áhoggin mýrarsteinn, þar sem stendur „ Hjer liggur Fjalla-Eyvindur Jónsson“

Tilurð steinsins er vegna áheits sem bóndi á Hrafnfjarðareyri ,um miðja nítjándu öldina, gerði þegar fé hans var að flæða í botni Hrafnfjarðar og varð Fjalla-Eyvindur við áheitinu og féð koms af.

 Þegar síðustu ábúendur á Hrafnfjarðareyri voru að hafa sig á brott árið 1943, dreymdi heimilisfólkið eins draum síðustu nóttina:

-Fjalla-Eyvindur gekk um hlaðið fram og aftur-við staf“

Að lokinni frábærri dvöl á Hrafnfjarðareyri var róið út Hrafnfjörðinn inní Kjós og síðan þveraður Leirufjörður og tekið land á Flæðareyri.

Þar er mjög gott tjaldstæði við gamalt samkomuhús sem þar er. 

 Slegið var upp tjaldbúðum og sameinast við síðasta kvöldverðinn í þessari ferð.

Og hin nóttlausa veröld þarna var böðuð í rauðri kvöldsólinni í kyrrðinni á Jökulfjörðum. Ógleymanlegt.

Að morgni síðasta róðrardags hafði veður breyst

.Jökulfirðir 

Við vöknuðum snemma þenna síðasta róðrardag á Jökulfjörðum.

 Farið var að kula af norðaustan.

Og þegar við ýttum úr vör þarna á Flæðareyri var kominn talsverður vindur með úfinni öldu.

 Nú var róið vestur með Höfðaströndinni og tekið land við eyðibýlið Kollsá og tekin kaffipása fyrir loka áfangann sem var Grunnavík.

Eftir að lagt var upp frá Kollsá tók Staðarhlið við.

Fyrir miðri Staðarhlíð eru Staðareyrar. 

 Á eyrum voru um aldir fjölmennar verstöðvar einkum á vorin

Jökulfirðirnir voru þá matarkista .

 Sagan geymir margar sögur um slæm sjóslys við Staðareyrar þegar sjór rauk skyndilega upp.

 Við fengum að finna það á þessum síðasta róðrarlegg um Jökulfirði að mjög fljótt er að vinda upp þarna og sjór að verða úfinn.

        Róið undir Maríuhorni-Gathamar framundan

.Jökulfirðir 0001 

Og nú er farið að styttast róðurinn til Grunnuvíkur.

Framunda er Ófæra með Gathamri.

Þrátt fyrir nokkurn sjó rérum við flest um gatið á Gathamri.

Skemmtileg upplifun.

 Og þegar við komum fyrir Garhamar var stuttur róður eftir til Grunnuvíkur þar sem við lentum um kl 16.00 þann 27.júlí 2001.

Alls höfðu verði rónir rétt um 75 km í ferðinni.

Sjókayakfólkið sameinaðist í kaffi að Sútarabúðum í Grunnavík en þar er rekin greiðasala yfir sumarið.

Nokkrir lögðu leið sína í gömlu kirkjuna á Stað en hún er algjör perla.

Vel við haldið og skartar frægum myndum á predikunarstól ættuðum sunnan úr hámenningu Frakklands á fyrri öldum.

Og  ferðaþjónusta Hafsteins og Kiddýar sótti okkur og allt okkar hafurtaks til Grunnuvíkur .

Til Ísafjarðar var komið um kl 20.30 um kvöldið.

 Frábærri sjókayakferð um Jökulfirði á Hornströndum var lokið.

 

Góða skemmtun þið sem lásuð.


Langisjór-kayakróður síðsumars

 Langisjór er stórt stöðuvatn suðvestan undir Vatnajökli og rúmlega 20 km á lengd með stefnuna norðaustur til suðvesturs  alls um 27,7 km2 að flatarmáli. Hæð vatnsins yfir sjávarmáli er 670 m og mesta dýpi 73,5 m. Tveir fjallgarðar liggja með vatninu-Breiðbakur að vestan og Fögrufjöll að austan. Vatnajökull rís fyrir norðurenda Langasjávar. Þorvaldur Thoroddsen,náttúrufræðingur lýsti Langasjó fyrstur manna og gaf honum nafnið við lok nítjándu aldar. A þeim tíma lá skriðjökull fram í norðurenda vatnsins en í dag er talsverður spotti frá vatninu og að jöklinum sem lýsir vel hversu Vatnajökull hefur hopað og rýrnað á rúmri öld.

Kayakklúbburinn fór í kayakferð á Langasjó dagana 18-20 ágúst 2007. Alls tóku þátt 10 ræðarar víðsvegar að af landinu. Það er löng leið að fara frá Reykjavík og að Langasjó. Þann 18. ágúst var farið að Hólaskjóli í Skaftártunguafrétti og gist þar um nóttina . Og á laugardeginum 19. ágúst var síðan brunað inn að Langasjó á fjallabílum.

Langisjór -róðrarleið. 

Langisjór róðrarleið

Við lögðum bílunum við veiðihúsið sem  er við suðvesturenda vatnsins. Allt umhverfið skartaði sínu fegursta,vatnið spegilslétt, litabrigði Fögrufjalla einstök og í rúmlega 20 km fjarlægð bar drifhvítann skjöld Vatnajökuls við himinn.  Þetta var stórbrotin aðkoma.

Í upphafi róðurs-horft norður eftir Langasjó-Vatnajökull í baksýn

Frá Langasjó- Vatnajökull í bakgrunni

Nú var hafist handa við að lesta kayakana til tveggja daga ferðar um þetta heillandi svæði uppi á öræfum Íslands, í um 700 metra hæð.

 Pistlahöfundur varð fyrir því að uppgötva að svefnpokinn hafði gleymst í Hólaskjóli.

Nú var úr vöndu að ráða.

 Inn við norðurenda Langasjávar mátti búast við næturfrosti og því illt að vera án svefnpoka í tjaldinu. Eftir að hafa yfirfarið stöðuna ákvað ég að fara í róðurinn þrátt fyrir þessa uppákomu. Ég var með góða uppblásna dýnu, hlýan fatnað og eitthvað lauslegt til yfirbreiðslu.

En fjórar öldollur voru skildar eftir í bílnum- ekki var á bætandi að missa yl úr kroppnum með alcoholi....

Lagt upp í kayakróður á Langasjó. Hér eru hjón á tveggjamanna fari

Frá Langasjó

Lagt var í róðurinn um kl. 11 að morgni laugardags. Vatnið var sem spegill og Fögrufjöll og himinskýin spegluðust í vatninu. Þetta var ægifögur veröld.

Lengi voru uppi áform um að gera Langasjó að uppistöðulóni fyrir virkjanir á Tungnársvæðinu og veita Skaftá í Langasjó.

Þau áform, ef þau hefðu náð fram að ganga, hefðu rústað Langasjó. Þetta blátæra háfjallavatn hefði orðið að brúnleitum drullupolli með 30-40 metra hæðarsveiflu á yfirborði.

 Gróður Fögrufjalla hefði orðið fyrir miklum skemmdum.

 Sem betur fer eru þessi áform að baki. Langisjór er friðlýstur með Vatnajökulsþjóðgarði.

En við höldum kayakróðrinum áfram.

Magnað umhverfi.  Öræfaparadís.

Kayakróður á Langasjó

Fjöllin spegluðust í vatninu og langt í fjarska var Vatnajökull alltaf í sjónlínunni. Einkennileg strýta stóð uppúr vesturjaðri hans og vakti umræður um að eitthvað héti svona flott strýta. Þetta reyndist vera önnur af tveimur strýtum sem Kerlingar nefnast.

 Eftir um 6 km róður norður eftir Langasjó var tekin hvíldar og kaffipása á fallegri eyju nálægt strandlengju Fögrufjalla

Lent á lítilli og fallegri eyju-kaffihlé og hvíld.

Kaffihlé á eyju við Fögrufjöll í Langasjó

Og á meðan við njótum kaffis og hvíldar förum við yfir þetta sem "Náttúrukortið" segir um Langasjó

"Langisjór, stærsta blátæra fjallavatn landsins, liggur mitt í ósnortnu víðerni í djúpum dal milli móbergshryggjanna Tungnaárfjalla og Fögrufjalla. Þar er einn fegursti staður landsins, að formum og litbrigðum, víðáttu, og andstæðum. Þráðbeinir hryggir rísa brattir upp af vatnsfleti sem skilur að nær gróðurlausa svarta sanda Tungnaárfjalla og víðlenda skærgræna mosþembu Fögrufjalla með strjálum hálendisgróðri. Í norðaustri rís hvítur Vatnajökull. Breiðbak ber hæst í Tungnaárfjöllum og við suðurenda Langasjávar móbergshnjúkinn Sveinstind (1090 m y. s.) sem Þorvaldur Thoroddsen nefndi eftir Sveini Pálssyni. Langisjór er 20 km langur, allt að 2,5 km breiður og tíunda dýpsta vatn landsins (73,5 m)  Afrennsli er til Skaftár um ána Útfall  og 12 m háan foss í skarði norðarlega í Fögrufjöllum. Fram undir lok 19. aldar er talið að útfall hafi verið norður úr Langasjó en þá hafi jökull náð að skríða að Fögrufjöllum og lokað rásinni svo að núverandi Útfall varð til. Jafnframt tók jökulvatn að renna í Langasjó og lita hann. Um 1966 hafði jökullinn hins vegar hopað svo að vesturkvíslar Skaftár tóku að renna austur með Fögrufjöllum og Langisjór varð aftur tær eins og hann er talinn hafa verið fram að lokum 19. aldar. Frá Landmannaleið er um 20 km greiðfær slóð skammt norðan við Eldgjá inn að sunnanverðum Langasjó og önnur nokkru vestar að Faxasundum við Tungaá og síðan með Lónakvísl að Langasjó. Í vatninu eru urriði og bleikja. Margir landslagsljósmyndarar telja Langasjó fegursta stað Íslands. Ekki er gert ráð fyrir að Langisjór, Tungnaárfjöll og Fögrufjöll, verði innan væntanlegs Vatnajökulsþjóðgarðs. "  Síðasta umsögnin hefur nú breyst-góðu heilli.

Allt hefur sinn tíma og að lokinni hvíld var sest í kayakana á ný og nú var stefnt á Fagrafjörð í þessum áfanga.

 Fagrifjörður ber svo sannalega nafn með rentu. Í honum er afar falleg klettaeyja og ofan hennar gnæfir Háskanef. Það er stutt milli fegurðar og háska þarna. Þessi nöfn hafa sennilega orðið til meðal smalamanna fyrr á öldum.

Fagrifjörður - klettaeyjan og yfir gnæfir Háskanef

Frá Langasjó- Fagrifjörður

Eftir gott stopp í Fagrafirði var ferð haldið áfram og nú var markmiðið að róa norður með vatninu og koma auga á Útfallið. Það var ekki fyrr en við komum að því að við heyrðum árniðinn  og fundum þetta eina útfall frá Langasjó.

Farið var í land og gengið upp á klettahöfða við norðurhlið árinnar og umhverfið skoðað. Útfallið rennur fyrst í nokkuð láréttu streymi áður en það steypist niður bratta. .

Eftir að hafa skoðað Útfallið tók við lokaáfanginn -inní enda Langasjávar . Þar skyldi tjaldað um nóttina. Það var stuttur róður frá Útfallinu að tjaldstæðinu og fyrren varði var 20 km róðri dagsins lokið. Sama blíða hélst áfram

Nú voru reistar tjaldbúðir á jökulleirnum þar sem 100 árum áður var undir skriðjökli. Stutt var inn að sporði Vatnajökuls. 

Nú tók við kvöldverður og að honum loknum var kveiktur varðeldur með aðfluttum brennikubbum. Það var því góður ylur á kvöldvökunni okkar þarna inni á regin öræfum Íslands í um 700 m hæð. Stórkostlegt.   

Og við kulnandi glæður varðeldsins skriðu kayakræðarar inní tjöldin og hlýja svefnapokana nema undirritaður hann skreið bara inn í tjaldið því enginn var svefnpokinn.

Næturkul lagði frá jöklinum og reynt var að halda  hita á kroppnum með hjálp allra þeirra efnisbúta sem tiltæk voru,öll aukaföt fengu hlutverk flotvesti og kayakstakkurinn skipuðu öndvegi hér og þar og sopið var á heitu vatni -ætlaði hrollurinn að varna svefns.

Allt fór þetta vel og nýr dagur reis á öræfum. Lognið var sem fyrr og Langisjór sem spegill. Að loknum morguverði voru tjöld tekin niður og allur búnaður settur í lestar kayakanna-og ýtt úr vör.

Framundan var 20 km róður suður eftir Langasjó. Og nú blasti Sveinstindur, við allan róðurinn ,í suðri.

Tvær hvíldarpásur voru teknar á eyjum á leiðinni. Og fyrr en varði lentum við í fjörunni neðan við bílana.

Afarvel heppnaðri kayakferð Kayakklúbbsins var lokið.

 40 km róður um Langsjó var að baki. Fararstjóri okkar var Páll Reynisson. Það voru ánægðir kayakræðarar sem kvöddu Langasjó á þessum síðsumars sunnudegi í ágúsr árið 2007.

Og undirritaður lauk ferðinni af öræfum með viðkomu í Hólaskjóli og náði í svefnpokann góða.

Góða skemmtun



 

 

 

 

 

 

 

 

 


Síðsumar kayakróður um eyjar Breiðafjarðar

Eins og komið hefur fram í þessum pistlum mínum um kayakróðra á vötnum og sjó eru kayakróðrar um Breiðafjarðaeyjar magnaður ferðamáti. Nálægðin við náttúruna er einstök. Fuglar,selir og þessi aragrúi eyja og skerja sem gerir þennan ferðamáta svo einstakan og frábrugðin öðru.

Það var í ágústmánuði árið 2006 að Kayakklúbburinn fór í eina af sínum síðsumarferðum frá Kvennhólsvogi  undan Klofningi á Fellsströnd og með næturdvöl í Fagurey á Breiðafirði.

Ferðaleiðin

Ferðaleiðin

Það var um kl. 10 að morgni laugardags í 1 viku ágúst 2006 að um 30 kayakræðarar lögðu upp frá  gamla kaupfélaginu við Kvennhólsvog  sem er við fjöruborðið neðan við bæinn Hnúk á utanverðri Fellströnd

Gamla kaupfélagið í Kvennhólsvogi

103 

Stefnt var að fara Þröskulda sem er sundið milli Langeyjarness og Efri Langeyjar.  Þröskuldar bera nafn með rentu. Á hálfföllnu í aðdraganda fjöru fara að koma upp grynningar sem hindra för þarna um á bátum. Það þarf því að fara þarna um Þröskulda vel fyrir þann tíma.  Við vorum á tæpasta vaði en með ýmsum krækjum um þennan skerjafláka náðum við í gegn og Breiðafjörðurinn blasti við norðan Efri Langeyjar. Veður var gott og stillt í sjó.

Og nú var róið suður með Efri Langey að vestanverðu.  Eftir um hálf tíma róður komum við að Krosssundi sem skilur að Efri Langey og Fremri Langey.

Þar var ákveðið að taka land í Skötuvík á norðurenda Fremri Langeyjar.

Í Skötuvík. Krosssund og Efri Langey handan sunds

105 

Krosssund kemur við frásögn Sturlungu þar sem segir frá átökum Kolbeins unga og Sturlu Þórðarsonar sumarið 1243 en þeir áttu þar orðastað áður en menn Kolbeins unga komust í Arney sem er sunnan við Fremri Langey. 

En hjá okkur kayakræðurum fór allt fram með friði.

Að loknum hádegisverði þarna í Skötuvík var róið suður með Fremri Langey og að Arney. Enn var gott veður,hlýtt og hægur sjór. Veðurspáin gerði ráðfyrir  nokkurri vætu seinni part dags.

Hvíld sunnan við Fremri Langey og mynduð „Stjarna“ kayakflotans

110 

Og við nálgumst Arney sem er syðsta eyjan í þessum eyjaklasa undan Klofningi.

Arney kemur við sögu í  Sturlungu þegar Kolbeinn ungi ætlaði sumarið 1243 með her manns að Sturlu Þórðarsyni sem þá bjó í Fagurey. Hugðist hann fara sundið Brjót sem er milli Fremri Langeyjar og Arneyjar. Í Sturlungu er getið um bardaga þarna milli Kolbeins unga og manna Sturlu og varð Kolbeinn ungi frá að hverfa.

Æðarsker við Arney

108 

Og við tókum land í Gyrðisvogi sem er vestanmegin á Arney ekki langt frá gömlu bæjarhúsunum. Það var komið kaffi.  Arney er í eyði  en í einkaeigu fjármálaspekúlanta.

Kaffipása í Gyrðisvogi í Arney

116 

Að loknu góðu kaffistoppi og spjalli var sest í kayakana á ný. Nú var stefnan sett á Fagurey þar sem settar yrðu upp tjaldbúðir til næturdvalar.  Um fjögurra km róður var frá Arney yfir í Fagurey.

Fagurey framundan

122 

Þegar komið var að lendingarstað milli Enghólma og Torfhólma við Fagurey var komin háfjara. Og háfjörur þarna við Breiðafjarðaraeyjarnar eru mjög víðáttumiklar vegna mikils munar á flóði og fjöru eða um 4 metrar. Og neðst í þessum fjörum er mikil leðja. Það var því mikill burður með farangur og báta uppí sjálfa Fagurey.

Bátar og farangur borið upp leðjuna í Fagurey

124 

Árið 1702 var einn bær og tvær búðir í Fagurey og þar bjuggu um 20 manns. Til hlunninda voru talin selveiði,sölvafjara,eggver,dún og lundatekja. Þar voru átta bátar gerðir út til fiskveiða-kostaeyja.

Fagurey kemur nokkuð við sögu í Sturlungu en þar bjó þá Sturla Þórðarson sagnritari í friði síðasta áratug ævi sinnar eftir að hann lét af lögmannsembætti og lést þar 1284.

Merkileg sögueyja Fagurey.

Eftir að reistar höfðu verið tjaldbúðir og snæddur kvöldverður sótti mjög á nokkra ræðara að róa yfir í Elliðaey sem liggur um 4 km vestur af Fagurey.

Róið útí Elliðaey

125 

Nokkuð hafði bætt í vind og sjór farinn að ýfast þegar við lögðum upp frá Fagurey út í Elliðaey.  Elliðaey er stórbrotin náttúrusmíð og býr að mjög skjólgóðri lendingaaðstöðu sem heitir Höfn-skeifulaga vík inní eyjuna

Höfn í Elliðaey

130

Og við lentum bátum okkar inni í Höfn og gengum upp í Elliðaey til skoðunnar.

 M.a var farið í vitann sem stendur norð austan megin á há eynni á Vitahól. Þetta er fyrsti viti sem reistur var við Breiðafjörðinn eða árið 1902.

 Árið 1702 voru sautján manns í Elliðaey á þremur heimilum auk þess var þar verbúð sem róið var frá á vorin.  

Og eftir góða dvöl í Elliðaey var haldið aftur í Fagurey sem átti að vera heimili okkar um nóttina. Róðurinn yfir gekk vel.

En nú var byrjað að rigna hressilega  með nokkrum vindi.

 Það voru því fárir sem mættu við varðeldinn sem kveiktur var um miðnættið en þeir sem þar mættu áttu ógleymanlega stund í síðsumar dimmunni og úrhellis rigningu.

Og nýr dagur reis –seinni ferðadagurinn. Veður var orðið ágætt og gott í sjóinn. Borðaður var kjarngóður morgunmatur –því fram undan var langur róður.

 Allur búnaðu var settur í lestar kayakanna og brottför var klár.

 En áður en haldið var af stað flutti fararstjórinn okkar Reynir Tómas Geirsson skemmtilegt og fróðlegt erindi um eyjarnar sem við höfðum heimsótt-einkum Fagurey. Góð stund

Morgunstund í Fagurey

131

Um kl 10 að morgni sunnudags var ýtt úr vör frá Fagurey. Nú var háflóð og bátarnir nánast upp á túni.

Mikill munur  en í leðjunni daginn áður.

Nú var róið yfir í Bíldsey sem er um 2 km suð austan við Fagurey  og hugað að næsta áfanga.

 Það varð ofan á að að róa yfir í Klakkeyjar um 6 km austur af Bíldsey.

 Nú var farið að þrengja að skyggni- það var komin svarta þoka . Nú var róið eftir siglingatækjum –áttavita og korti með stuðningi GPS tækja.

 Nokkur útfallsstraumur var kominn og ferðinni miðaði fremur hægt. Við heyrðum í útsýnisbátnum frá Hólminum skammt frá en sáum hann ekki-og svo hljóðnaði vélarhljóðið og allt varð kyrrt í þokunni-fuglar á stangli –einkum skarfar.

Og skyndilega birtust Klakkeyjarnar við okkur og þokunni létti.

Klakkeyjar birtast úr þokunni

135 

Klakkeyjar liggja skammt norðan við Hrappsey . Þeir heita litli Klakkur (54)m og Stóri Klakkur (72)m . Þeir eru einnig kallaðir Dímonarklakkar.

Og tekið var land í Klakkeyjum til kaffidrykkju og skoðunar þessara hæstu eyja á Breiðafirði. Nú var komin sól og þokan á bak og burt- rjómablíða.

    Notið hvildar og veðurblíðu undir Stóra-Klakk

141 

Gengið var á Stóra Klakk og útsýnis yfir notið yfir þennan mikla eyjaklasa sem þarna er í mynni Hvammsfjarðar.

 En allt hefur sinn tíma og degi tekið  halla og langur róður framundan að gamla kaupfélaginu í Kvennhólsvogi þar sem bílarnir biðu okkar.

 Það var 10 km róður framundan.

Nú hafði vindur færst í aukana og kominn nokkur sjór á móti okkur ásamt útfallsstraumi út Kvennhólsvoginn.

 Þetta var því nokkuð puð og þeir minna vönu fengu aðstoð með línu milli kayakanna.

Tekið var gott hvíldarstopp við Valsey og kíkt á arnarhreiður sem þar var skammt frá-tveir ungar í hreiðri og foreldrarnir sveimandi yfir okkur-tíguleg og sjaldgæf sjón.

 Og um kl 16 eftir hádegi á sunnudag var tekið land við gamla kaupfélagshúsið undan Hnúk á Fellströnd –eftir um 50 km kayakróður þessa tvo daga. 

 Afburða góðri kayakferð um eyjarnar sunnan Klofnings á Fellsströnd var lokið.

Góða skemmtun

 


Að róa kayak um Kleifarvatn á Reykjanesi

Það var laugardaginn 3. September 2011 að Kayakklúbburinn í Reykjavík efndi til kayakróðrarferðar um Kleifarvatn.

Kleifarvatn er stærsta vatnið á Reykjanesskaga og liggur á milli Sveifluháls og Vatnshlíðar. Það er þriðja stærsta vatnið á Suðurlandi, 9,1 km², og eitt af dýpstu vötnum landsins, 97m. Það hefur lítið aðrennsli en ekkert frárennsli. Vatnsborð þess hækkar og lækkar til skiptis á nokkurra ára fresti eða um fjóra metra.

Þessar vatnsborðsbreytingar virðast fara eftir úrkomumagni en mikill fjallabálkur er austan megin við vatnið –snjóþungur á vetrum.

Það var safnast saman við norðurenda vatnsins undir Vatnshlíðinni-alls 26 kayakræðarar um kl 9.30 . Veður var mjög gott stilla á vatninu og hálfskýjað í lofti-hlýtt.

Gert klárt fyrir róður um Kleifarvatn ( ath, að tvísmella á myndirnar til að stækka þær) 

 Kleifarvatn 002

Og kl. 10 var lagt af stað í hringróður um Kleifarvatnið- alls um 11-12 km vegalengd. Þetta var fríður floti og kynjahlutfall ræðara nokkuð jafnt. 

Í júní árið 2000 urðu miklir jarðskjálftar þarna við Kleifarvatnið og opnuðust sprungur í botni þess við lætin. Þá lækkaði allhressilega í vatninu en hefur hækkað nokkuð í því á síðustu árum-en nú er það tekið að lækka á ný.

Munnmæli herma að skrímsli hafi haldið sig við Kleifarvatn og sést þar endrum og eins. Á það að hafa verið í ormslíki,svart að lit. 

Róið með Vatnshlíðinni

Kleifarvatn 009

Verulegur jarðhiti er syðst í vatninu og standa gufubólstrar þar upp. Einnig eru víða volgrur í vatninu sem gerir það varasamt yfirferðar á ís að vetri. 

Okkur miðaði róðurinn vel og fyrr en varði vorum við komin fyrir Vatnshíðina og Hvammahraunið blasti við að austan.

Hvammahraun er komið frá Eldborgum í Brennisteinsfjöllum

Róið undan Hvammahrauni 

Kleifarvatn 013

Þegar Hvammahrauni sleppir og nokkuð frá vatninu er velgróin fjallsbrekka sem er nokkuð merkileg. Hún heitir Gullbringa og dregur heil sýsla nafn sitt af henni- Gullbringusýsla. 

 Og áfram er róið og stefnan sett á Hvamma sem eru vestan við hverasvæðið . Þar skyldi tekin góð kaffipása.

Róið útaf hverasvæðinu við Hvamma sem eru í suðurenda Kleifarvatns

Kleifarvatn 014

Þetta hverasvæði myndaðist í jarðskjálftanum árið 2000 jafnframt því sem snarlækkaði í vatninu.

Að róa að og með þessu svæði á kayak er einstætt sjónarhorn og upplifun

.Og nú var tekin hvíldar ,kaffi og spjallpása þarna í Hvömmum.

 

Kleifarvatn 021

Að lokinni góðri samverustund þarna í Hvömmun við hverasvæðið í suðurenda Kleifarvatns var róðrinum haldið áfram.

Nú var stefnan yfir á vesturströnd vatnsins.

Tveir stapar ganga út í vatnið að vestanverðu. Syðristapi fyrir miðju vatni en norðar er Innristapi með Stefánshöfða.

 Stefánshöfði heitir eftir Stefáni  Stefánssyni (Stebba guide, 1874-1944) Stefán setti fram þá ósk að ösku hans yrði dreift yfir vatnið að honum látnum. Öskunni var dreift frá Innristapa þar sem nú heitir Stefánshöfði.

Við stefndum á Syðristapa. Nú var komin nokkur norðanvindstrengur og nokkur alda.Okkur miðaði vel að Syðristapa þrátt fyrir nokkurn mótvind og öldu.

Stefnt á Syðristapa, sem skagar út í vatnið

Kleifarvatn 027

Sveifluháls liggur með endilöngu Kleifarvatni að vestan  . Sveifluháls byggðist upp í sprungugosum undir ís en náði aldrei gegnum ísinn. Þetta eru því móbergsfjöll.

Og ýmsar skemmtilegar jarðmyndanir eru við vatnið mótaðar úr móberginu fyrir áhrif vatns og vinda.

Kleifarvatn 036

Þegar komið var framhjá Innristapa og Stefánshöfða var stefnan sett í austur að Vatnshlíðinni það sem bílarnir biðu okkar. 

 11,6 km afbragðs góðum kayakróðri um Kleifarvatn lauk þar um kl 15.

Að róa kajak um eyjar Breiðafjarðar

Þær eru ekki fjölmennar ferðamannaslóðirnar um eyjarnar í mynni Hvammsfjarðar á  Breiðafirði. Væntanlega er helsta ástæðan að eina ferðaleiðin er með bát. 

Á fyrri öldum voru þessar eyjar byggðar og eyjaskeggjar lifðu góðu lífi á því sem eyjarnar gáfu af margvíslegum hlunnindum-einkum fugli og fiski auk þess sem kindur og kýr lögðu til.. Þetta voru taldar matarkistur þeirra tíma.

 Núna um liðna helgi fórum við 38 félagar í Kayakklúbbnum í velskipulagða ferð um eyjarnar sunnan Breiðasunds . Veðurspá var fremur óviss en þó bærilegt útlit .

 Lagt var upp frá  Ósi við Álftafjörð um kl 10 að morgni laugardagsins 6.ágúst 2011. Veður var gott -smágjóla af NA og gott í sjóinn og sólskin. 

Stefnan var sett á Gvendareyjar en þær eru vesturútvörður þessa mikla eyjaklasa í mynni Hvammsfjarðar.

Það var mikill kayakfloti sem lenti við Gvendareyjar um kl 12 til að fá sér hressingu og skoða sig um í eyjunum.

Kayakfloti í Gvendareyjum-kaffipása

Kayakfloti í Gvendareyjum

Mesta spennan var að sjá sjávarfallastrauminn mikla ,Brattastraum sem er milli Bæjareyjar og Hjallaeyjar. Nálægt sjávarfallafjöru er Brattistraumur mikið sjávarfall við sjávarstreymi innan úr Hvammsfirði – straumharður mjög.

Brattistraumur í ham ,nálægt fjöru

Brattistraumur í ham

En á okkar ferð þarna var háflóð og því enginn Brattistraumur en samt nokkur straumur inn í Hvammsfjörðinn.

Allur þessi eyjaklasi er sem þröskuldur milli Breiðafjarðar og Hvammsfjarðar . Sjávarstraumurinn þarf að fara um þrönga ála milli allra þessara eyja sem hægir mjög á flóðatíma milli Stykkishólms og t.d Staðafells á Fellsströnd-eða 2 ja klst. seinkun.

En þetta fyrirbrigði leiðir af sér gríðalega mikla strauma milli allra þessara eyja . Stærsti straumurinn er Breiðaröst sem á flóði er skipgeng.

 Í Röstinni getur straumhraðinn farið í allt að 25 km/klst með tilheyrandi boðaföllum og straumólgu.

 Vegna mikils hæðarmunar á sjávarflóði og fjöru –eða um 4-4.4 m.  verða fjörur miklar og langar og þröskuldar myndast þar sem á flóði er vel fært. Þetta er því síbreytileg veröld þarna til landslagsins og ferðalaga um svæðið.

Þegar við yfirgáfum Gvendareyjar fórum við yfir Brattastraum í talsverðum straum og iðuköstum. Það gekk allt vel utan þess að einn kayakræðari velti bát sínum í einu straumkastinu. Félagarnir voru fjótir að koma ræðaranum uppí bát sinn á ný og haldið var áfram.

Róið yfir Brattstraum á háflæði

Róið yfir Brattastraum

Nú var stefnan sett á Öxney þar sem búskapur var stundaður allt til ársins 1972 og standa bæjarhúsin og eitt bænhús ennþá uppi og tún sæmilegt til að tjalda.  

Nokkuð snúið getur verið að rata um og milli allra þessara hundruða eyja og finna þá réttu. Við vorum vel búin kortum ,áttavitum og GPStækjum og var því rötun auðveld. Um kl 14 var lent í Stofuvogi framan við gamla bæinn í Öxney.

Slegið var upp tjaldbúðum og farangur settur á land.

Síðan var haldið vestur með Öxney og Eiríksvogur heimsóttur. Eiríksvogur er frægur úr sögunni fyrir það að þarna bjó Eiríkur rauði skip sitt til að leita lands sem menn töldu að lægi NV af Íslandi.

Eiríkur rauði fann Grænland og gaf landinu nafnið og settist það að. En í Eiríksvogi er talið að enn megi sjá rústir búða hans. .

 Og áfram var haldið. Áætlað var að fara yfir í Rifgirðingar sem er næsta eyjan norðan við Öxney. Geysandasund skilur á milli.

 Þegar í Geysandasund var komið var útfallsstraumirinn orðinn það stríður og þungur að varhugavert var að fara með allan þennan kayakflota yfir –án vandræða.

Geysandasund var því róið með landi Öxneyjar í þungum en viðráðanlegum mótstraum. Allt gekk það vel.

 Nafnið Geysandasund er tengt þessum mikla straum sem þarna myndast við flóð og fjöru. Þegar við vorum þarna var straumurinn í hámarki.

Einkennilega lítið var um fugla þarna við eyjarnar frá því sem áður var. Æti fyrir sjófugla fer minnkandi þarna . Þó birtust  tveir fullvaxnir hafernir yfir okkur þar sem við rérum norðan við Öxney. Tilkomu mikið sjónspil þessara konunga fuglaflóru Íslands.

Og þegar Öxney sleppti var stefnan sett á Norðurey en hún tilheyrir Brokey sem er lang stærst eyja á Breiðafirði.

Nú var útfallsstraumurinn á móti okkur og því miðaði hægt. Við tókum land nyrst á Norðurey og höfðum þaðan gott útsýni norður að Gagneyjarstraumi sem á þessum tíma var mikið straumkast > 12 km straumhraði /klst.

 Fuglar léku sér að setjast í straumkastið og náðu sér í góða skemmtisiglingu á miklum hraða

. Og þegar við yfirgáfum Norðurey nutum við þess sama og fuglarnir áður-við brunuðum í straumnum í átt að sundinu þrönga milli Brokeyjar og Öxneyjar.

Þegar þangað var komið var komið nærri fjöru og ýmsir þröskuldar í sundinu komnir á þurrt og gerðu för nokkuð erfiða.

En um kl 18 um kvöldið tókum við land við tjaldbúðir okkar í Öxney-en það var löng leið að bera bátana upp fjöruna og á öruggan stað.

 Neðst í öllum fjörum þarna er mikil leðjudrulla og ógreiðfært yfirferðar. Það var því lán að hafa tjaldað þegar háflóð var- sparaði mikinn burð á farangri.

 Nú var komið að sameiginlegum grill kvöldmat þarna skammt ofan við fjöruborðið. Ræðararnir 39 gerðu vel við sig í mat og hóflegum drykk. Að grilli loknu var kveiktur varðeldur með aðfluttum brennikubbum. Og fararstjórinn, Reynir Tómas Geirsson flutti gott og skemmtilegt ágrip af sögu eyjanna þarna allt frá landnámi og þar til byggð lagðist af uppúr 1970.

Reynir Tómas hafði veg og vanda af  undirbúningi þessa ferðar ,+ásamt ferðanefnd og hafði leyfi landeigenda til ferða þarna um.

 Það voru lúnir en ánægðir kayakræðarar sem lögðust til svefns um miðnætti eftir ferðalag dagsins sem var um 20 km róður í straumum og nálægð þessara fallegu og margbreytilegu eyja.

Nokkrar gæsir flugu yfir og lýstu óánægju með þessa aðkomnu gesti sem yfirtekið höfðu land þeirra þessa helgi. Garg þeirra og gagg var mjög margbreytilegt eftir óánægju hverrar fyrir sig... hver bölvaði með sínu nefi...

Og upp reis nýr dagur,sunnudagurinn 7. ágúst-seinni ferðadagurinn.

Skriðið var úr tjöldunum um kl 8 og hlaðið í sig kjarngóðum morgun mat-því mikill róður var fram undan. Tjöldin felld og öllun farangri komið í bátana.

Kl 11 var lagt upp frá Öxney.

Nú var haldið í Bænhúsastraum milli Brokeyjar og Öxneyjar. Veður hafði breyst frá spánni. NA vindstrengurinn hafði leitað sunnar á eyjaklasann og á leið okkar. Kominn var 8-11 m/sek vindstrengur með tilheyrandi öldu Hvammsfjarðarmegin við eyjaklasann.

Nú lá leið okkar til Brokeyjar í mótvindi en með sjávarfallið með okkur.

Milli Brokeyjar og Norðureyjar er mjög þröngt sund sem er brúað milli eyjanna frá fornu. Þar var á seinni hluta nítjándu aldar sett upp fyrsta vatnsvirkjunin á Íslandi sem nýtti sjávarföllin til að knýja kornmyllu. Verksummerki þessarar okkar fyrstu“ vatnsaflsstóriðju“ eru enn sýnileg.

Frá Brokey. Brúin liggur yfir í Norðurey. Rústirnar af kornmyllunni við brúarendann Í Brokey

Uppi á hæðinni sunnan við bæinn höfðu bændur byggt mikinn útsýnisturn til að hafa góða yfirsýn yfir eyjarnar. Um 140 eyjar stórar og smáar tilheyra Brokey. Farið var í turninn og útsýnið skoðað.

Og áfram var haldið og nú austur þetta þröng sund þar sem innfallsstraumurinn fleytti okkur hratt út í Hvammsfjörðinn.

Og nú lá leiðin suður með Brokey og Suðurey.

Öll skilyrði til veðurs og sjávar voru nú gjörbreytt. 10-12 m/sek A- vindur ýfði sjó i krappar öldur og nú mættu þær hinu kröftuga sjávarinnstreymi inní Hvammsfjörðinn .

 Þetta var suðupottur yfir að fara.

Tekin var matarpása í fallegri og skjólsælli vík þarna á suður-austur enda Brokeyjar og hvílst vel fyrir átökin framundan-að fara Ólafseyjarsund í þessum sjó,straum og vindi sem í raun kom svo óvænt.

Við hádegisverð í SA-Brokey

Vík í SA enda Brokeyjar

Um kl 14.30 var lagt upp frá þessari fallegu vík að loknum málsverði.

Nú byrjaði ballið.

 Haugasjór var kominn út Hvammsfjörðinn og hann skall saman við restina af sjávarinnstraumnum þarna við austurendann á Suðurey. Þessi ólæti stóðu yfir í um hálftíma róður en þá fór straumurinn að breytast í útfall og því með okkur og ölduna lægði.

Allir ræðara stóðust þessa áraun með ágætum og enginn valt.

Nokkrir þrautþjálfaðir kayakræðarar úr hópnum héldu uppi öflugri öryggisgæslu og þéttu hópinn- mjög til öryggis. Það skipti sköpum .

Og síðasta áfanganum á þessari róðrarferð okkar um eyjarnar í mynni Hvammsfjarðar lauk með klukkutíma róðri á lensi og með straum um Ólafseyjarsund ,á upphafsstað að Ósi í Álftafirði.

Afbragðs kayakferð um þessar merku eyjar með öllum sínum töfrum og sjávarfallabreytileika og straumröstum-var lokið um kl 16.00 .

 Um 34 km kayakróður var að baki á mjög fáförnum ferðaslóðum í íslenskri náttúru.

 


Einn á kayak umhverfis Ísland í kreppunni...

Að róa einn síns liðs á kayak umhverfis Ísland er mikið afrek.  

Öll strandlínan sem farið er um, er fyrir opnu hafi  og það um eitt erfiðasta hafsvæði heims.  

Gísli H. Friðgeirsson  er nú á kayakróðri sínum umhverfis Ísland og sækist róðurinn mjög vel.  Gísli verður 66 ára gamall á þessu ári .  Það eitt gerið afrek hans því meira en ella. 

 Fullbúinn sjókayak til langferðareinn_a_ro_ri.jpg             

    Til að takast á við svona krefjandi verkefni þarf  gott líkamlegt ástand og þjálfun- en sálræna hliðin er ekki síður mikilvæg . 

   Það er ekki aðeins að sitja í kayaknum í 8-12 klukkustundir á dag og róa.  Landtaka er mjög mismunandi.  Sumstaðar eru góðar sandfjörur-annarstaðar eru fjörur grýttar .

Mismunur á flóði og fjöru getur verið allt að fjögurra metra hæðarmunur

Og ekki er alltaf hægt að lenda og setja á flot á flóði.   Það getur því verið mikið viðbótarerfiði að koma kayaknum í öruggt var yfir  hvíldartíma næturinnar.

Rauða lína sýnir heildarróður Gísla á 15 dögum.

heild_865818.jpg

   Nú hefur Gísli  róið alls 520 km  á þeim 15 róðrardögum sem liðnir eru frá því hann lagði af stað þann 1. júní 2009 frá Geldinganesinu í Reykjavík og þar til hann tók land í Bolungavík við  ‚Ísafjarðardjúp þann 15. Júní 2009. 

Hann fékk samróður kayakfélaga þegar hann réri þvert yfir Breiðafjörðinn frá Stykkishólmi í Brjánslæk og síðan réru nokkrir kayakfélagar með honum  frá Dýrafirði til Bolungavíkur. 

Gísli kayakræðari  hefur verið með eindæmum  heppinn með veður og sjólag  á allri þessari löngu sjóleið.   En þó stillt sé í sjó þá eru straumar samir við sig og gefa ekkert eftir .

Það fékk Gísli kayakræðari að reyna bæði á róðri um eyjar Breiðafjarðar og ekki síst við Bjargtanga þegar hann fór um hina illræmdu Látraröst.  

Látraröstin er eitt erfiðasta siglingasvæði við Ísland og á norðurhveli jarðar einkum fari vindur og alda gegn straumi. 

Og um Látraröst þurfti Gísli kayakræðari að neyta allra sinnar orku til að fara yfir straumkastið við Bjargtanga- en það tókst vel til.   Nú er Gísli kaykaræðari að leggja í næsta róðraráfanga sinn á hringferð um Ísland- að fara fyrir Hornstrandir  og til norðurlandsins...

Gísli hittir kayakfélaga úti fyrir Vestfjörðum

gisli_og_ingi.jpg

Það eru því ekki allir landsmenn og konur upptekið af IceSave eða  ekki IceSave- svikulum bankastjórum og  misheppnuðu útrásarliði.  

    Lífið getur verið miklu skemmtilegra og meira gefandi - þó auðvitað verði að takast á við hrunið og afleiðingar þess.  

    Þessi mikla áskorun Gísla H. Friðgeirssonar , að sigra í sínu mikla ætlunarverki - að róa einn síns liðs á kayak umhverfis Ísland  gæti verið mörgum öðrum fyrirmynd við þá baráttu sem  þessi þjóð er nú að ganga í gegnum. 

Að takast á við vandann - vinna á honum og sigra--- eða er það ekki ? 

Til þess þarf dug og þor- af því eigum við Íslendingar nóg - notum það bara...

 

 


Ferð um Ameríku og Kanada

Ekki neitt smáflæmi af landi hún norður Ameríka. Því kynntist ég ansi vítt og breitt með því að ferðast um hin ýmsu fylki á bíl. Ég og mín kona áttum þess kost að ferðast með innfæddum í heilar 3 vikur frá Baltimore í Maryland um Virginíu,Tennessee,Kentucky,Iowa,Missouri,Kansas, Illinois,Nebraska og Norður og Suður Dakota. Einnig var farið til Gimli í Kanada.

Ekki var stoppað í hinum ýmsu stórborgum á leiðinni heldur ekið um þær. Þessar stórborgir eru jú flestar með þessum sömu einkennum í henni Ameríku . Þó verð ég að gefa borgum eins og Kansas City og St. Louis góða einkunn fyrir flott borgarstæði við árnar Missouri og Missisippi. Chattanooga á mótum fylkjanna Tennesee og Georgíu er einkar falleg smáborg í skógivöxnum fjallasal þar sem áin Tennesee skiptir bænum í tvo hluta...virkilega flottur staður.

Eins og að líkum lætur lá þessi leið um ein mestu kornræktarhéruð Bandaríkjanna og á gresjunum miklu er landið flatt og einkenna kornakrar það svo langt sem augað eigir hvert sem litið er , landslagið er þó með skógarbeltum ,víða, til frekara augnayndis.

Þurrkar miklir hrjáðu þessi miklu kornræktarhéruð þetta sumarið og voru víða sölnaðir og ónýtir kornakrar á leið okkar..mikið áhyggjumál bændanna þar. Gististaðir okkar voru á svokölluðum Modelum,ódýrir og góðir gististaðir.

Mt Rushmore Mt .Rushmore, brjóstmyndir forsetanna

Lengst var farið í vestur til Mount Rushmore í Suður Dakota Sá staður varðveitir eitt af þjóðargersemum Bandaríkjanna, brjóstmyndir höggnar í granítkletta mikla af fjórum forsetum Bandaríkjanna, þeim Washington,Jefferson, T.Roosevelt og Abraham Lincoln. Verk þetta er alveg stórbrotið.

Byrjað var á verkinu árið 1927 og því lauk ekki fyrr en árið 1941. Danskættaður maður var frumkvöðull og stjórnandi verksins.

Þessu næst lá leiðin norður til Íslendingabyggðarinnar í Mountain í Norður Dakota.Í Mountain fór í hönd mikil hátíð  sem við vorum viðstödd.

Kórar í Mountain Sameinaðir kórar syngja í Mountain

Afhjúpaður var minnisvarði um Thingvallakirkju sem þarna stóð, en brann fyrir nokkrum árum. Viðstaddir voru m.a ,margir Íslendingar að heiman m.a Geir Haarde og frú. Tveir kórar, annar frá Húsavík ,en hinn í Garðabæ sungu við hátíðina. Ánægjulegt var að finna hlýhug allra þeirra Vestur Íslendinga sem við hittum þarna og ánægju þeirra að fá svona marga gesti að "heiman". ‘I kirkjugarðinum við Thingvallakirku er meðal annara Íslendinga sem fluttu vestur og settust  að og eru jarðsettir þarna , er skáldið góða,  Káinn.

 

Ekki var látið staðar numið í Mountain heldur haldið áfram yfir til Kanada og til Gimli.

Geir Haarde og frú_002 Geir Haarde og frú á hátíðarakstri í Gimli

Þar var einnig mikil Íslendingahátíð . Sérlega gaman var að hitta þar roskið fólk sem fætt var þarna og uppalið, en talaði samt mjög góða íslensku. Þessu fólki þótti afar mikið til um heimsókn okkar frá" gamla landinu" Og eins og í Mountain voru tignargestir frá Íslandi þau Geir Haarde og frú og fleiri mætra manna og kvenna að heiman.

Þetta varð hápúnktur ferðar okkar og læt ég hér staðar numið.

 

Góða skemmtun


Langisjór

P1010026 Frá kayakróðri á Langasjó

Við fórum nokkrir félagar úr Kayakklúbbi Reykjavíkur ,alls 10 manns, í róðrarferð á Langasjó dagana 18 og 19 ágúst 2007.

Langisjór er í 670 metra hæð yfir sjó og  liggur frá suðvesturhlið Vatnajökuls með stefnu suðvestur-norðaustur.

Við hófum róðurinn frá veiðihúsinu sem þarna er við suðurenda vatnsins og rérum inní norðurbotn Langasjávar ,alls 20 km róður eða 40 km fram og til baka . Náttúrufegurð  þarna er stórbrotin, eyjar margar og litskrúðugar ,svo og hellar uppaf fjöruborðinu skapa ævintýraheim og vatnið kristaltært .

Slegið var upp tjaldbúðum inni í norðurenda Langasjávar, skammt undan Vatnajökli ,og við ljósaskiptin var kveiktur varðeldur með brennikubbum sem við höfðum í farteskinu.  Setið var við eldinn fram undir miðnætti í þessu magnaða og ægifagra umhverfi, við spjall og ekki síst ...þögn.

Nokkuð kalt var um nóttina vegna smá kuls frá Vatnajökli 

Allt framundir vor þessa árs var á plani að gera uppistöðulón þarna vegna raforkuvirkjunnar og veita Skaftá til Langasjávar með tilheyrandi stíflugörðum hér og þar og hækka með því vatnsyfirborðið um marga metra af gruggugu vatni frá Skaftánni og með tilheyrandi sveiflu á vatnsyfirborði hausta á milli... og þar með  eyðileggingu á þessu ægifagra umhverfi sem nú er.

 Sem betur fer er Langisjór nú kominn á friðunarlista og verður vonandi að eilífu...þessi náttúruperla.

Við lukum síðan kayakróðrinum þar sem bílarnir biðu okkar við veiðihúsið um kl 16. þann 19.ágúst.

Það voru alsælir kayakræðarar sem kvöddu Langasjó á þessum síðsumareftirmiðdegi 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband