Fiskveiðistjórnun og fyrningaleið aflaheimilda.

Það er þungur áróður á síðum  Morgunblaðsins ,málgagns útgerðarmanna,þessa dagana.  Hið illræmda og skaðlega kvótakerfi  er varið sem heimsendir verði , leyfi ríkisstjórnin sér að færa veiðiheimildirnar til eigenda þeirra- íslensku þjóðarinnar.

Í 1. gr. Fiskveiðistjórnunarlaga segir svo :

Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar ... Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.

Þegar kvótakerfinu var komið á fyrir rúmum 20 árum var  það gert vegna ofveiði og offjárfestingar í sjávarútvegi.

Takmörkun veiða myndi koma í veg fyrir að of nærri veiðistofnum yrði gengið. Hagkvæmni fjárfestinga úgerðarinnar myndi aukast.  Þeir sem veiðiheimidir fengu í upphafi voru þeir sem áttu skip með 3ja ára veiðireynslu.

Þessar heimildir voru veittar án nokkurrar gjaldtöku- skipaeigendur fengu kvótann gefins. Sjómenn eða fiskverkafólk fékk enga hlutdeild né byggðalög landsins.

Þessu fylgdu fá vandamál í upphafi. Eðlisbreyting verður árið 1990 þegar kvótahafar fá það samþykkt að framsal veiðiheimilda verði heimilt- kvótinn öðlast verðgildi- það er hægt að selja hann og veðsetja.

Framsalið er upphafið að allri ógæfu þessa fyrirkomulags. Veiðiheimildir fóru að ganga kaupum og sölum ,fyrir offjár og fjármunir að leita út úr greininni.

 Byggðalög voru lögð í rúst víða um landið þegar veiðiheimildir , oft eins skipaeiganda, voru seldar útúr viðkomandi bæjarfélagi.

Fólkið sat uppi með skerta atvinnu og verðlausar húseignir- réttur þess var enginn gagnvart veiðiheimildum.

Og veiðiheimildir söfnuðust á æ færri hendur. Ný stétt myndaðist ,leiguliðar aflaheimilda. Kvótahafar fóru að leigja frá sér kvótann til þeirra sjómanna sem engar höfðu veiðiheimildir. Lénsherrar í sjávarútvegi urðu til. Og kvótinn gekk í erfðir.

Talað er um að um 90 %  frumaflaheimilda hafi skipt um eigendur með sölu þeirra og því séu núverandi kvótahafar því réttmætir eigendur- þeir hafi greitt fullt verð fyrir og því séu þeirra aflaheimildir ótvíræð eign þeirra. 

Þessi tala, 90%, er stórlega dregin í efa.  Stórfyrirtæki í útgerð svo sem Grandi og Samherji eru með frumúthlutanir kvótaheimilda (gjöf) ásamt því að önnur fyrirtæki hafa sameinast þeim með sinn gjafakvóta.

Og hver er reynslan af upphafinu sem átti að vera mikill og stöðgur ársafli vegna verndunaráhrifa veiðiheimildanna (takmörkuð sókn)  og stóraukin hagkvæmni útgerða (fækkun skipa) ?

Í dag er staðan sú að veiðiheimildir hafa aldrei í sögunni verið minni vegna ástands fiskstofna og útgerðin er ofurskuldsett vegna yfirveðsetninga sem nemur milli 5-600 milljörðum króna. Stórkostleg verðmælti hafa runnið út úr greininni.

 Fræg eru dæmin með sægreifann í Vestmannaeyjum sem veðsett hefur kvótann fyrir stóru bílaumboði , luxusþyrlukaupum og rekstri og sportvöruverslun sem nýverið fór  þrot- allt óviðkomandi sjávarútvegi. Yfirveðsetning vegna hlutabréfakaupa í bankabólunni er stærsti vandi þessara kvótahafa í dag- einnig óskylt útgerð.

Þetta illræmda og stórskaðlega kvótakerfi hefur gengið sér til húðar auk þess að það innifelur mannréttindabrot að mati Sameinuðu þjóðanna. Kvótahafar í núverandi mynd hafa ekki reynst hæfir til að bera þá ábyrgð sem þeim var falin. Þjóðin vill breytingar.

Nú eru í ríkisstjórn flokkar sem hafa í stjórnarsáttmálanum að fiskveiðikerfið skuli stokkað upp . Farin skuli fyrningaleið til innlausnar á kvótanum ,5% /ári og að við framtíðar úthlutun veiðiheimilda skuli leiga ríkisins koma til og að allir sitji við sama borð .

Hinu nýja kerfi er ennfremur ætlað að styrkja byggð allt umhverfis landið. Hér þarf að vanda til verka og að allir hagsmunaðilar , útgerðarmenn, fiskvinnslan og fólkið í byggðum landsins - komi að málum.

Friður verður að ríkja um þessa mikilvægustu auðlind okkar og nýtingu hennar- hún er sameign okkar allra-ekki séreign fárra útvalinna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband