Á áfram að úthýsa lífeyrisþegum ?

Nú er Alþingi tekið til starfa fimm mánuðum eftir myndun nýrrar ríkisstjórnar.  Hátt var talað og miklu lofað í  kosningabaráttunni í þá veru að stórbæta yrði kjör aldraðra. Sumir flokkar fengu mikið fylgi út þennan málflutning og fór Samfylkingin ekki varhluta af því. Nú er Samfylkingin komin í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki- ekki neitt smá afl þar á ferð leggi þessir flokkar krafta sína saman  til að bæta kjör aldraða í þessu landi.

Nú bíða eftirlaunaþegar efnda á þeim málflutningi sem haldið var svo mjög á lofti í undanfara kosninganna. Hjá mjög stórum hópi eru kjörin verulega slæm og til vansæmdar hjá  ríkustu þjóð heims.  Allt hefur þetta verið skoðað og mælt á síðustu misserum og ekki nein sérstök þörf á að eyða frekari tíma í að setja nefndir á nefndir ofan til að skoða þetta allt betur - það er komið að úrlausn fyrir þá lakast settu og það strax. 

Einstaklingar í hópi lífeyrisþega eru með rúmar 126 þús. kr. á mánuði og hópurinn er mjög stór. Þá er eftir að greiða skatta af þessari upphæð þannig að eftir standa aðeins 113 þúsund kr. til að lifa af mánuðinn. Ljóst má vera að þetta fólk lifir ekki í neinum vellystingum-þvert á móti það dregur fram lífið.

Mæld neysluútgjöld einstaklinga eru 210 þús. kr/mánuði þannig að hér ber mikið á milli lífeyrisþegum í óhag.

Það má teljast sanngjarnt að hækka lífeyri þessa hóps um 35-45 þús. kr á mánuði nú þegar  sem fyrsta áfanga í endurreisn lífeyrismála þessa fólks sem lokið hefur starfsævinni - annað er ekki sæmandi.

Alþingi íslendinga tók myndarlega á lífeyrismálum ráðherra,þingmanna og ýmissa æðstu embættismanna nú fyrir fáum árum svo sem alþjóð er kunnugt ,þannig að þeir ættu glöggt að skynja þörfina hjá þeim sem við lökust kjörin búa. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þakka þörf orð og í tíma töluð. Þú gleymdir bara að minnast á tekjutengingarnar það mikla mannréttindabrot. Allar tekjurtengdar bætur á vegum ríkisins reikna með tveimur fyrirvinnum (húsaleigubætur, vaxtabætur, fæðingarorlof) þegar kemur að lífeyrisþegum telur Alþingi nógu gott í okkur að þiggja rétt rúmlega ein laun.  Ég er öryrki og ef ég segi einhverjum nákvæmlega hvað ég hef í laun verður fólk alltaf frekar vantrúa á svipinn. Skilaboðin eru ,,það lifir enginn á þessu". sem dæmi um  hvað þessar tengingar geta virkað öfugt þá fékk ég 400 þús. króna skerðingu á mínar bætur vegna árs 2004 vegna launahækkunar sem maður minn ,,varð fyrir". Þar með skertist tekjutrygging frá TR og við það hækkuðu fasteignagjöldin mín sjálfkrafa. Þetta tvennt til saman gerði meira en að éta upp launahækkun manns míns, það er ekki bara ég sem er dæmd til að geta ekki aukið tekjur mínar, það kemur líka niður á maka mínum.

Ef skattleysismörkin yrðu hækkuð í 90 þús. væri þegar komin verulega góð kjarabót fyrir láglaunastéttir í landinu, ekki eingöngu lífeyrisþega. Það væri ágæt byrjun.

Guðrún Jónína Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 26.10.2007 kl. 13:47

2 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Átti einhver von á að staðið yrði við kosningaloforð?

Mesta ranglætið í þessu öllu eru skerðingar vegna fjármagnstekna af því sem launþeginn hefur getað nurlað saman á starfsævinni. Lágmark væri að fjármagnstekjur innan við 5 milljónir á hjón skertu ekki ellilífeyri þeirra.

Sigurður Hreiðar, 26.10.2007 kl. 14:12

3 Smámynd: Sævar Helgason

Ekki gleymdi ég nú þessum tekjutengingum og ástæðan er sú að ekki var um þær fjallað er að félagsmálaráðherra, hún Jóhanna Sigurðardóttir, hefur skipað starfshóp til uppskurðar á þessu almannatryggingakerfi eins og það leggur sig .

Kerfi þetta er þvílíkur bútasaumur  sem orðið hefur að hreinum óskapnaði sem fáir eða enginn skilur.

Eftir því sem mér skilst er starfshópur þessi undir hörðu keyri Jóhönnu um að koma með fyrstu bráðatillögur nú í nóvember og halda síðan starfinu áfram og ljúka því snemma árs 2008.

Í þessum starfshópi er mjög hæft fólk og eru bundnar miklar vonir við þá niðurstöðu sem frá því kemur- það er síðan framhaldið- hvernig viðtökur fær félagsmálaráðherra í ríkisstjórninni með umbætur ? 

Besta sem almenningur getur gert er að styðja við bakið á félagsmálaráðherra í erfiðu starfi.

Sævar Helgason, 26.10.2007 kl. 17:27

4 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Þetta er góð grein hjá þér Sævar, Það hefur ekki á það vantað að alþingismenn hafa mokað undir sjálfan sig á meðan þeir skerða þá sem minst hafa. Það skiptir miklu máli að menn og konur skrifi um þessi mál oft, mikið og alstaðar sem fæti gefst, Það hefur áhrif á næstu kosningar.

kveðja

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 27.10.2007 kl. 13:09

5 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

á að vera alstaðar sem færi gefst

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 27.10.2007 kl. 13:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband